Draumur í dós?

Á dögunum var kynntur nýr menntaskóli sem tekur til starfa í haust. Allir nemendur fá fartölvur, engin hefðbundin próf verða til staðar og nám til stúdentsprófs tekur þrjú ár. Draumur í dós, eða hvað?

Á dögunum var kynntur nýr menntaskóli sem tekur til starfa í haust. Allir nemendur fá fartölvur, engin hefðbundin próf verða til staðar og nám til stúdentsprófs tekur þrjú ár. Draumur í dós, eða hvað?

Þessi nýji menntaskóli mun bera heitið Menntaskóli Borgarfjarðar og verða fyrstu nemendurnir teknir inn í haust. Skólinn er einkaskóli og rekinn af einkahlutafélagi. Engin skólagjöld verða þó innheimt og því ættu nemendur ekki að bera meiri kostnað en ef þeir væru í opinberum skóla. Hér er á ferðinni mjög spennandi hugmynd og tímabær viðbót við möguleika nemenda á framhaldsskólastigi.

Fjölbreytni og nýjungar gætu verið slagorð þessa nýja skóla en mikið verður lagt upp úr einstaklingsmiðuðu námi. Til stendur að hver og einn nemendi fá fartölvu frá Apple til afnota meðan á skólagöngu stendur enda verður mikil áhersla lögð á tækninýjungar en ekki verður boðið upp á hefðbundnar kennslustundir. Í staðinn geta nemendur nálgast fræðatíma á netinu.

Einnig verða kennarar með sérstakar málstofur þar sem kennslueiningar verða minni, þ.e. færri nemendur á hvern kennara. Þetta fyrirkomulag er mjög spennandi en minni kennslueiningar eru einmitt það sem við háskólanemar berjumst eilíflega fyrir enda eru þær mun skilvirkari en svokölluð ,,massa”kennsla þar sem einn kennari er með yfir 100 manna bekk.

Til að námið verði sem mest einstaklingsmiðað verður þróað það sem kallað er ,,flæðinám”. Það felur í sér að nemendur taka einingu fyrir einingu í hverri námsgrein. Þannig geta nemendur verið misjafnlega lengi með hvern áfanga en enginn fellur þó.

Kennarar munu ekki einungis notast við hefðbundin próf við mat á nemendum, heldur verður meira stuðst við símat, þar sem nemendur eru metnir út frá frammistöðu í málstofum, verkefnum, skyndiprófum og munnlegum prófum. Þetta er að sjálfsögðu frábær nýjung enda fyrirkomulag hefðbundinna prófa löngu komið á síðasta söludag.

En það sem mér finnst athyglisverðast við þennan nýja skóla er að boðið verður upp á almenna námsbraut og starfsbraut fyrir fatlaða nemendur. Þar verður kennslan að fullu einstaklingsmiðuð og markmiðið verður að undirbúa nemendur fyrir þátttöku á vinnumarkaði. Mjög mikilvægt er fyrir fatlaða nemendur, sem almennnar námsbrautir henta ekki, að hafa góðan valkost til að þroska eigin hæfileika og getu.

Hér á ferðinni glæsileg nýjung í flóru menntaskóla á Íslandi og vonandi að skólinn muni standast væntingar. Fjölbreytni í menntun og einstaklingsmiðað nám er það sem koma skal og því ástæða til að fagna framtaki á borð við Menntaskóla Borgarfjarðar.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.