Gleðilega páska

Venju samkvæmt flytur sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson lesendum Deiglunnar hugvekju á páskadag. Hann minnir okkur á að kristin trú hvetur okkur til að treysta náunganum og vera samferða honum en óttast hann ekki og tortryggja.

Það er athyglisvert að stór hluti guðspjallana fjallar um síðustu dagana í lífi Jesú. Öll guðspjöllin fjögur segja frá þessum atburðum í löngu máli. Þeim ber ekki saman í öllum atriðum en ágætlega í því sem mestu skiptir.

Og hvað svo sem okkur finnst um Jesú frá Nazaret eða kristna trú yfirleitt þá er alveg augljóst að eitthvað átti sér stað á páskum fyrir löngu síðan sem var óvænt og algjört einsdæmi. Það sem gerðist hafði afgerandi áhrif á vini Jesú og síðan á veraldarsöguna. Um það þarf ekki að deila því að áhrifin af frásögum guðspjallana um atburði dagana fyrir páska gyðinga og síðan undrið mikla á páskadag kom á stað atburðarás sem enn sér ekki fyrir endann á og hefur haft mikil og afgerandi áhrif á einstaklinga og þjóðir.

Vinir Jesú, lærisveinahópurinn, sem hafði fylgt meistara sínum varð fyrir þungu áfalli þegar allt virtist vera að fara á versta veg. Hann, sem fylgjendur hans höfðu treyst og vænst svo mikils af, var líflátinn eins og ótíndur þrjótur og ræningi. Allar vonir þeirra um upphefð og velgengni reyndust hjóm eitt og einskis virði. Og þeir voru hræddir. Hræddir við yfirvöld og þeir óttuðust framtíðina. Hvað yrði um þá sem voru óburðugir og áttu ekki mikið undir sér. Þeir höfðu yfirgefið allt og nú áttu þeir ekki neitt. Þeir voru óttaslegnir.

Óttinn hefur fylgt mannkyninu alla tíð. Hann er nauðsynleg tilfinning þegar hættu ber að höndum og eðlilegur gagnvart því sem við þekkjum ekki. En óttinn getur lagt fjötra á okkur og komið í veg fyrir að við njótum okkar sem einstaklingar og gengið áfram og notið þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Óttinn við lífið og óttinn við dauðann dregur úr möguleikum okkar á að njóta alls þess góða og skemmtilega sem lífið hefur að bjóða þegar vel tekst til. Ef til vill er ekkert jafn slæmt og varasamt í lífinu eins og óttinn. Eins og sá ágæti keisari og heimspekingur Marcus Aurelius sagði: “ Það er ekki dauðinn sem maður ætti að óttast. Hann ætti að óttast það að hafa aldrei byrjað að lifa.”

Jesús frá Nazaret gerði sér fullkomlega grein fyrir því að ótti og hræðsla leggur byrðar á fólk og takmarkar lífsgleðina. Aftur og aftur leggur hann áherslu á við áheyrendur sína að þeir skuli ekki vera hræddir. Óttist ekki, sagði hann. Verið ekki hrædd. Hann hvatti fylgjendur sína til að treysta og trúa. Treysta Guði og þjóna honum og að þjóna náunganum í kærleika og postulinn Jóhannes minnir á að í kærleikanum býr enginn ótti. Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann.

Kristin trú hvetur okkur til að treysta náunganum og vera samferða honum en óttast hann ekki og tortryggja.

Við, sem nú erum á dögum, lifum á miklum breytingatíma. Í öllum þessum breytingum sem fylgja breyttum lífsháttum og samskiptum þá vaknar upp ótti við breytingarnar og um leið krafa um að stíga á bremsurnar og hamla gegn þeim.
Það gengur ekki núna frekar en áður. Við eigum ekki að óttast breytingarnar heldur eigum við að takast á við þær og nýta öllum til góðs.

Kristur kom til að frelsa okkur frá áþján og ótta.

Lærisveinarnir voru óttaslegnir og á bak við luktar dyr. En undur páskanna gerði þá óttalausa og þeir gengu út til móts við lífið og samferðafólkið. Ef þeir hefðu ákveðið að bregðast ekki við og haldið því fyrir sig sem þeir upplifðu þá hefði veröldin orðið fátækari og önnur en hún er.

Kristin trú hefur alltaf lagt áherslu á vonina og gleðina. Það eru þær tilfinningar sem best lýsa páskum. Gleðin yfir því að lífið sigrar og Jesús lifir. Hann lifir alls staðar þar sem erindi hans nær fram að ganga í samskiptum fólks. Og vonin um að hvernig sem allt veltist í veröldinni þá mun hið góða fá framgang og lífið mun sigra í samskiptum fólks sem treystir og lætur ekki óttann þrengja að sér.

Kjartan Örn Sigurbjörnsson

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)