Afnám verðtryggingar

Síðasta sunnudag birtist heilsíðuauglýsing í Fréttablaðinu frá Frjálslynda flokknum sem valdið hefur miklu fjaðrafoki enda virðast þeir ætla að gera innflytjendastefnu að einu aðalkosningamáli sínu í vor. Öllu minna fór fyrir lítilli auglýsingu á forsíðu sama blaðs. Sú auglýsing sagði pent: “Afnemum verðtryggingu á lánsfé”.

Síðasta sunnudag birtist heilsíðuauglýsing í Fréttablaðinu frá Frjálslynda flokknum sem valdið hefur miklu fjaðrafoki enda virðist sá flokkur ætla að gera innflytjendastefnu að einu aðalkosningamáli sínu í vor. Öllu minna fór fyrir lítilli auglýsingu Frjálslyndra á forsíðu sama blaðs. Sú auglýsing sagði pent: “Afnemum verðtryggingu á lánsfé”.

Verðtrygging og vaxtaokur hafa verið fólki mjög á milli tannanna enda hefur sú þensla sem nú er í þjóðfélaginu valdið mikilli verðbólgu og knúið Seðlabankann í að hækka stýrivexti sína sífellt meira. Þetta skilar sér svo í aukinni greiðslubyrði almennings með verðtryggð húsnæðislán og himinhá yfirdráttarlán á bakinu.

Nú hyggjast Frjálslyndir hins vegar leysa vandann. Þeir ætla sér að afnema verðtryggingu á lánsfé, en hvað felst í því að lán sé verðtryggt? Í grunninn eru lán óverðtryggð og þannig er það víðast um heim. Þá lofar lántakandinn því að greiða lánsfjárhæðina til baka ásamt þeim vöxtum sem tilteknir eru á láninu. Ýmist geta þessir vextir verið fastir yfir allt lánstímabilið (og lántakandi greiðir þá sömu krónutölu til baka á hverjum gjalddaga) eða þeir geta verið breytilegir (þá sveiflast þeir í takt við markaðsvexti sem fylgja vöxtum Seðlabankans að mestu og þá greiðir lántakandi hærri krónutölu þegar vextir eru háir í hagkerfinu). Það að taka verðtryggt lán er að semja um það við bankann að í stað þess að greiða þá vexti sem eru af óverðtryggðu lánunum þá greiði lántakandinn mun lægri vexti en í staðinn lofi hann að láta lánið hækka sem nemur verðlagi í landinu. Sú hækkun á láninu kallast verðbætur. Í dag er lántakandi sem tekur verðtryggt húsnæðislán að velja að greiða 5% ásamt því að lánið hækki í takt við verðlag í stað þess að greiða vexti sem nú eru um og yfir 16%. Almennt er þetta mun heppilegar fyrir lántakandann, eins og kom fram á Deiglunni fyrir rúmu ári, þar sem laun hans hækka yfirleitt nokkurn veginn í takt við verðlag (og yfirleitt nokkuð meira). Þannig hækkar greiðslubyrði hans þegar hann hefur meira á milli handanna. Greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum sveiflast mun meira miðað við tekjur lántakandans að öllu jöfnu. Sem sagt: Lántakandinn hefur mun jafnari greiðslubyrði ef hann tekur verðtryggða lánið. Auk þess veitir verðtryggingin bönkunum meira öryggi á láninu þannig að almennt eru verðtryggð lán einfaldlega hagstæðari en óverðtryggð að því leyti að lántakandi greiðir hreinlega færri krónur til baka, þótt þetta sé ekki algilt.

Frjálslyndir vilja afnema verðtrygginguna. Eini möguleiki þeirra til þess væri að banna lánastofnunum að veita verðtryggð lán. Það eina sem það myndi breyta væri að valið yrði tekið af lántakandanum og hann sæti uppi með óverðtryggða lánið á mun hærri vöxtum og ójafnari greiðslubyrði. Að sjálfsögðu myndi verðtrygging á núverandi lánum óbreytt þar sem annars þyrfti að breyta samningum sem fjöldi fólks hefur gert. Þessi leið væri gerleg, jafnvel þótt hún yrði engum til hagsbóta og algjörlega tilgangslaus.

Þetta er hins vegar varla það sem Frjálslyndir ætla sér ef tekið er mið af því sem þeir segja í stjórnmálayfirlýsingu á heimasíðu sinni. Þeir hyggjast nefnilega beita sér fyrir “afnámi verðtryggingar og vaxtaokurs” þannig að væntanlega ætla þeir sér að breyta vaxtastiginu í landinu. Ef ætlunin er að setja einhvers konar hámark á vexti sem útlánastofnanir mega veita yrði það afleitt fyrir alla aðila, sér í lagi lántakendur. Útlánastofnanir þurfa að fá lánað það fé sem þeir lána sjálfir út og þurfa að greiða sínum skuldunautum vexti af því. Eins og staðan er til dæmis í dag eru hagstæðustu lán sem bankar geta fengið á 14% vöxtum frá Seðlabankanum. Ef sett yrði þak á vexti, í segjum 10%, þá myndi það einfaldlega þýða að bankar myndu tapa 4% á ári á öllum lánum. Þetta myndu þeir að sjálfsögðu aldrei gera og niðurstaðan yrði sú að bankar myndu ekkert lána, enginn gæti keypt húsnæði, húsnæðisverð myndi hrynja. Í stuttu máli, allt færi til fjandans. Mergurinn málsins er nefnilega sá að það er Seðlabankinn sem stýrir því hvaða vexti landinn greiðir og bankar hafa þar mun minna um að segja. Þá veltir maður því fyrir sér hvort Frjálslyndir vilji kannski bara neyða Seðlabankann til að lækka sína vexti. Slíkt myndi þýða afnám hagstjórnar í landinu og aftur, það yrði afleitt fyrir alla aðila, svo ekki sé meira sagt.

Í stuttu máli eru yfirlýst markmið Frjálslyndra um “afnám verðtryggingar og vaxtaokurs” algjörlega út í hött. Þau eru gjörsamlega óframkvæmanleg og annað tveggja hlýtur því að vera satt: Annaðhvort hafa Frjálslyndir ekki minnstu hugmynd um út á hvað vextir og hagstjórn ganga eða þeir eru að kasta popúlarísku ryki í augu kjósenda í aðdraganda kosninga. Hvorugt er einkenni stjórnmálaflokks sem á að koma nálægt stjórn landsins.