Lýðlýðræði

Íbúalýðræði er nú vinsælt orð. Þökk sé þátttöku Hafnfirðinga í kosningum um tillögu að ákveðnu deiliskipulagi. En orðið er æði sérstakt. Hefðbundin skýring á orðinu lýðræði er að lýðurinn ráði. Lýður merkir líka íbúar og því má hæglega segja að verið sé að tala um lýðlýðræði. Klárlega útúrsnúningur og afbökun á afbökuðu orði. En ef að er gáð er þetta ágætis orð um fólk að taka ákvörðun er varðar annað fólk.

Orðið lýðræði er notað um það stjórnarfyrirkomulag að valdhafar verða að sækja umboð til að stjórna ríkisvaldinu til lýðsins en ekki guðs eða annarra álíkra einræðisherra. Lýðurinn ræður þannig hverjir fari með völd ríkisins. Í hefðbundnum lýðræðisríkjum er gjarnan stuðst við það fyrirkomulag að lýðurinn kjósi valdhafa með jöfnu millibili í almennum kosningum. Þetta er í hnotskurn inntak orðsins lýðræði og ekki mikið meira um það að segja. Hins vegar er rétt að geta þess að lýðræðisfyrirkomulagið er langt frá því gallalaust. En af mörgum vondum stjórnarkostum er almenn samstaða um að lýðræðið er langtum skásti kosturinn.

Einn augljós galli sem fylgir lýðræðinu er það sem kallað hefur verið kúgun meirihlutans. Í einföldu máli er það þegar 49,7% íbúa verða að sætta sig við ákvörðun 50,3% íbúa. Þetta getur oft ekki talist sanngjarnt en þó sanngjarnara að meirihlutinn ráði frekar en minnihlutinn. Í grunninn er ekki sanngjarnt og eðlilegt að einn aðili taki ákvörðun fyrir annan aðila og gegn hans vilja. Í íslensku samfélagi hefur því miður verið búið svo um hnútana að ríkisvaldið getur tekið margar ákvarðanir er varða borgaranna og oft á tíðum gegn vilja margra þeirra.

Svokallað íbúalýðræði er ekkert annað en framsal kjörinna valdhafa á ríkisvaldinu til meirihluta íbúanna til þess að taka ákvörðun gegn vilja minnihluta íbúa. Slíkt framsal kemur í kjölfar valdaframsals íbúa til kjörinna fulltrúa í meirihluta til að taka ákvörðun gegn vilja minnihluta kjörinna fulltrúa er varðar alla íbúa. Vitleysa?

Í sjálfu sér skiptir ekki öllu máli hvort ákvarðanir ríkisvaldsins séu teknar í skjóli fulltrúalýðræðis eða svona íbúalýðræðis. Borgararnir hafa af því ákveðið hagræði að framselja vald til kjörinna fulltrúa en á móti kemur að það er til lítils ef kjörnir fulltrúar geta ekki gert upp hug sinn eða hafa enga stefnu. Þá er kannski alveg eins gott að láta borgarana sjá um ákvarðanatökuna fyrir kjörna fulltrúa sem eru einmitt kjörnir til þess að taka ákvörðun en geta það svo ekki. Það gæti líka verið áhugavert ef kjörnir fulltrúar endurframseldu til borgaranna vald ríkisins til að ákvarða skattprósentuna.

Vandamálið er að ríkisvaldið teygir anga sinna lengra en góðu hófi gegnir og vald stjórnmálamannanna er alltof mikið. Lausnin er því einfaldlega að minnka vald ríkisins í stað þess að búa til flókið kerfi utan um hverjir eigi að taka ákvarðanir og fara með vald hins opinbera. Sanngjarnast og eðlilegast er að hver og einn íbúi fái frið til að ráðstafa sem mest sínum málum sjálfur án íhlutunar þeirra sem þykjast geta haft vit fyrir öllum öðrum.

Það er ágætis sátt á Íslandi um að ríkisvaldið sinni ákveðnum samfélagsmálum og hafi forræði á ákvörðunum er varða almannahag. En það verður aldrei sátt um ofríki ríkisvaldsins og forræðishyggju meirihlutans gegn rétti einstaklingsins til að ráða sínum málum sjálfur. Það gengur bara ekki að eitthvað fólk taki ákvarðanir um hvernig annað fólk eigi að haga sér, hvað það eigi að borða eða hvað það eigi að starfa við. Stjórnlyndi er illa séð í frjálsu og umburðarlyndu samfélagi.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.