Í klóm blekkinga og svika

Deiglan fjallar ítarlega um réttarstöðu aðila vegna myndarinnar „Í skóm drekans“ sem á að frumsýna bráðlega.

Innan skamms verður tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur lögbannskrafa aðstandenda og keppenda í Ungfrú Ísland.is á hendur ungum kvikmynda-
gerðarmönnum vegna myndarinnar „Í skóm drekans“ sem á að frumsýna bráðlega.

Í þessari annars háværu deilu hafa kvikmynda-gerðarmennirnir vísað óspart til tjáningarfrelsis og listræns frelsis til að verjast kröfum um lögbann. Í sumum fjölmiðlum hefur þeim meira að segja verið hampað sem miklum listamönnum og krossförum tjáningarfrelsis. Minni gaumur hefur verið gefinn að friðhelgi einkalífs keppenda sem eru sýndir í myndinni. Það er þó ljóst að myndin er ákaflega gróf innrás inn í einkalíf þeirra þar sem mikill hluti myndarinnar var tekinn á lokuðum svæðum sem almenningur hafði ekki aðgang að. Þarna takast því klárlega á rétturinn til tjáningar gegn réttinum til friðhelgis einkalífs.

Þegar myndataka fer fram á lokuðu svæði verður að líta til aðdraganda og aðstæðna við myndatökuna, sérstaklega þess hvort einstaklingar samþykktu myndatökuna og á hvaða forsendum samþykkið var. Samkvæmt heimildum sem Deiglan sér ástæðu til að treysta fullyrti keppandinn og myndasmiðurinn ítrekað við aðra keppendur að upptökurnar væru einungis gerðar til gamans fyrir alla keppendur. Hann beitti því vísvitandi blekkingum til að fá leyfi til að mynda.

Það kann að vera að einhverjir séu tilbúnir að horfa í gegnum fingur sér með þessa háttsemi þar sem um var að ræða fegurðarsamkeppni. Það er hins vegar brýnt að gera sér grein fyrir að ef þessi hegðun verður samþykkt er verið að gefa víðtækt og hættulegt fordæmi. Það er ekki einungis verið að gefa fordæmi fyrir töku mynda í heimildarleysi á lokuðu svæði af keppendum í fegurðarsamkeppni. Nei, fordæmið heimilar almennt svik og blekkingar til að ná að taka myndir inn á lokuðum svæðum sem viðkomandi myndasmiðum yrði aldrei heimiluð myndataka undir eðlilegum kringumstæðum. Hvort sem myndefnið er keppendur í fegurðarsamkeppni eða einhverjir aðrir. Lokað svæði hjá keppendum í fegurðarsamkeppni er nefnilega ekki á nokkurn hátt frábrugðið lokuðu svæði inn á AA-fundum, á sjálfsuppbyggingarfundum fyrir fórnarlömb sifjaspells eða sundnámskeiðum fyrir offitusjúklinga.

Til að bæta gráu ofan á svart myndi fordæmið ekki bara heimila myndatökuna sjálfa heldur verður leyfilegt að bera myndefnið á torg í kvikmyndahúsum borgarinnar. Það er ekki á hverjum degi sem dreyfing í gróðaskyni á afrakstri svika og blekkinga er dæmd heimil.

Undirritaður hefur ekki hugmynd um innihald myndarinnar fyrir utan stutt skot sem hafa verið sýnd í sjónvarpi. Þau sýna ekkert viðkvæmt s.s. nekt eða eiturlyfjaneyslu. Það skiptir einfaldlega ekki máli. Hvort sem kvikmyndin sýnir eitthvað viðkvæmt eður ei þá felur hún alltaf brot á friðhelgi einkalífs. Það eiga allir einstaklingar rétt á að vera í friði með sitt daglega líf svo framarlega sem þeir eru ekki að skaða aðra.

Undirritaður telur að þegar tjáningarfrelsi rekst á friðhelgi einkalífs eigi friðhelgin að vega þyngra á metunum nema brýnir almannahagsmunir réttlæti tjáninguna. Heimildamyndir á fölskum forsendum sem sýna mannréttindabrot, lögbrot eða brot gegn almennu siðgæði falla í þann flokk. En það að sigla undir fölsku flaggi til að ráðast inn í friðheldi einkalífs einstaklinga sem hafa ekkert til saka unnið, og útbúa kvikmynd sjálfum sér til upphafningar og öðrum til niðurlægingar, er ekki forsvaranlegt.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.