Suður Afríka sýnir Íslandi áhuga

Íslensk velferð og ör þróun landsins vekur áhuga Suður Afríkumanna. Velferðarráðherra landsins kom nýlega til þess að kynna sér málin. Hann segir Ísland á undraverðan hátt hafa orðið eitt ríkasta land heims og langar að vita hvernig við fórum að þessu á svo skömmum tíma.

Íslensk velferð og ör þróun landsins vekur áhuga Suður Afríkumanna. Velferðarráðherra landsins kom hingað fyrir um hálfum mánuði til þess að kynna sér málin. Hann segir Ísland á undraverðan hátt hafa orðið eitt ríkasta land heims og langar að vita hvernig við fórum að þessu á svo skömmum tíma.

Stutt er síðan Ísland var eitt fátækasta land Evrópu. Á ótrúlega skömmum tíma hefur okkur tekist að verða eitt ríkasta land heims og hér hefur orðið til nútímasamfélag sem skákar flestum öðrum þjóðum hvað varðar lífsgæði. Víða um heim hefur þessi öra þróun vakið athygli og margir vilja af okkur læra. Í vikunni kom hingað, velferðarráðherra Suður Afríku, Zola Skweyiya, ásamt föuneyti til að kynna sér velferðarkerfið hér, sem er að mati ráðherrans eitt það besta í heiminum.

Í Suður Afríku búa ríflega 44 milljónir. Meðalaldur er lágur, aðeins um 24 ár. Hann skýrist af miklum fjölda dauðsfalla vegna alnæmis, en rúmlega fimm milljónir eru smitaðar. Þetta olli því að íbúm landsins fækkaði um 0,4% á síðasta ári. Árið 2000 lifði helmingur þjóðarinnar undir fátæktarmörkum. Þrátt fyrir þetta hefur Suður Afríka náð nokkuð langt og er ríkasta land álfunnar. Helstu náttúruauðlindirnar eru fjölmargir verðmætir málmar á við gull og kopar en auk þess kol, úran, demantar og fleira. Landið er helsti framleiðandi gulls og demanta í heiminum.

Zola Skweyiya, velferðarráðherra Suður Afríku sagði í viðtali við pistlahöfund að enn væri nokkuð í land. Suður Afríka geti lært margt af Íslandi. Hér hafi verið mikil fátækt sem þjóðin hafi, með samstilltu átaki, brotist út úr á aðeins fimmtíu árum.

Samvinna þjóðarinnar hafi skilað okkur þeirri velferð sem við búum við í dag. Mestu lífsgæði í Evrópu, ef ekki heiminum. Það hafi reynst erfitt í upphafi, margir hafi liðið skort og þannig sé ástandið víða í Suður Afríku núna. Hann segir markmið heimsóknarinnar vera að læra af okkur og taka þá þekkingu með aftur til Afríku enda sé Ísland eitt þróaðasta og ríkasta land heims.

Suður Afríka þurfti að byrja frá grunni fyrir þrettán árum við lok aðskilnaðarstefnunnar . Þá var fyrsti forseti landsins kjörinn í fyrstu lýðræðislegu kosningunum árið 1994.

Zola segir að eftir að lýðræðið komst á hafi þurft að skipuleggja stjórnkerfið frá grunni, byggja upp land þar sem allir þegnar þess væru jafnir, öfugt við það sem áður var. Vel hafi tekist til hjá ríkisvaldinu en vandamálin séu nú fyrst og fremst hjá sveitastjórnum landsins. Markmiðið sé að koma þeim málum í lag sem fyrst til að hinn almenni borgari viti að hann geti haft áhrif. Allir eigi að geta unnið, verið sjálfstæðir og haft aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu án mikils kostnaðar.

Eftir að aðskilnaðarstefnunni lauk fyrir um fimmtán árum fóru hlutirnir að þróast í rétta átt. Fyrir þann tíma byggðist þjóðfélagið allt á kynþætti ofar öðru. Hvítir hafi bæði stjórnað landi og öllum náttúruauðlindunum. Nú eru breyttir tímar. Almenningur er ekki aðeins sáttur við að fá að kjósa heldur líka við þær umbætur sem orðið hafa á velferðarkerfinu. Í ár skilaði ríkissjóðurinn í fyrsta skipti afgangi.

Zola segir að sá afgangur verði notaður til aðstoðar þeim allra fátækustu. Menntun sé nú ókeypis á grunnskólastigi og nú þegar séu skólar þar sem fátækir greiða ekkert. Þá sé heilbrigðisþjónusta ókeypis fyrir öll börn undir sex ára en Zola segist vonast til þess að hægt verði að ganga enn lengra í framtíðnni.

Árið 1999 fengu einungis sextíu þúsund börn félagslegan styrk, nú átta árum síðar eru þau tæpar tólf milljónir. Um tvær komma tvær milljónir eldri borgarar fa einnig styrk frá ríkisstjórninni.

Zola segir íbúa landsins eiga rétt á betri þjónustu og frekari aðstoð til þess eins að komast af. Af þeirri einföldu ástæðu, hafi forseti Suður Afríku sett það markmið að koma upp velferðarkerfi sem bæti kjör og lífsgæði íbúanna. Þjóðin í heild þurfi að vinna að þessu markmiði og standa saman til þess að það náist. Áframhaldandi fátækt og aukin útbreiðsla smitsjúkdómar muni á endanum leiða til óstöðugleika.

Þetta sé ástæðan fyrir því að sótt sé í smiðju Íslendinga. Leitað er að svörum við því hvernig íslenska þjóðin fór að því að ná svo langt á jafn skömmum tíma og raun ber vitni. Í heimsókn sinni hingað vakti ýmislegt hrifningu, einna helst Barnaspítali Hringsins. Hann segir það draumi líkast hversu vel sé hugsað um börnin og gætu Suður Afríkubúar sannarlega verið stoltir af því að bjóða börnum sínum upp á viðlíka aðstæður.

Zola vonast til þess að háskólar í Suður Afríku geti átt gott samstarf við æðri menntastofnanir hér á landi. Jafnframt geti læknar átt kost á því að starfa bæði í Afríku sem og á Íslandi.

Ísland og Suður Afríka eru nánast eins ólíkar þjóðir og hugsast getur. Við búum á norðurhveli jarðar, þau langt fyrir sunnan miðbaug. Þrátt fyrir þetta leitar nýtt lýðræðisríki sem vill hag þegna sinna sem mestan til litlu þjóðarinnar í norðri, sem hefur náð árangri sem eftir er tekið í heiminum.

Pistill höfundar var i Laugardagsþætti Rásar 1 sl. Hægt er að nálgast hann ásamt viðtalinu við Zola Skweyiya hér.

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.