Heiður Tyrklands að veði

Lagagrein 301 í tyrkneskum hegningarlögum kveður á um að bannað sé að móðga heiður Tyrklands. Þrátt fyrir að stutt sé síðan að lögin voru sett, þann 1. júní árið 2005, hafa þegar um sextíu manns verið ákærðir fyrir brot á þessum lögum, þar á meðal fjölmargir rithöfundar og blaðamenn.

Lagagrein 301 í tyrkneskum hegningarlögum kveður á um að bannað sé að móðga heiður Tyrklands. Þrátt fyrir að stutt sé síðan að lögin voru sett, þann 1. júní árið 2005, hafa þegar um sextíu manns verið ákærðir fyrir brot á þessum lögum, þar á meðal fjölmargir rithöfundar og blaðamenn.

Ritstjórinn og rithöfundurinn Hrant Dink hefur verið í fararbroddi þeirra sem vilja vekja athygli á viðkvæmu tabúi í tyrkneskri umræðu, þjóðarmorði Tyrkja á Armenum í byrjun 20. aldarinnar. Talið er að allt frá hundrað þúsund upp í rúma milljón Armena hafi verið drepnir á árunum 1915 til 1917 og vilja margir meina að um þjóðarmorð hafi verið að ræða. Það vilja stjórnvöld í Tyrklandi ekki viðurkenna og segja þessa atburði tilheyra Fyrri heimsstyrjöldinni þegar Ottómanveldið var að líða undir lok. Þjóðflokkadeilur, sjúkdómar og hungursneyð hafi verið orsakir dauðsfallanna. Margir fræðimenn telja þetta hafa verið morð skipulögð af stjórnvöldum og hefur 21 land viðurkennt atburðina opinberlega sem þjóðarmorð.

Hrant Dink, Tyrki af armensku bergi brotinn, var nokkrum sinnum ákærður og dæmdur á grundvelli lagagreinar 301 fyrir að móðga heiður Tyrklands með skrifum sínum. Stjórnvöld voru ekki ein um að telja Dink hafa gengið of langt með skrifum sínum. Þjóðernissinnar voru á sömu skoðun og hafði Dink ítrekað fengið hótanir. Þann 19. janúar var Dink skotinn til bana af herskáum þjóðernissinna um hábjartan dag fyrir utan dagblaðið þar sem hann vann. Morðinginn, 17 ára drengur, náðist fljótlega og játaði. Sá sem skipulagði morðið náðist stuttu síðar og játaði sömuleiðis. Þegar hann var leiddur í réttarsal hrópaði hann til fjölmiðla að fleiri sem hafa verið ákærðir fyrir brot á lagagrein 301 megi gæta sín.

Lög sem kveða á um að bannað sé að móðga heiður fósturjarðarinnar eru ekkert einsdæmi og eru svipaðar greinar í hegningarlögum ríkja á borð við Austurríki, Þýskaland og Ítalíu. En lagagrein 301 hefur verið gagnrýnd, bæði innan Tyrklands og erlendis frá, sem gerræðislegt tæki stjórnvalda til að þagga niður í óæskilegum röddum. Tuttugu mánuðir eru síðan að lögin voru sett og síðan þá hafa að meðaltali þrír á mánuði verið ákærðir á grundvelli laganna. Mannréttindasamtökin Amnesty International segja lagagreinina beina ógnun við málfrelsi og Evrópusambandið, sem Tyrkland sækist eftir aðild að, hefur lýst yfir áhyggjum með lagagreina.

Þessi lög og framkvæmd þeirra skapa jarðveg fyrir öfgasinnaða þjóðernissinna á borð við þá sem stóðu á bakvið morðið á Dink með því hugarfari sem þeim fylgir um að glæpsamlegt sé að tala um hluti sem gagnrýni á ríkið. Stjórnvöld hafa ákvarðað hvað er rétt og rangt í umræðunni, morðingar Dink ákváðu að refsa harðar en ríkið fyrir það sem var búið að dæma rangt.

Í kjölfar morðsins á Dink lýsti varaforsætisráðherra Tyrklands, Abdullah Gül því yfir að nauðsynlegt væri að breyta lögunum.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.