Misheppnað framboð vinstrimanna

Sameiningarbylgja vinstri manna fjaraði út í sveitarstjórnarkosningum sem fram fóru í dag.

Sameiningarbylgja vinstri manna fjaraði út í sveitarstjórnarkosningum sem fram fóru í dag. Strax og fyrstu tölur bárust um kl. 22:00 var ljóst að sameinað framboð vinstri manna hafði í flestum bæjarfélögum fengið svipað og víðast hvar ívið minna fylgi en A-flokkarnir höfðu samanlagt eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Svo virðist sem sameiningarbylgjan hafi hagað sér svipað og hrossasóttin; ekki um annað rætt í fjölmiðlum en hjaðnaði mjög fljótlega þar sem hún kom upp…

Meirihluti Reykvíkinga gaf þó R-listanum umboð í fjögur ár í viðbót – greinilega ekki kominn með nóg af skattahækkunum, skuldasöfnun, aðgerðaleysi í atvinnumálum, útþenslu stjórnkerfis borgarinnar, vanefndum í leikskólamálum, úrræðaleysi í skipulagsmálum, siðleysi borgarstjóra, flótta fyrirtækja og einstaklinga úr borginni, svo tekið sé af handahófi af afrekaskrá R-listans, sem kom til að breyta fyrir fjórum árum.

Afturhaldsseggir í íslenska heilbrigðiskerfinu, og víðar, hafa á undanförnum vikum og mánuðum hamast gegn gagnagrunnsfrumvarpi heilbrigðisráðherra. Málinu hefur nú verið frestað til hausts en þá bregður svo við, að hinir alvarlega þenkjandi siðapostular segja það allt of skamman tíma. Málið þurfi að minnsta kosti nokkurra ára umræðu. Hér virðist því aðalatriðið að umræðan taki sem lengstan tíma, en ekki að hún sé gagnleg eða upplýsandi. Það hefur verið sagt að tíminn lækni öll sár, en það er nýmæli að hann leysi öll vandamál líka…

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.