Handboltaflensan – HM0107

Handbolti handbolti handbolti. Stór hluti þjóðarinnar skemmtir sér nú yfir því að fylgjast með íslenska handboltalandsliðinu á HM í þýskalandi. Hinir sem minni eða engan áhuga hafa á íþróttinni geta skemmt sér yfir því að fylgjast með tilfinningasveiflum samlanda sinna.

Síðustu daga hefur íslenska þjóðin verið á öðrum endanum, enda handboltalandsliðið búið að vera í nokkuð góðum gír á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi. Sálarlíf heilu byggðarlaganna sveiflast með úrslitum leikja landsliðsins og framleiðni vinnustaða sömuleiðis.

Það er ljóst að þátttaka landsliðsins á mótum sem þessu hefur góð áhrif á þjóðarsálina, sameinar fólk fyrir framan skjáinn og skapar umræðuefni við kaffi- og vatnsvélar vinnustaðanna. Það er ótrúlega mikilvægt fyrir þjóðina að eiga landslið, eða íþróttamenn, í fremstu röð í einhverjum íþróttum. Fyrir utan þær góðu stundir sem það gefur þeim landsmönum, sem á annað borð hafa einhvern áhuga á að fylgjast með gengi íslenskra íþróttamanna á mótum sem þessum, þá vekur þetta athygli á landi og þjóð og ber út orðspor íslenskra íþróttamanna.

Íþróttadeild Ríkissjónvarpsins hefur gert vel í umfjöllun sinni um mótið. Beinar útsendingar frá leikjum annarra þjóða í riðlakeppninni hafa gefið handboltaáhugamönnum möguleika á að setja sig betur inn í keppnina og sjá fleiri þjóðir spila. Umfjöllun fyrir og eftir leiki hefur verið fín en sérstaklega er ástæða til að hrósa lýsingum á leikjum Íslands þar sem Ólafur Lárusson hefur verið Geir Magnússyni til halds og trausts.

Ólafur hefur komið með prýðisgóðar greiningar á leikjunum, leikaðferðum liðanna og einstaka atvikum og þannig veitt betri innsýn inn í leikina. Það væri vel ef sú væri raunin á öðrum íslenskum sjónvarpsstöðvum sem eru í fararbroddi við útsendingar á knattspyrnuleikjum. Á þeim fá íþróttafréttamenn stöðvanna iðulega einnig til liðs við sig sérfræðinga, en því miður snúast lýsingarnar oftar en ekki meira um lélega brandara og blaður heldur en greiningar á leikjunum og gagnlegar upplýsingar. Úr því að verið er að minnast á lýsingar frá íþróttum þá er rétt að geta þess einnig að í gegnum tíðina hafa þeir sérfræðingar sem fengnir hafa verið til að lýsa frjálsum íþróttum og sundi yfirleitt staðið sig með mikilli prýði á sama hátt og Ólafur er að gera núna í handboltalýsingunum.

Í lokin er ástæða til að hvetja landsmenn til að leggja Handboltasambandinu lið og stuðla þannig að því að við fáum sem flest tækifæri til að fylgjast með landsliðinu á stórmótum framtíðarinnar. Á næsta ári fara fram bæði Evrópumót og Ólympíuleikar og það gerði þessi mót óneitanlega skemmtilegri ef við ættum fulltrúa á þeim.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)