Að kunna og að kunna ekki að reka knattspyrnufélag

Nýlega var tilkynnt um mikil umskipti í rekstri Sementsverksmiðjunnar hf. og voru þau umskipti ekki síst rakin til endurskipulagningar sem átti sér stað við hlutafélagsvæðingu fyrirtækisins fyrir nokkrum árum.

Nýlega var tilkynnt um mikil umskipti í rekstri Sementsverksmiðjunnar hf. og voru þau umskipti ekki síst rakin til endurskipulagningar sem átti sér stað við hlutafélagsvæðingu fyrirtækisins fyrir nokkrum árum. Gylfi Þórðarson hefur á þessu tímabili stýrt verksmiðjunni en hann hefur aldeilis ekki setið auðum höndum samhliða því. Hann hefur á sama tíma stjórnað Knattspyrnufélagi ÍA en árangurinn af því starfi er því miður allur annar.

Þegar Gylfi varð formaður skömmu eftir áramótin 1996-1997 var staða félagsins mjög góð. Liðið var þrefaldur meistari frá fyrra tímabili og framtíðin virtist björt. Gylfi og meðreiðarsveinar réðu nýjan þjálfara og keyptu til landsins leikmenn, sem stjórnarmenn sögðu þá bestu sem hingað höfðu komið. Þetta reyndust hinar fáránlegustu ráðstafanir og urðu þær félaginu mjög dýrkeyptar, bæði fjárhagslega og knattspyrnulega. Gylfi Þórðarson ber aukinheldur mikla ábyrgð á þeim hnekki sem félagið beið við málaferli þess og Guðjóns Þórðarsonar, fyrrverandi þjálfara meistaraflokks ÍA. Fræg eru ummæli Gylfa í fréttum RÚV í febrúar 1997, þegar hann sagði félagið ekki skulda neinum neitt, „og allra síst Guðjóni Þórðarsyni.“ Síðar varð Gylfi að éta þessi orð ofan í sig og þessi þrákelkni hans kostaði Knattspyrnufélag ÍA umtalverðar fjárhæðir í dráttarvexti.

Nú fyrir skömmu lét Gylfi af formennsku í félaginu og þá var staðan sú, að félagið skuldaði um 30 milljónir króna og var ekki vel statt í leikmannamálum. Gylfi Þórðarson ætti því í framtíðinni að halda sig við rekstur jarðefnafyrirtækja.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.