Glæsilegt framtak Vöku

Í dag hefjast Rannsóknadagar Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Þarna er um að ræða mjög viðamikla kynningu á tæplega 60 rannsóknaverkefnum nemenda við Háskóla Íslands. Dagskráin er öll hin glæsilegasta og geta aðstandendur Rannsóknadagana borið höfuðið hátt.

Í dag hefjast Rannsóknadagar Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Þarna er um að ræða mjög viðamikla kynningu á tæplega 60 rannsóknaverkefnum nemenda við Háskóla Íslands. Dagskráin er öll hin glæsilegasta og geta aðstandendur Rannsóknadagana borið höfuðið hátt.

Snemma í haust hófu nefndarmenn í atvinnulífsnefnd Stúdendaráðs Háskóla Íslands undirbúning við að endurvekja Rannsóknadaga SHÍ. Rannsóknadagar voru síðast haldnir námsárið 2004-2005 eða síðast þegar Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, sat í meirihluta Stúdentaráðs. Á síðasta starfsári var atvinnulífsnefnd undir stjórn röskvuliða og var því miður ekki látið verða af því að endurtaka framtakið og því borið við að yfirvöld HÍ hefðu ekki viljað standa straum af kostnaði við verkefnið.

Með tilliti til síðasta starfsárs atvinnulífsnefndar má segja að sá árangur sem náðst hefur í nefndinni þetta starfsár sé með ólíkindum. Þegar Reynir Jóhannesson, Vökuliði, fór með sömu fyrirspurn til háskólayfirvalda og formaður nefndarinnar hafði gert árið áður fékk hann sömu svör. Rannsóknadagar væru of kostnaðarsamir fyrir Háskólann. Reynir dó hins vegar ekki ráðalaus. Grunnhugmyndin á bakvið Rannsóknadaga Stúdentaráðs er sú að efla tengingu á milli atvinnulífsins og Háskóla Íslands og var því leitað til drífandi fyrirtækja á sviði rannsókna og nýsköpunar og safnað meðal þeirra styrkjum sem fóru langt með að fjármagna verkefnið.

Þetta frumkvæði nægði til að sannfæra yfirvöld Háskólans um að það væru sterkar forsendur fyrir því að halda ráðstefnu á borð við þessa og samþykkti fjárveitingu í verkefnið. Í kjölfarið hafa Vökuliðarnir Reynir, Jan Herman Erlingsson, Harald Björnsson, Kristján Freyr Kristjánsson og Andri Heiðar Kristinsson, ásamt Berglindi Þorsteinsdóttur úr Háskólalistanum átt veg og vanda af því að skipuleggja glæsilegustu Rannsóknadaga sem Háskólinn hefur séð.

Eins og áður sagði þá hefjast Rannsóknadagar Stúdentaráðs í dag, 24. janúar. Dagskráin hefst klukkan 12:30 og stendur til 16:00 í flestum byggingum. Nánari dagskrá og upplýsingar um verkefnið má nálgast á vefsíðu Rannsóknadaga.

Með framtaki á borð við Rannsóknadaga Stúdentaráðs fá meistara- og doktorsnemar við skólann vettvang og tækifæri til að kynna verkefni sín fyrir fyrirtækjum og atvinnulífinu í heild sinni. Brúin milli rannsókna í háskólasamfélagi og nýsköpunar í atvinnulífi er afar mikilvæg enda nást háleit markmið um að skapa hér á landi þekkingarþjóðfélag ekki nema með samstilltu átaki atvinnulífs, fræðasamfélagsins og stjórnvalda. Til hamingju með Rannsóknadagana!