Ríkisfjármálin og pýrómanían

Pýrómanía nefnist sjúkdómur sem brennuvargar eru haldnir og lýsir hann sér í þeirri áráttu að kveikja í, mæta á staðinn til að fylgjast með slökkvistörfum og bjóðast jafnvel til að hjálpa til við að slökkva. Þetta mynstur endurtekur sig í sífellu og sjúklingur getur virst fullkomlega heilbrigður þess á milli. Frelsaranum sýnist afbrigði af þessum sjúkdómi hrjá vinstri menn þegar kemur að ríkisfjármálum.

Pýrómanía nefnist sjúkdómur sem brennuvargar eru haldnir og lýsir hann sér í þeirri áráttu að kveikja í, mæta á staðinn til að fylgjast með slökkvistörfum og bjóðast jafnvel til að hjálpa til við að slökkva. Þetta mynstur endurtekur sig í sífellu og sjúklingur getur virst fullkomlega heilbrigður þess á milli. Frelsaranum sýnist afbrigði af þessum sjúkdómi hrjá vinstri menn þegar kemur að ríkisfjármálum.

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld staðið fyrir löngu tímabæru slökkvistarfi í ríkisfjármálunum og nú þegar starfið er farið að bera ávöxt, sem sést best á 15 milljarða afgangi í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi, eru brennuvargarnir mættir til að fylgjast með slökkvistarfinu.

Að sjálfsögðu telja þeir sig kunna betri skil á slökkvistarfi en núverandi stjórnvöld og eru ósparir á alls kyns umvandanir. En á meðan einn vargurinn segir að ekki gæti nógu mikils aðhalds, hrópar annar á aukin ríkisútgjöld, meiri olíu á eldinn, og kemur þar best fram endurtekningarmynstrið, sem einmitt einkennir áðurnefndan sjúkdóm.

Össur Skarphéðinsson er um þessar mundir einn öflugasti talsmaður aukins aðhalds í ríkisrekstri og sagði hann m.a. í viðtali á Skjá einum s.l. sunnudag að 15 milljarða afgangur á fjárlögum væri ekki nóg. Heldur hýrnaði yfir Frelsaranum við þessa yfirlýsingu og fannst nokkuð til sinnaskipta vinstri mannsins koma, að hann væri nú loksins búinn að átta sig á skaðræði ríkisumsvifa.

En örfáum setningum síðar beraði Össur ástæðu þessara ummæla sinna. Hann sagði nauðsynlegt fyrir Samfylkinguna að sækja til hægri inn að miðju, þar sem lausi atkvæðimassinn væri mestur. Já!? Frelsarinn hafði næstum fallið í þá gildru að halda að vinstri menn hefðu náð áttum. En þegar þessi ummæli Össurar eru skoðuð nánar, kemur í ljós örvæntingarfull þrá brennuvargsins til að endurheimta eldfæri sín; þrá stjórnmálamannsins til að komast á ný að kjötkötlunum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.