Samsæriskenningar Moskvubúans

Deiglan er ákaflega hrifin af samsæriskenningum hvers konar og dáist að þeim, sem færir eru í framsetningu slíkra kenninga. Stóratburðir verða iðulega kveikja að samsæriskenningum og ein þekktasta samsæriskenning síðari tíma snýst án efa um morðið á John F. Kennedy. Atburðir líðandi stundar kom hugarflugi samsæriskenningasmiða einnig á flug.

Deiglan er ákaflega hrifin af samsæriskenningum hvers konar og dáist að þeim, sem færir eru í framsetningu slíkra kenninga. Stóratburðir verða iðulega kveikja að samsæriskenningum og ein þekktasta samsæriskenning síðari tíma snýst án efa um morðið á John F. Kennedy. Atburðir líðandi stundar kom hugarflugi samsæriskenningasmiða einnig á flug. Nálægðin við atburði líðandi stundar veldur því, að oft er erfitt fyrir samtíðarmenn að sjá hlutina í réttu ljósi. Þá reynir á skarpskyggni ofangreindra smiða, hvort þeir geti ráðið í flóknar stöður, án þess að njóta þeirra fjarlægðar í tíma, sem hefðbundnir sagnfræðingar fá yfirleitt notið.

Nú stendur sem hæst stríðsrekstur Rauða hersins í Tsjetsjníu en að sögn embættismanna í Moskvu er hann nauðsynlegur til að uppræta hryðjuverkamenn, sem þaðan munu hafa herjað á Rússland. Vinsældir Pútíns forsætisráðherra hafa rokið upp eftir að stríðsreksturinn hófst og framvinda mála er honum, sem mun vera að undirbúa framboð til forseta, mjög í hag. Deiglan á víða pennavini og einn þeirra er Moskvubúi, sem ekki vill láta nafn síns getið, af skiljanlegum ástæðum. Í nýlegu bréfi sínu viðraði hann athyglisverðar kenningar um meint samsæri ráðamanna í Moskvu. Þar segir m.a. (í lauslegri þýðingu):

„Sumir velta því fyrir sér í laumi, af hverju Tsjetsjenarnir tóku áhættuna á því að vekja rússnesk stjórnvöld til reiði með hryðjuverkum, þegar þeim hafði þegar tekist að verja land sitt. Hinum sömu finnst það koma spánskt fyrir sjónir, að hryðjuverkamennirnir skyldu koma alla leið til Moskvu til þess eins að sprengja í loft upp íbúðablokkir í fátækustu hverfum borgarinnar. Af hverju létu þeir ekki til skarar skríða gegn opinberum byggingum, þar sem höggið á stjórnvöld yrði þyngst?“

„Það þótti líka einkennilegt, að rússneska lögreglan, sem borgarbúar þekkja nær eingöngu af slælegum vinnubrögðum, uppgötvaði fjölmargar virkar sprengjur í fjölbýlishúsum eftir fyrstu sprengingarnar, rétt eins og þeir hefðu vitað hvar þeir áttu að leita að „sprengjunum“. Enginn opinber starfsmaður féll í þessari miklu hryðjuverkahrinu, aðeins íbúar fátækrahreysa í úthverfum borgarinnar. Maður hlýtur að spyrja sig: Hver hagnaðist á þessum hryðjuverkum? Fyrir þau naut stjórnin ekki mikils trausts og Pútín þótti jafnvel of unglegur og óreyndur. Eftir mikla skelfingu spruttu fram öflug stjórnvöld, sem lofuðu þegnunum öryggi og jafnvel hefnd. Óneitanlega kemur Þinghúsbruninn í Berlín upp í hugann og hvernig nasistar notfærðu sér hann til að fylkja þýsku þjóðinni að baki sér….“

Svo mörg voru þau orð pennavinarins. Hér er auðvitað á ferðinni algjörlega óstaðreynd samsæriskenning og er Deiglan vitaskuld ekki í nokkurri aðstöðu til að meta sannleiksgildi hennar. Þess vegna skal ítrekað fyrir lesendum að einungis er um kenningu að ræða, og þær geta hæglega verið rangar, en stundum þó réttar.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.