Það getur kostað að spara

Það er gott að spara og ástæða til að hvetja fólk til þess. En er vænlegt að spara í gegnum debetkortið?

Um þetta leyti árs líta bankar landsins gjarnan um öxl og kynna fyrir landanum frammistöðu sína við ávöxtun á sparifé almennings og keppast um leið við að vinna hylli almennigs. Upp á síðkastið hafa bankarnir einnig verið nokkuð iðnir við að hvetja landann til að leggja fyrir og stofna til sparnaðar hvers konar sem er vel, enda veitir ekki af að minna okkur á að hugsa til mögru áranna.

Ein leið sem kynnt hefur verið nýlega inn í þessa flóru sparnaðarlausna snýst um að notendur debetkorta a.m.k. eins banka geta hækkað, eða rúnað upp, þá upphæð sem þeir þurfa að greiða hjá þjónustuaðilum og mismunurinn er lagður inn á sparnaðarreikning. Það má segja þessari lausn til hróss að hún er vissulega nógu einföld fyrir flesta að nýta sér, sérstaklega ef fólk er ekki í aðstöðu til að leggja fyrir stærri upphæðir t.d. um hver mánaðarmót.

Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að þessi sparnaðarleið kostar viðskiptavininn einnig pening þar sem hver debetkortafærsla kostar yfirleitt 12-13 krónur. Ef verslað er fyrir 1.345 krónur í verslun og viðkomandi velur að hækka færsluna upp í 1.500 krónur og láta afganginn, 155 krónur, leggjast inn á sparireikning, þá er viðkomandi að greiða rúm átta prósent af þeirri upphæð í færslugjöld. Þetta hlutfall lækkar að sjálfsögðu eftir því sem upphæðin sem lögð er í sparnað hverju sinni hækkar. Algengir vextir á sparnaðarreikninga eru hins vegar á bilinu 8-12 prósent. Átta prósent eru verulega stór biti af því.

Vissulega má segja, að ef ég er að fara að greiða fyrir vöru með debetkortinu mínu á annað borð þá þurfi ég hvort sem er að greiða færslugjaldið. Það er rétt, og í því tilfelli má segja að málið líti dálítið öðruvísi út. Þrátt fyrir það má segja að svona fyrirkomulag hvetji fólk e.t.v. enn frekar til að nota kortin sem greiðsluform sem aftur skilar sér í auknum kostnaði. Einnig er rétt að geta þess að flestir bankar bjóða þeim viðskiptavinum sínum sem eru komnir upp í ákveðið þjónustustig visst margar fríar kortafærslur og ofangreindur útreikningur á ekki við í því tilfelli. Sá fjöldi dugar hinsvegar mörgum skammt yfir árið.

Í öllu falli er ágætt fyrir fólk að vera vakandi fyrir þeim kostnaði sem notkun debetkorta felur í sér. Einstaklingur sem velur að greiða frekar fyrir vöru með korti en reiðfé getur verið að greiða dágóðan hluta af þeim sparnaði beint til bankans í formi færslugjalds. Sparnaður er hins vegar af hinu góða og ástæða til að fagna hverju því framlagi sem ýtir undir það. Um leið er rétt að benda fólki á að skoða þá möguleika sem eru í boði með gagnrýnum augum og ástæða til að hvetja alla sem tök hafa á að hoppa á sparnaðarvagninn, a.m.k. öðru hvoru.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)