Er tími til kominn að þvera Skerjafjörðinn?

Þrátt fyrir að vera margra áratuga gömul hugmynd er þverun um Skerjafjörð enn ekki komin á dagskrá yfirvalda. Það er margt sem bendir til að hún myndi hafa í för með sér verulegan ávinning fyrir samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins og þróun borgarinnar sjálfrar. Samt er ekki svo mikið sem píp um hana í neinni opinberri áætlun. Hvorki nýjum né gömlum. Hvernig stendur á því? Og er kominn tími til að breyta því?

Hugmyndin um að tengja saman vesturhluta Reykjavíkur og suðurhluta höfuðborgarsvæðisins með braut um Skerjafjörð er orðin margra áratuga gömul. Sá fyrsti til að leggja til brúun sundanna sunnan við Reykjavík, yfir á Álftanes og Kársnes, var stóriðjusinnaða þjóðskáldið Einar Ben. Síðar var bent á þennan möguleika þegar Trausti Valsson skipulagsfræðingur lagði til flutning Reykjavíkurvallar út á Löngusker og brúun frá Suðurgötu yfir á Álftanes.

Það er hverjum manni ljóst að þverun Skerjafjarðar er hreint ekki svo galin hugmynd. Á svipaðan hátt og hin erfitt-að-koma-á-koppinn Sundabraut mun gera fyrir austurhluta höfuðborgarsvæðisins, þá myndi Skerjarfjarðarbraut búa til nýja norður-suður tengingu á höfuðborgarsvæðinu. Bara út frá öryggis- og flóttasjónarhóli, þá er tengingin eitthvað sem ástæða er til að skoða nánar.

Auk þess að skapa nýja flóttaleið af Nesinu, þá er margt sem bendir til að ávinningurinn af þveruninni geti verði stórkostlegur. Bæði í samgöngu- og skipulagslegu tilliti. Það er vert að líta yfir það.

Í fyrsta lagi er Hafnarfjarðarvegurinn orðinn býsna ásetinn árdegis og síðdegis. Byggðin í Hafnarfirði, Kópavogi og nú Garðabæ hefur blásið út, og valdið verulega aukinni eftirspurn eftir umferðarrýmd. En þótt hæpið sé að endurvekja hina gömlu daga, þar sem menn gátu brunað á tíu mínútum milli borgarinnar þvert og endilangt, sama hvaða tíma dags sem var, þá er vissulega ástæða til að leita leiða til að bæta ástandið. Í tilfelli Hafnarfjarðarvegarins er þrennt sem kemur til greina: að auka rýmdina á sjálfum Hafnarfjarðarveginum (með breikkun og mislægum gatnamótum eða stokkum til suðurs – í Garðabæ – og/eða til norðurs – í Reykjavík); að markaðsvæða umferðarrýmdina á álagstímum (og efla þannig samkeppnishæfni – jafnvel einkarekinna – fjöldaflutningakerfa (strætó og skutlustarfsemi t.a.m.)) og stýra álaginu þannig; nú eða dreifa álaginu á fleiri stofnæðar.

Besti kosturinn væri auðvitað að markaðsvæða umferðarrýmdina. Innleiða hagfræðilega auðlindastjórnun í samgöngukerfið, líkt og eflaust væri löngu búið að gera ef það væri í einkaeigu. Það er hins vegar sennilega ekki hlaupið að því. Ekki um sinn. Fyrir því allmiklar pólitískar, hugarfarslegar og stjórnsýslulegar hindranir. Að auka umferðarrýmdina á Hafnarfjarðarveginum er sennilega ekkert sérstaklega góður kostur heldur. Bæði uppi í Kringlu og í Garðabænum eru aðstæður þröngar, og ljóst að kostnaður við að böðlast með mislæg gatnamót lengra en orðið er, yrði töluverður. Óþægindin mikil og ávinningur takmarkaður. Teppurnar myndu að öllum líkindum bara færast til.

Ný tenging um Skerjafjörð, úr Hafnarfirði/Garðabæ yfir í t.d. Vatnsmýrina, gæti líklega laðað til sín töluverðan hluta af umferðinni sem í dag teppir Hafnarfjarðarveginn árdegis og síðdegis. Í miðborg Reykjavíkur eru margir stórir vinnustaðir sem Hafnfirðingar og Garðbæingar sækja, og ljóst að margir þeirra – ef ekki meirihlutinn – myndu kjósa Skerjafjarðarbraut í stað hins teppta Hafnarfjarðarvegar. Jafnvel þótt um lengri veg yrði að fara.

Í öðru lagi eru stórkostlegir möguleikar í þróun höfuðborgarsvæðisins sitt hvorum megin við Skerjafjörðinn. Þróun borgarinnar út í sundin, í stað heiðanna. Garðaholtið er í norðvesturhluta Garðabæjar, á leiðinni út á Álftanes. Áætlanir eru um nokkur þúsund manna byggð á holtinu, en í samgöngulegu tilliti er svæðið ekki mjög fýsilegt til uppbyggingar. Aukin byggð myndi án efa leggja enn meira álag á Hafnarfjarðarveginn. Ný tenging til norðurs – beint yfir til Reykjavíkur – myndi gerbreyta því.

Vatnsmýrin er síðan vitanlega mesta krúndjásn borgarinnar. Spaðaásinn í samkeppni við aðrar borgir í kring um okkur. Í dag að miklu leyti aflokað frá höfuðborgarsvæðinu vegna skorts á tengingum til austurs og suðurs. Ný tenging til suðurs (og vonandi önnur til austurs) myndi gerbreyta því, og bæta til muna forsendur nýrrar byggðar þar.

En þrátt fyrir að vera jafn íhugunarverð og raun ber vitni, þá er hvergi minnsti á þverun yfir Skerjafjörð sem hugsanlega samgöngubót í neinni opinberri áætlun. Hvorki hinni loforðaþrungnu nýju samgönguáætlun Sturlu Böðvarssonar, Vegaáætlun, Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins né aðalskipulagáætlunum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta sætir óneitanlega furðu.

Hvernig stendur á þessu? Hvernig stendur á því að þetta er ekki svo mikið sem til skoðunar?

Sú staðreynd, að landsvæðið sitt hvorum megin Skerjafjarðar er tilheyrir ólíkum sveitarfélögum, er eflaust ein ástæðan. „Stórskipahöfnin“ í Kópavogi, ein helsta arfleifð Sigurðar heitins Geirdal, fyrrverandi bæjarstjóra Kópavogs, og nú leiðarljós framfara og áræðis í huga Gunnars Birgissonar, núverandi bæjarstjóra, er sennilega önnur ástæða. Enda erfitt að brúa fjörðinn ef gera þarf ráð fyrir hafskipaumferð um fjörðinn. En þetta eru tæplega miklar hindranir. Frekar verkefni til úrlausnar (og stórskipahöfn í Kópavogi getur varla orðið langlíft fyrirbæri, sökum landleysis, lítilla þróunarmöguleika og þungaflutninga sem þurfa að fara um íbúðahverfi).

Það er eitthvað annað sem málið strandar á. Hvað getur það mögulega verið?

Eins og minnst var á hér að ofan myndi tilkoma brautarinnar gerbreyta forsendum um byggð í Vatnsmýrinni. Þótt eflaust sé unnt að gera ráð fyrir byggð í Vatnsmýrinni án Skerjafjarðarbrautar, er ólíkt saman að bera ef hún væri og ef hún væri ekki.

Ef brautin væri á áætlun er ljóst að þrýstingurinn á flutning Reykjavíkurvallar úr Vatnsmýrinni yrði meiri fyrir vikið. Getur verið að það sé hér sem hnífurinn standi í kúnni? Er þetta ástæða þess að áhuginn er við frostmark í Samgönguráðuneytinu (og kannski líka annars staðar í hinu opinbera stjórnkerfi)?

Ef svo þá er það ótækt. Jafnvel þótt sannfæringin um áframhaldandi veru vallarins í Vatnsmýrinni sé heit, þá getur það ekki staðið skynsömum samgöngubótum á höfuðborgarsvæðinu fyrir þrifum. Eina raunverulega vandamálið sem snýr að samgöngulegum innviðum höfuðborgarsvæðisins er það hversu fáar stofnæðar eru til flutnings milli hverfa í borginni.

Af þeim hundruðum milljörðum króna af skattfé borgaranna væri einna skynsamlegast að láta – í það minnsta – gera forathuganir á þverun Skerjafjarðar á næstu árum. Það eina sem þarf er viljinn.

Hann virðist ekki til staðar í Samgönguráðuneytinu.

Það þarf að breytast í vor.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.