Vandræði hjá Reinfeldt

Sífellt háværari raddir heyrast nú í Svíþjóð þess efnis að Fredrik Reinfeldt sé vanhæfur til að mynda og stýra ríkisstjórn. Í ljósi nýliðinna atburða er ekki hægt að leiða þær raddir hjá sér en nú þegar hafa tveir ráðherrar sagt af sér og öll spjót beinast að þeim þriðja.

Sífellt háværari raddir heyrast nú í Svíþjóð þess efnis að Fredrik Reinfeldt sé vanhæfur til að mynda og stýra ríkisstjórn.Í ljósi nýliðinna atburða er ekki hægt að leiða þær raddir hjá sér en nú þegar hafa tveir ráðherrar sagt af sér og öll spjót beinast að þeim þriðja.

Sænski Jafnaðarmannaflokkurinn féll í þingkosningunum á haustdögum og því kom það í hlut Borgaraflokkanna að mynda ríkisstjórn þar í landi. Þann 6. október síðastliðinn tilkynnti svo Fredrik Reinfeldt, leiðtogi hægri flokksins Moderatarna, ríkisstjórn sína. Hann hefur eflaust ekki átt von á þeim miklu vandræðum sem að stjórn hans myndi steðja á næstu vikum.

María Borelius, viðskiptaráðherra Svíþjóðar sagði af sér eftir að upp komst um skattsvik hennar. Borelius hafði ekki greitt skatta og önnur gjöld af launum barnfóstru sinnar. Hún bar það lengi fyrir sig að þau hjónin hefðu ekki haft efni á því að greiða öll þau gjöld og skatta sem sænsk lög mæltu fyrir um. Það finnst Svíum einkennilegt í ljósi þess að á árunum 1990-1999 höfðu Borelius-hjónin rúmlega 150 milljónir íslenskra króna í tekjur. Þá reyndi hún einnig að komast hjá því að greiða skatta með því að fjárfesta í sumarhúsi í Suður-Svíþjóð, en það gerði hún fyrir milligöngu fyrirtækis sem skráð er í Jersey sem lengi hefur verið talin mikil skattaparadís. Borelius sagði af sér ráðherraembætti sem og þingmennsku viku eftir að hún var skipuð í embætti.

Stuttu seinna kom í ljós að Cecilia Stegö Chilo, hinn nýi menningarmálaráðherra Svía, hefur ekki greitt afnotagjöld af sænsku ríkisfjölmiðlunum í að minnsta kosti 16 ár. Þetta kemur vægast sagt illa út þar sem menningarmálaráðherra er æðsti yfirmaður ríkisfjölmiðla í Svíþjóð. Chilo bar það fyrir sig að hafa búið mikið til í útlöndum og því ekki sinnt því að greiða afnotagjöldin. Við nánari rannsókn kom þó í ljós að hún og eiginmaður hennar höfðu búið í Þýskalandi á árunum 1995-1997 en skuld þeirra nær allt aftur til ársins 1990. Chilo harðneitaði lengi vel að segja af sér embætti en gerði það að lokum eftir mikinn þrýsting fjölmiðla og stjórnarandstöðu, 10 dögum eftir að ríkisstjórnin var mynduð.

Nýjasta vandamál ríkisstjórnar Reinfeldt er svo hlutabréfaeign utanríkisráðherrans og fyrrverandi forsætisráðherrans, Carl Bildt. Bildt á talsvert af hlutabréfum og verðbréfum í rússneska fyrirtækinu Vostok Nafta en helstu eignir þess fyrirtækis eru í risafyrirtækinu Gazprom. Rússneska ríkið, sem á meirihluta í fyrirtækinu, er sagt nota pólítísk áhrif í þágu viðskiptahagsmuna. Til að mynda hyggst fyrirtækið reisa umdeilda gasleiðslu frá Rússlandi til Þýskalands og þurfa þeir samþykki Svía fyrir henni. Ákvörðunin er að mestu í höndum utanríkisráðherrans og telja margir að Bildt sé vanhæfur til að taka ákvörðunina þar sem hann á mikilla hagsmuna að gæta hjá báðum samningaaðilum.

Þá kannar ríkissaksóknari Svíþjóðar nú hvort túlka megi kaupréttarsamninginn sem Bildt öðlaðist við stjórnarsetu í fyrirtækinu sem mútur til að samþykkja gasleiðsluna. Sjálfur segir Bildt að hann hafi sagt sig úr sjórn Vostok Nafta og selt öll sín hlutabréf um leið og hann tók við embætti utanríkisráðherra en hafi ekki getað afsalað sér kaupréttarsamningaréttinum. Stjórnarandstaðan heldur hins vegar öðru fram þar sem Bildt hafi sagt sig úr stjórninni að eigin frumkvæði. Bildt hefur einnig verið gagnrýndur af mannréttindasamtökum víða um heim fyrir að eiga hlutabréf í sænska fyrirtækinu Lundin Petroleum sem hefur haft umsvif í Súdan.

Stjórnmálaskýrendur í Svíþjóð eru margir á því að þetta mál eigi eftir að kosta Bildt embættið en hann situr sem fastast og hefur engan hug á að segja af sér. Fredrik Reinfeldt hefur lýst yfir fullum stuðningi við Bildt en vera má að það gæti breyst, sérstaklega í ljósi þess að Umhverfisflokkur Svíþjóðar hefur kært Bildt fyrir spillingu og mun mál hans verða skoðað af stjórnarskrárnefnd sænska þingsins.

Hvað sem verður er ljóst að ríkisstjórn Fredriks Reinfeld hefur ekki byrjað vel. Því auk ofangreindra mála hafa einnig komið upp minni mál er varða ráðherra í stjórn Reinfelds. Tobias Billström útlendingamálaráðherra landsins hefur viðurkennt að hafa ekki greitt afnotagjöld af sjónvarpi en segist hafa gert það í mótmælaskyni, þá hefur Anders Borg, fjármálaráðherra , einnig viðurkennt að hafa borgað heimilsihjálp sinni án þess að greiða skatta af laununum.
Fróðlegt verður að sjá hversu margir ráðherrar sitja út kjörtímabilið í Svíþjóð því nær vikulega koma upp einhvers konar vandamál þeim tengdum. Því er ekki úr vegi að efast örlítið um hæfni Fredriks Reinfeldt til að stýra ríkisstjórn landsins.

Latest posts by Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir (see all)