Leiðtogar hverfa á braut

Nokkrir þjóðarleiðtogar hafa dáið eða horfið úr stjórnmálum á árinu sem er nú að líða undir lok. Það er auðvitað viðbúið að það gerist á hverju ári miðað við að þjóðir heims eru rétt tæplega 200 og starfandi og fyrrverandi þjóðarleiðtogar skipta því hundruðum. En bara fáir þeirra komast á spjöld sögunnar.

Nokkrir þjóðarleiðtogar hafa dáið eða horfið úr stjórnmálum á árinu sem er nú að líða undir lok. Það er auðvitað viðbúið að það gerist á hverju ári miðað við að þjóðir heims eru rétt tæplega 200 og starfandi og fyrrverandi þjóðarleiðtogar skipta því hundruðum. En bara fáir þeirra komast á spjöld sögunnar.

Í nótt var Saddam Hussein, fyrrverandi forseti Íraks, líflátinn með hengingu í samræmi við lög í Írak. Dauðadómur yfir Saddam var staðfestur af áfrýjunardómstóli annan í jólum fyrir að bera ábyrgð á því að 148 sítar voru teknir af lífi í borginni Dujail árið 1982 eftir banatilræði við forsetann. Hann er einnig sakaður um að bera ábyrgð á dauða þúsunda Kúrda og síta í lok fyrra Persaflóastríðs og eru réttarhöld vegna þess enn í gangi.
Saddam, sem hefur verið kallaður “Slátrarinn frá Bagdad,” verður ekki bara minnst sem harðstjórans sem framdi óhugnanleg mannréttindabrot, heldur einnig fyrir það hvernig honum var steypt af stóli með innrás sem var afar umdeild, í alþjóðasamfélaginu sem og í innanlandsstjórnmálum hér á Íslandi.

Annar leiðtogi átti óvænt starfslok fyrir tæpu ári síðan þegar hann hné niður vegna heilablóðfalls. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísrael, hefur legið í dái síðan. Hann skipaði sér í sveit harðlínumanna í ísraelskum stjórnmálum og var einn helsti talsmaður landnáms gyðinga á herteknu svæðunum en breytti óvænt um stefnu þegar hann ákvað að leggja niður byggðir landtökumanna á Gaza.
Sharon var umdeildur leiðtogi og átti það sameiginlegt með Saddam að hafa verið kallaður „Slátrarinn“. Sabra og Shatila blóðbaðið er ástæðan fyrir þeirri nafngift en þar er átt við fjöldamorðin sem áttu sér stað í Líbanon 1982 þegar kristnir falangistar réðust inn flóttamannabúðir Palestínumanna til að hafa hendur í hári PLO liðsmanna. Sharon sagði af sér embætti varnarmálaráðherra ári seinna í kjölfar úrskurðar rannsóknarnefndar Ísraelsstjórnar um að hann hefði ekki gripið til aðgerða þrátt fyrir að hafa vitað um þau voðaverk sem fóru fram og bæri því persónulega ábyrgð. Nefndin hvatti til afsagnar hans. Sharon hélt þó áfram afskiptum af stjórnmálum og komst fljótlega aftur til áhrifa.

Augusto Pinochet, fyrrum einræðisherra í Chile, lést núna í desember úr hjartasjúkdómi. Hann hafði reyndar ekki setið á valdastól eða verið í stjórnmálum síðan árið 1990 en var reglulega í fréttum vegna ákæra um mannréttindabrot sem hann framdi á stjórnartíð sinni. Pinochet hafði verið í stofufangelsi síðan í nóvember eftir að hafa verið ákærður fyrir mannréttindabrot og skattsvik
Pinochet komst til valda eftir að hafa leitt valdarán hersins árið 1973 og stýrði landinu svo með járnaga fram til ársins 1990. Meðan á valdatíma hans stóð er talið að yfir 3.000 manns hafi verið myrtir, yfir 1.000 manns horfið og að nær 30.000 manns hafi sætt pyntingum.

Fidel Castro Kúbuleiðtogi liggur nú við dauðans dyr vegna krabbameins að sögn hinnar óskeikulu, eins og sagan hefur kennt okkur, bandarísku leyniþjónustu C.I.A. Castro hefur ekki stjórnað landinu síðan í júlí þegar hann veiktist.
Castro hefur verið við stjórn á Kúbu síðan árið 1959 eftir að Batista, forseti landsins, var hrakinn frá völdum í byltingu. Talið er að um 100 þúsund Kúbverjar hafi setið í fangelsi eða vinnubúðum í stjórnartíð Castros og milli 15 og 17 þúsund manns verið teknir af lífi vegna stjórnmálaskoðana sinna.

Þetta voru þeir erlendu þjóðarleiðtogar sem helst komu í hugann þegar litið var yfir árið 2006.

En það er ekki úr vegi að minnast á tvo íslenska þjóðaleiðtoga sem hafa þó ekki slíka fortíð eins og fyrrgreindir menn.

Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, lét af störfum sem forsætisráðherra í júní og tók með því ábyrgð á slöku gengi flokks síns í sveitastjórnarkosningunum. Lítið hefur borið á Halldóri síðan, en nú um áramótin tekur hann við starfi sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.
Ekki hefur jafn lítið farið fyrir fyrirrennara hans í forsætisráðherraembættinu, Davíð Oddssyni, fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins. En það er auðvitað stílbrot að taka Davíð með í þessari tilviljunarkenndu upptalningu á fáeinum fyrrverandi þjóðarleiðtogum sem hættu eða létust á árinu 2006 þar sem hann hætti jú afskiptum af stjórnmálum í september árið 2005 þegar hann varð bankastjóri í Seðlabankanum. Og seðlabankastjórar hafa ekki afskipti stjórnmálum.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.