Fátækt = Ójöfnuður?

Fyrir skömmu var lögð fyrir Alþingi skýrsla um fátækt íslenskra barna. Skýrslan hefur verið nokkuð rædd í fjölmiðlum upp á síðkastið en samkvæmt henni bjuggu 6,6% barna á Íslandi við fátækt árið 2004. Sú tala þykir sumum væntanlega há, öðrum lág en hvaða fátækt er verið að tala um?

Fyrir skömmu var lögð fyrir Alþingi skýrsla um fátækt íslenskra barna. Skýrslan hefur verið nokkuð rædd í fjölmiðlum upp á síðkastið en samkvæmt henni bjuggu 6,6% barna á Íslandi við fátækt árið 2004. Sú tala þykir sumum væntanlega há, öðrum lág en hvaða fátækt er verið að tala um?

Fátækt er erfitt að mæla enda hægara sagt en gert að segja nákvæmlega til um hvað felst í því að vera fátækur. Eins og fram kemur í skýrslunni, og skilningur flestra líklega er, þá felst það í fátækt barna að foreldrar hafa ekki efni á að veita börnum sínum þau lífsgæði sem vilji er til og nauðsynleg eru talin. Í skýrslunni er notaður mælikvarði OECD til að mæla fátækt en þar eru fátæktarmörk skilgreind sem helmingur af miðgildi tekna í landinu (miðgildið er samkvæmt skilgreiningu þær tekjur þar sem jafnmargir hafa hærri tekjur og lægri). Þar með skiptir ekki máli hversu háar tekjur fólk hefur, heldur bara hversu háar þær eru í samanburði við aðra landinu. Til dæmis, ef allir hefðu 10 sinnum meira í tekjur og fátæktarmörkin þá líklega um milljón á mánuði, þá byggju samt áfram 6,6% barna við fátækt samkvæmt þessari aðferðafræði. Þessi mælikvarði mælir því alls ekki fátækt heldur ójöfnuð og ekkert annað. En alltaf þegar svona niðurstaða er birt, hvort sem talan er há, lág eða, að mínu mati, segi ekkert til um fátækt, þá er víst að einhver mun stökkva fram og nota hana sér og sínum málstað til framdráttar.

Skömmu eftir að skýrslan kom út mættust þeir Illugi Gunnarsson og Helgi Hjörvar í Kastljósi Ríkisútvarpsins og ræddu skýrsluna. Að sjálfsögðu eru þetta vond tíðindi að mati Helga enda virðist hann bæði telja þessa tölu algildan mælikvarða á fátækt og sér auðvitað aðeins þau lönd sem mælast með minni fátækt en Ísland.

Helgi gerði mikið úr því að þrátt fyrir góðan árangur hagstjórnar að undanförnu væri þetta enn staðan: “Kaupmáttur hefur verið að aukast hér um 50% síðustu 10 ár og samt sýnir þetta okkur það að okkur hefur ekki tekist að nota góðærið til þess að fækka í hópi fátækra barna á Íslandi. Því miður. Þeim hefur einfaldlega fjölgað og það á að vera okkur öllum alvarlegt umhugsunarefni.” Nei, það er ekkert sem segir að jöfnuður (sem þessi fátæktarmörk mæla) eigi að aukast þegar mikil kaupmáttaraukning verður. Sú staðreynd að flestir hafa það nú mun betra en fyrir 10 árum skiptir meiru en hvernig sá auður skiptist. Þegar Helgi var spurður hvort það væri ekki raunin að jafnvel hinir fátækustu hefðu það betra en áður reyndi hann að tala það niður: “Það hefur það hlutfallslega betra í krónutölu eða hvað við segjum,” og fór í annað. Það skiptir Helga sem sagt minna máli hvort hinir fátæku hefðu það betra, aðalatriðið var það að þessi algilda tala hafði ekki lækkað á tímabilinu. Til þess að styðja mál sitt enn frekar benti hann á samanburð við Tékkland sem hann taldi eðlilegan enda hefðu Tékkar upplifað “hraða í efnahagsuppbyggingu algjörlega sambærilegan við okkar.” Og hann sagði enn frekar: “Við erum að sjá þar að þeir eru að ná umtalsvert minna hlutfalli af fátækum börnum í Tékklandi, miklu fjölmennari þjóð sem á miklu erfiðara með yfirsýn heldur en við eigum í okkar litla landi.” Tékkar eru með næstum helmingi minni þjóðarframleiðslu á mann en Íslendingar og þar er atvinnuleysi upp á um 9% á móti 1-2% hérlendis. Hafa fátækir Tékkar það betra en fátækir Íslendingar? Nei, þar er mögulega meiri jöfnuður en ég efast um að nokkur Íslendingur undir fátæktarmörkunum vildi skipta við Tékka í sömu sporum.

Að sjálfsögðu taldi Helgi núverandi ríkisstjórn bera fulla ábyrgð á fátæktinni en vildi meina að hagvöxtur og almenn lífsgæðaaukning síðustu ára hefði verið heppni. Hafa skal það sem hentar best hverju sinni.

Þótt fátæktarmörkin eins og þau eru skilgreind hjá OECD mæli aðeins jöfnuð þjóna þau alveg sínum tilgangi. Þau sýna að það er, í þessum skilningi, nokkru minni jöfnuður á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Það má vel færa rök fyrir því að ríkisstjórnin hefði átt að einbeita sér að því bæta kjör þeirra sem minnst hafa þegar tækifæri gafst. Til dæmis með því að hækka skattleysismörk sem um munar í stað þess að lækka skattprósentuna. Slíkt er val milli þess að auka jöfnuð í þjóðfélaginu og þess að auka heildarhag þjóðarinnar en það er samt ljóst að hagur hinna fátækari hefur vænkast á síðustu árum.

Það er synd að þegar jafnmikilvægt málefni og hagur hinna efnaminnstu er til umræðu noti menn sér villandi staðreyndir til þess að skora ódýr pólitísk stig. Sér í lagi þegar meintir málsvarar hinna fátæku eiga í hlut.