Óheppileg viðbrögð

Eftir að Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, lýsti þeirri skoðun sinni á fundi um daginn að stuðningur Íslands við innrásina í Írak hefðu verið mistök hafa stjórnarandstæðingar verið duglegir við að draga í efa einlægni hans og heimta frekari iðrun og yfirbót. Þessi viðbrögð stjórnarandstöðunnar eru megnasta ólyfjan fyrir stjórnmálaumræðuna á Íslandi.

Í lífinu er mönnum gjarnan talið til tekna ef þeir eru nógu stórir til þess að viðurkenna mistök sín, iðrast þeirra og læra af þeim. Þetta gengur auðvitað misvel. Sumir eru góðir í því að iðrast en læra aldrei af mistökum sínum, aðrir iðrast einskis og læra því heldur aldrei neitt nema fyrir aðra hvata – en sá sem ekki gerir sér grein fyrir og viðurkennir mistök sín er gjörsamlega ófær um hvort sem er – að iðraðst eða læra.

Í stjórnmálum gilda flest sömu lögmál og í öðrum mannlegum samskiptum – eða svo ætti í það minnsta að vera. Stjórnmálamenn gera mistök – og sumir þeirra stór og ítrekuð. Það virðist hins vegar vera ákaflega hættuleg stefna í stjórnmálum að viðurkenna eigin mistök, eða jafnvel mistök annarra. Þetta fær Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, nú að reyna á eigin skinni.

Eftir að Jón lét þau orð falla að hann teldi að í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir hafi verið mistök hjá íslenskum stjórnvöldum að styðja innrásina í Írak hefur hann fengið að kenna á því. Glaðhlakkalegir hafa forsvarsmenn stjórnarandstöðunnar sleikt út um yfir þessari yfirlýsingu og smjattað svo um munar á því að annar ríkisstjórnarflokkurinn sé búinn að viðurkenna að hafa gert mistök.

Í stað þess að fagna því í einlægni að framsóknarmenn vilji skoða aðdraganda Íraksstríðið og gagnrýna eigin viðbrögð – þá er stjórnarandstaðan eins og gargandi vargur pikkandi gogginum í opið sár. Ekkert bendir til þess að stjórnarandstaðan hafi minnsta áhuga á réttlátri umfjöllun um málið – jafnvel þótt hún hafi haft rétt fyrir sér. Það eina sem skiptir stjórnarandstöðuna máli er að gera sér sem mestan pólitískan mat úr því fóðri sem Jón Sigurðsson lét þeim í té.

Það eru gömul pólitísk sannindi að aldrei borgi sig að viðurkenna mistök. Röksemdin er einhvern veginn á þá leið að sá sem skipitr um skoðun sé að bregðast stuðningsmönnum sínum, sé að gefa höggstað á sér gagnvart andstæðingum og missi trúverðugleika til langframa. Fyrir vikið verður opinber umræða gjörsamlega sjúk inn að beini. Stjórnmálamönnum sem taka ákvörðun, sem síðar reynist röng, virðst hollast að standa fast með þeim mistökum sem þeir hafa gert í staðinn fyrir að fikra sig nær sannleikanum með því að taka þeim nýju upplýsingum sem berast.

Ef einhver von á að verða til þess að stjórnnmál komist nokkurn tímann á eðlilegt stig samskipta – svo maður tali nú ekki um stig umræðustjórnmála, pólitískt nirvana – þá hlýtur grunnforsenda að vera sú að stjórnmálamenn geti farið yfir gömul mál og skoðað nýjar upplýsingar án þess að fá yfir sig holskeflu nýrra ásakana frá pólitískum peðum sem búa að svo takmörkuðum félagslegum þroska að þeir eru jafnvel enn meira óþolandi í þau fáu skipti sem þau hafa rétt fyrir sér heldur en í þau fjölmörgu þegar þau eru úti á þekju. Helstu forystumenn stjórnarandstöðunnar hafa orðið uppvísir af því í Íraksmálinu að hafa meiri áhuga á nornaveiðum heldur en samræðustjórnmálum.

Innrásin í Írak var rökstudd á fölskum forsendum. Um þetta er varla hægt að deila lengur. Íslensk stjórnvöld tóku orð bandamanna sinna trúanleg við ákvörðun um stuðninginn. Þetta var ákvörðun sem deila mátti um á sínum tíma – en það hefðu verið vatnaskil ef slíkur stuðningur hefði ekki verið veittur. Það er út í hött að halda því fram að afstaða stjórnvalda hafi ráðist af öðru en góðum hvötum. Og ekki er það gáfulegt, sem gefið hefur verið í skyn, að íslensk stjórnvöld hafi verið í aðstöðu til að draga málefnalega í efa upplýsingar bandarísku og bresku leyniþjónustunnar.

Sú þróun sem orðið hefur í Írak eftir innrásina er vitnisburður um að efasemdamennirnir höfðu rétt fyrir sér. Þetta sjá allir nú, en það breytir ekki neinu um þær forsendum sem blöstu við íslenskum stjórnvöldum á sínum tíma. Það er ekki til marks um skýrleika í hugsun að nota nýjar upplýsingar til þess að gagnrýna gamlar ákvarðanir. Þetta er þó undirtónninn í málflutningin stjórnarandstöðunnar í Íraksmálinu.

Stjórnmálamenn eiga ekki, frekar en aðrir menn, að vera settir í þá stöðu að það borgi sig fyrir þá að ríghalda í gamla vitleysu – og halda jafnvel áfram að telja öðrum trú um hana. Viðbrögð stjórnarandstöðunnar síðustu vikur hafa hins vegar kennt þá lexíu að gjarnan sé betra að vera trúr gömlum en röngum skoðunum heldur en að laga þær að staðreynum og raunveruleikanum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.