Ekki eitt einasta alnæmistilfelli!

Ekki er öll vitleysan eins. Á vefsíðu Morgunblaðsins er greint frá því að Norður-Kóreumenn leggi sitt á vogarskálarnar í baráttunni við alnæmi. Var tilkynnt í málgagni stjórnvalda að ekki eitt einasta tilfelli HIV smits hefði greinst í landinu.

Hvort er þetta Stalín eða Kim Jong-il?

Ekki er öll vitleysan eins. Á vefsíðu Morgunblaðsins er greint frá því að Norður-Kóreumenn leggi sitt á vogarskálarnar í baráttunni við alnæmi. Var tilkynnt í málgagni stjórnvalda að ekki eitt einasta tilfelli HIV smits hefði greinst í landinu. Og hverju er um að þakka? Læknisfræðilegum afrekum norður-kóreskra lækna, skírlífi, og blóðskimun?

Svarið er nei. Því er að þakka að komið hefur verið á fót öflugu eftirlits-og upplýsingakerfi um gervallt landið. Þessu kerfi var hleypt á laggirnar samkvæmt vísdómi og leiðsögn og tilsögn leiðtoga ríkisins, Kim Jong-il í því skyni að leyfa ekki eitt einasta tilfelli smits að greinast í landinu.

Í sjálfu sér er ekkert fréttnæmt við það, hversu hugmyndaríkur, allsumlykjandi og velviljaður húmanisti Kim Jong-il er. Samkvæmt skýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International er talið að Norður-Kórea hafi eitthvað versta orðspor á sviði mannréttinda sem þekkist í veröldinni. Fyrir utan hungursneyð, algjöra takmörkun á tjáningarfrelsi, athafnafrelsi, verulega takmörkun á ferðafrelsi innan landsins sjálfs er landið líka þekkt fyrir pyntingar, opinberar aftökur og ótrúlegt harðræði í fangelsum og fangabúðum.

Í ljósi þessa kemur ekki á óvart að hinn framúrskarandi leiðtogi hafi bannað alnæmi í landinu og hafi af visku sinni og tilsögn komið upp fullkomnu eftirlits-og upplýsingakerfi í baráttunni gegn alnæmi. Í ofsóknum Stalíns og hungursneyðinni miklu grétu íbúar Sovétríkjanna og börmuðu sér. Og kölluðu á Stalín sér til hjálpar meðan hann sjálfur sat í Kreml og skipulagði tilræðið sjálft, reykjandi bandarískt píputóbak.

Þess vegna er frásögn vefsíðu Morgunblaðsins fyrir neðan allar hellur. Í fyrsta lagi að birta slíka frétt- sem endursögn- og algjörlega gagnrýnislaust. Í annan stað að greina ekki frá stjórnmálaástandi í landinu. Í þriðja lagi fyrir að birta-svo töluð sé íslenska-slíka dæmalausa bull-og vitleysufrétt.

Yfirlýsing stjórnvalda í Pyongyang og endursögn vefsíðu Morgunblaðsins er móðgun við alla þá, sem sárt eiga um að binda vegna alnæmis. En ekki síður er það sorglegt að vita til þess að líklegust örlög þeirra sem greinast með alnæmi í Norður-Kóreu eru að þeir verði látnir hverfa. Það verður jú ekki leyft að eitt einasta alnæmistilfelli greinist í landinu.

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.