Ekki stóriðja, heldur mannauður en samt ekki alltaf…

Ég skil ekki alltaf vinstri græna. Þeir hafa talað gegn stóriðjustefnunni og Kárahnjúkavirkjun og þegar þeir eru spurðir hvað eigi að gera í staðinn hafa þeir yfirleitt svarað því til að byggja eigi á annars konar auðlindanýtingu og nefna gjarnan auðlindina „sem aldrei gengur til þurrðar“, þ.e. mannauð og hugvit. Gott og vel. En hvers vegna styður flokkurinn ekki hugmyndir um alþjóðlega fjármálastarfsemi hér á landi, sem myndi þó einmitt byggja á hugviti einstaklinganna án þess að svo mikið sem eitt stingandi strá færi undir vatn?

Ég skil ekki alltaf vinstri græna. Þeir hafa talað gegn stóriðju og Kárahnjúkavirkjun af miklum krafti undanfarin ár. Þegar þeir eru spurðir hvað eigi að gera í staðinn hafa þeir yfirleitt svarað því til að byggja eigi á annars konar auðlindanýtingu og nefna gjarnan auðlindina „sem aldrei gengur til þurrðar“, þ.e. mannauð og hugvit, eins og einn bæjarfulltrúi flokksins nefndi í ræðu á dögunum. Flokkurinn hefur þannig tekið að sumu leyti upp þau sjónarmið sem fram komu í áhrifamestu íslensku ritsmíð þessa árs, Draumalandinu, þar sem bent er á að við sem þjóð eigum alltaf ákveðið val um hvaða auðlindir við viljum nýta og hvort ekki sé skynsamlegra að virkja sköpunarkraftinn í fólki til góðra verka og atvinnusköpunar en að ríkið ráðist í stórtækar stóriðjuaðgerðir með tilheyrandi umhverfisspjöllum til þess að tryggja störf.

Gott og vel, það er mikið til í þessum sjónarmiðum. Margir hægrimenn hrifust af Draumalandinu, enda var rauði þráðurinn í bókinni að ríkið þurfi ekki að stýra atvinnuuppbyggingu heldur séu það hugmyndir einstaklinganna sem eigi að knýja atvinnulíf þjóðarinnar.

Og talandi um hugmyndir og einstaklinga, þá var á dögunum var kynnt skýrsla nefndar um alþjóðlega fjármálastarfsemi hér á landi þar sem fram kom hvernig Íslendingar gætu laðað hingað til lands erlend fyrirtæki og fjármálamenn og þar með aukið verulega skatttekjur ríkissjóðs. Í þessu felst að við nýtum hugvitið og mannauðinn í tengslum við fjármálastarfsemi enn frekar en gert er nú og ekki svo mikið sem eitt blaktandi strá fer undir vatn þó þessar hugmyndir verði að veruleika þrátt fyrir að þær færi okkur mikil verðmæti og atvinnusköpun. Fullt af vel launuðum störfum í fjármálageiranum myndu skapast hér á landi.

En hver eru viðbrögð vinstri grænna við þessum hugmyndum? Þau hafa verið lítil og neikvæð. Í úttekt sem Viðskiptablaðið birti um daginn á þessum tillögum var leitað viðbragða nokkurra stjórnmálamanna og tóku þeir allir vel í þetta nema Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður vinstri grænna, sem var mótfallinn þessum hugmyndum og fannst þær ekki góðar. Nú var svo sem ekki við miklum undirtektum að búast frá manni sem hefur sagst vilja fórna jakkafataliðinu sem hefur makað krókinn á tímum brasksvæðingarinnar fyrir meiri jöfnuð og félagslegt réttlæti. En ættu vinstri grænir, sem talsmenn hugvits og mannauðs, ekki einmitt að sjá tækifæri í tengslum við fjármálastarfsemi hér á landi?

Ef vinstri grænir eru ekki hrifnir af því að byggja upp fjármálastarfsemi hér á landi sem myndi krefjast vel menntaðs fólks, veltir maður fyrir sér hvaða mannauð þau eru þá að tala um. Má bara nýta mannauð á ákveðnum sviðum? Flokkurinn hefur gjarnan talað um að nota megi ímynd og náttúru landsins til að byggja upp enn frekar ferðamannaiðnaðinn hér á landi og má vel taka undir það með þeim. En er rétt að flokkar sem mæli fyrir mannauði velji og hafni atvinnugreinum? Felst ekki í því að vilja nýta mannauðinn og virkja hugmyndir fólksins að stjórnmálamenn séu ekki að gera upp á milli atvinnugreina eftir eigin geðþótta, heldur séu það einstaklingarnir með hugviti sínu og hugmyndaauðgi sem finni kröftum sínum farveg? Að stjórnmálamenn séu ekki að velja ferðaþjónustu umfram fjármálastarfsemi án þess að sérstök rök standi þar að baki?

Menn mega að sjálfsögðu hafa þær skoðanir sem þeir vilja á tillögum um fjármálastarfsemi hér á landi. En flokkur þar sem æ fleiri félagar tala um mannauður eigi að vera meginstefið í atvinnuuppbyggingu þjóðarinnar hlýtur að þurfa að gefa einhverjar skýringar á því á hvaða sviðum atvinnulífsins sé æskilegt að mannauðurinn fái að spreyta sig og hverjum ekki.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.