Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Ekki hefur farið fram hjá neinum sú umræða sem hefur átt sér stað um innflytjendur á Íslandi. Umræðan hófst öll vegna þess að tveir menn með vissar skoðanir létu þær í ljós í fjölmiðlum. Umræðan sem átti hugsanlega að snúast um að við þyrftum heildarstefnu í málefnum útlendinga sem koma hér til lands til þess að búa eða vinna spannst út í umræðu um eitthvað allt annað.

Ekki hefur farið fram hjá neinum sú umræða sem hefur átt sér stað um innflytjendur á Íslandi. Umræðan hófst öll vegna þess að tveir menn með vissar skoðanir létu þær í ljós í fjölmiðlum. Umræðan sem átti hugsanlega að snúast um að við þyrftum heildarstefnu í málefnum útlendinga sem koma hér til lands til þess að búa eða vinna spannst út í umræðu um eitthvað allt annað.

Í framhaldi af þessari umræðu hafa fjölmiðlar gripið tækifærið og farið að kanna hugarfar landsmanna. Ein slík birtist í Fréttablaðinu í gær greinir frá því að þriðjungur landsmanna telji fjölda útlendinga hér vandamál en restin taldi hann lítið eða ekkert vandamál. Vissulega hefur útlendingum fjölgað hér sem koma hingað til lands til þess að vinna en það er talið að um 10.000 hafi komið hingað til lands frá áramótum til þess að vinna, en er það vandamál? Telja Íslendingar virkilega að það sé slæmt að fólk komi hingað til þess að vinna? Ef útlendingar koma hingað til þess að vinna er það vegna þess að hér er nóg vinna sem er gott fyrir okkur vegna þess að þá er næg vinna fyrir okkur einnig. Því ber að hafa í huga að ekki er hætta að útlendingar taki störf Íslendinga. Með frjálsu flæði vinnuafls gefst fólki tækifæri til þess að vinna í þeim löndum sem næg atvinna er, fólkið mun ekki setjast hér að ef það er ekki vinna svo einfalt er það. Hvert er þá vandamálið?

“Stundum hef ég velt því fyrir mér hvers konar fólk fylgdi nasistum að máli á sínum tíma. Nú veit ég það.” Sagði Kolbrún Bergþórsdóttir um fólkið sem hefur hrifist af málflutningi Frjálslyndra um innflytjenda mál og ekki get ég annað sagt en ég skil hvert hún er að fara. Nú virðist sem ólga sé að fara um þjóðfélagið, allir með sínar áhyggjur og kemst maður ekki hjá því að heyra; “þeir verða bara að læra Íslensku”, “Frábært að þeir vilji vinna en þeir verða að fara eftir okkar siðum”, “Já já, þeir eru kannski að gera efnahagnum gott með því að vilja vinna hér en á hvaða kostnað?” Það sem ber einnig að hafa í huga er að þegar fólk kemur til landsins til þess að vinna mun það væntanlega vinna mikið og því er líklegt að tími gefist í fátt annað en vinna, borða og sofa.

Ég þori að viðurkenna það að ef ég flyst til annars lands til þess að vinna í vissan tíma er ég ekki svo viss um að ég fari að læra tungumálið nema að mér gefist tími í það, ég er ekki svo viss að ég fari að breyta mínum siðum til þess að þóknast hluta þjóðarinnar sem ég flyst til og ef ástandið á Íslandi verður einhvern tíma það slæmt að ég verði að flytja úr landi til þess að framfleyta fjölskyldu minni þá mun ég gera það. Þetta er líklega satt um alla Íslendinga og flesta jarðarbúa hvers vegna eigum við þá að dæma aðra fyrir að hegða sér á sama hátt og við myndum líklega gera ef aðstæðunum væri snúið við.

Ástæða þess að pistill minn heitir „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“ er vegna þess að ábyrg umræða er af hinu góða en þegar sleggjudómum er fleygt um útlendinga sem setjast hér skal hafa það í huga að í kringum okkur er ávallt fólk sem tengist innflytjendum á einhvern hátt og þá sérstaklega börn. Gleymum því ekki að börn læra af þeim sem eldri eru og því er mikilvægt að fólk passi orð sín því ef það fer ógætilega með sín orð gætu fordómar vaknað. Við viljum að fólk setjist hér að vegna þess að hér sé gott að búa, hlúum því að þeim ekki bara með því að kenna þeim íslensku heldur með því að taka vel á móti þeim.

Með von um að fólk gæti orða sinna segi ég góða helgi

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.