Hvað er hagvöxtur?

Í umfjöllun um framtíðaratvinnuvegi Íslands hefur hagvöxt borið á góma og menn eru ekki á eitt sáttir hvort það sé góð mælieining á velferð þjóðarinnar. En hvað er hagvöxtur og hverjar eru uppsprettur hans?

John Maynard Keynes er sagður hafa lagt til að ríkisstjórnir borguðu fólki fyrir að grafa skurði (og fylla þá aftur) til að koma hagkerfinu í gang í efnahagslegum lægðum

Þegar rætt er um efnahagsmál á Íslandi þá kemur iðulega orðið hagvöxtur fyrir. Orðið ber yfirleitt jákvæðar tengingar en sumir hafa gagnrýnt ofuráherslu sumra stjórnmálamanna á þa.

Til þess að svara spurningunni „hvað er hagvöxtur“, þá þurfum við fyrst að skoða hugtakið „Verg landsframleiðsla“ (héreftir VLF). VLF er: „markaðsvirði allrar vöru og þjónustu, sem framleidd er til endanlegra nota innan lands á ákveðnu tímabili“ (1).

Hagvöxtur mælir einfaldlega vöxt á VLF frá einu ári til annars. Ef VLF eykst úr 1000 á árinu 1 upp í 1100 á árinu 2 þá er hagvöxtur 10%. Þannig er hagvöxtur alltaf mældur sem prósentutala.

Tal um hagvöxt í ákveðnu landi þýðir þá að landið framleiðir meira heldur en ári áður.

Samkvæmt Hagstofu Íslands þá var VLF á Íslandi árið 2005 þúsund milljarðar (2) Þannig þarf VLF að vera fimmtíu milljörðum meiri á árinu 2006 til þess að fimm prósent hagvöxtur hafi náðst milli ára.

Hugtakið landsframleiðsla segir fólki kannski lítið og er því nauðsynlegt að skoða hvaða þættir liggja þar að baki. VLF er samansett af eftirfarandi þáttum:

Einkaneysla + Samneysla + Fjárfesting + Nettó útflutningur

Einkaneysla er útgjöld heimila á Íslandi. Samneysla eru útgjöld hins opinbera, ríkis og sveitafélaga. Fjárfesting er öll fjárfesting í landinu (hjá heimilum, fyrirtækjum og hinu opinbera). Loks eru tekjur af útflutningi að frádregnum gjöldum við innflutning .

Til þess að skapa hagvöxt þá þarf að stækka einhvern þessara þátta. En hverjir þessara þátta hafa staðið á bak við hagvexti undanfarinna ára?

Helstu hagstærðir í milljónum króna. Heimild: www.hagstofa.is

Taflan hér að ofan sýnir hvert hagvöxtur undanfarinna ára á rætur sínar að rekja. Það er fyrst og fremst gríðarlegur vöxtur í einkaneyslu almennings og fjárfestingu sem standa þarna á bakvið.

Það er tilefni til umhugsunar að þetta tímabil, sem var mikið talað um sem eitt mesta uppgangstímabil íslandssögunnar þá stóð útflutningur næstum í stað.

Getur þetta haldið svona áfram?

Einkaneysla almennings í landinu getur ekki endalaust staðið undir vexti í hagkerfinu, heimilin þurfa að fá auknar tekjur til þess að standa undir aukinni eyðslu. Það er ekki endalaust hægt að taka lán til þess að kaupa nýjan jeppa.

Ríkið getur fræðilega séð slegið lán og borgað fólki fyrir að grafa skurði (eða jafnvel skrifa skýrslur um atvinnuþróun á landsbyggðinni) en það er hinsvegar spurning hvort það yrði almenn sátt um að ríkið standi í slíkum verkefnum.

Það er fyrst og fremst fjárfesting og þá fjárfesting sem skilar sér í auknum útflutningi sem býður upp á sjálfbæra aukningu á VLF.

Útflutningstekjur Íslendinga árið 2005 voru tæplega 314 milljarðar. Af því voru 194 milljarðar vöruútflutningstekjur (afgangurinn þjónustutekjur) og þaraf voru 110 milljarðar frá útflutningi á sjávarfangi og 36 úr útflutningi á áli. Íslendingar eru þannig ennþá mjög háðir útflutningi á fiski og áli til að afla gjaldeyristekna.

Það er rétt að taka fram að þegar álver Alcoa í Reyðarfirði verður komið í fulla framleiðslu þá munu útflutningstekjur landsins aukast um 10-14%. Þetta er þannig eitt dæmi um hvernig fjárfesting skilar sér í útflutningi sem skilar sér í aukningu á VLF. Miðað við að farið verði í stækkun álversins í Straumsvík og ný álver byggð í Helguvík og á Húsavík þá munu útflutningstekjur af áli í lok framkvæmdatímans verða svipað miklar og af sjávarfangi.

Þetta er ein leið til þess að auka útflutningstekjur.

En engan veginn eina leiðin.

(1) Þessi skilgreining er fengin frá Þorvaldi Gylfasyni af glærum á heimasíðu hans, www.hi.is/~gylfason
(2) Nánar tiltekið: 995.991 milljónir króna (heimild: Hagstofa Íslands)
(3) Þessi tala er fengið með því að margfalda ársframleiðsluna 322.000 tonn með mögulegu heimsmarkaðsverð á áli: 1500 USD/tonnið og miðað við gengið 70 krónur á dollaranum

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.