Her fer

Herinn er farinn. Ísland er herlaust. Eins og fyrir 66 árum er getur varla neinn verið almennilega sáttur við niðurstöðuna. En nú, eins og þá, höfðum við afskaplega lítið um málið að segja.

En öll él birta upp um síðir, og þó framundan sé óvissa, er þó eitt víst, að bezta ráðið er að standa saman sem einn maður – taka þessu með jafnvægi og ró. Þolinmæðin þrautir vinnur allar, segir gamalt og viturlegt íslenzkt máltæki. Eins og nú á stendur óska ég, að íslenzka þjóðin skoði hina brezku hermenn, sem komnir eru til Íslands, sem gesti og samkvæmt því sýni þeim eins og öðrum gestum kurteisi í hvívetna.

Hermann Jónasson í útvarpsávarpi þann 10. maí 1940.

Það var flott samlíking hjá Hermanni Jónassyni forsætisráðherra að kalla breska hernámsliðið gesti íslensku þjóðarinnar. Hún var auðvitað langt frá því að vera sönn eða nákvæm en flott var hún. Hún gaf mönnum færi á að bera höfuðið hátt, þrátt fyrir litla ástæðu til, verandi hersetnir, ritskoðaðir og öðrum háðir um framtíð sína. En það var móralskt styrkjandi að vera gestgjafi en ekki fangi. Það þykir flottara að vera afinn sem hjálpar ættingjum í neyð, en drykkfelldi frændinn sem þarf að gista í sófanum eftir erfiðan skilnað.

Gestirnir komu og gestirnir ílengdust. Rétt eins og frændinn sem þarf aðeins smá tíma til að finna sér vinnu og íbúð, þurftu okkar gestir að sinna eftirliti á Norður-Atlantshafi og vinna kalda stríðið. Að því loknu fóru þeir í snatri en leyfðu okkur að eiga draslið sitt. Nú eigum við slatta af morknum hermannablokkum og Wendy’s stað. Vei!

Þessi gestasamlíking er ágæt svo langt sem hún nær. En hún nær svona fram á tíunda áratug seinustu aldar. Að loknu kalda stríðinu var lengi ljóst að herinn vildi fara en við skriðum til þeirra á hnjánum og grátbáðum þá um að vera aðeins lengur. Við studdum ruglstríðið þeirra og leituðum að sinnepsgasi fyrir þá. Og ástæðan? Byggðastefna, trompás íslenskrar stjórnmálaumræðu.

Það má þakka hernum um eitt. Þökk sé veru hans hefur umræða um varnarmál aðallega snúist um hvort herinn ætti fara eða vera. Án hans hefði umræðan líklegast snúist um hvort eða hvernig her hér ætti stofna. Og sú umræða hefði getað endað illa, þ.e.a.s. með stofnun fjöldahers sem stelur nokkrum mánuðum úr lífi ungmenna og fræðir þau um tilvist annarra siðferðiskerfa en þeirra sem banna morð. En nú er vonandi orðið of seint fyrir slíkar hugmyndir.

Herinn er farinn. Líklegast er best að taka þessum nýja veruleika, eins og Jónas hefði sagt, með jafnvægi og ró. Með tímanum getum við keypt aðra þyrlu, eða stækkað Víkingasveitina, það mun líklegast dekka allar þær hættur sem við sjálf getum brugðist við. En fyrst þurfum við þó byrja borga fyrir okkar eigin flugvöll. Og fara yfir draslið sem drykkfelldi frændinn leyfði okkur að eiga þegar hann fór.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.