Að barma sér eða bjarga?

Fólkið á að elta tækifæri en ekki reyna að grenja fjármagn út úr ríkinu og vonast eftir því að tækifærin elti fjármagnið. Þessu er nefnilega öfugt farið, peningarnir koma ef tækifærin eru fyrir hendi og þau eru notuð rétt.

Héðinsfjarðargöng: Niðurbrot sjálfsbjargarviðleitni.

Af mörgum löstum er öfundin sennilega verst. Öllu verra er þó þegar saman fer öfund og skortur á sjálfsbjargarviðleitni. Fólk öfundast út í aðra og tuðar yfir því hversu slæmt það hefur það í stað þess að bjarga sér sjálft og gera það sem það getur til þess að fá það sem það vill, bera sig eftir björginni. Óvandaðir stjórnmálamenn gera sér mat úr hvoru tveggja, ala á öfund og telja fólki trú um að það eigi ekki að þurfa að sjá fyrir sér sjálft. Þetta leiðir af sér sjúkt hugarfar sem því miður er orðið æ meira áberandi í íslensku samfélagi.

Ekki verður um það deilt að einstakir samfélagshópar hafa orðið margfaldar tekjur á við aðra hópa. En hafa kjör þeirra síðarnefndu versnað við það að hinir fyrrnefndu hafi komið ár sinni svo vel fyrir borð? Að sjálfsögðu ekki og það sjá allir sem skoða málið af sanngirni og skynsemi. Öfund og skynsemi eiga hins vegar ekki samleið og þegar leikið er á þessar lægstu hvatir mannskepnunnar er skynsemin víðs fjarri.

Það besta og jákvæðasta við íslenskt samfélag er drifkrafturinn og hin sterka viðleitni til að standa á eigin fótum. Þeir sem höllum fæti standa eiga samt öruggt skjól og samfélagið hugsar um þá sem ekki eru færir um að standa á eigin fótum. Fátt er hins vegar ömurlegra en þegar fólk, sem hefur alla burði til að ala önn fyrir sjálfu sér og sínum, grætur sáran yfir því að eiga ekki ofaní sig og á og ætlast til þess að aðrir sjái því farborða.

Tökum sem dæmi hina svokölluðu byggðastefnu sem íslensk stjórnvöld hafa rekið undanfarna áratugi með takmörkuðum árangri. Hún beinlínis gengur út á að verðlauna skort á sjálfsbjargarviðleitni. Talað er um „fólksflótta“ eins og náttúruhamfarir. Ef tækifærin eru ekki til staðar þá færir fólk sig um set og fer þangað sem tækifærin eru. Það er ekki flótti heldur sjálfsbjargarviðleitni. Þessa sjálfsbjargarviðleitni hafa íslensk stjórnvöld reynt að kæfa með kerfisbundnum hætti undanfarna áratugi í nafni hinnar göfugu byggðastefnu.

Fólkið á að elta tækifæri en ekki reyna að grenja fjármagn út úr ríkinu og vonast eftir því að tækifærin elti fjármagnið. Þessu er nefnilega öfugt farið, peningarnir koma ef tækifærin eru fyrir hendi og þau eru notuð rétt. Þetta er ágæt áminning fyrir komandi prófkjör og kosningar þegar loforðalisti tilvonandi þingmanna lengist og lengist og göngum, menningarhúsum og auka fjárveitingum rignir í hvert pláss eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Hvenær fáum við heyra kosningaloforð sem gagnast fyrst og fremst fólki sem vill reyna að bjarga sér sjálft?

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)