Hátt skal stefnt

Þá er September runninn upp á ný. September boðar yfirleitt nýtt skólaár, kólnandi veður, komandi skammdegisþunglyndi og í ár boðar hann einnig að brátt fer að líða að kosningum. Það verður spennandi að sjá hvort stjórnmálamenn muni að þessu sinni hafa kjark til þess að setja fram metnaðarfullar stefnuskrár fullar af nýjum hugmyndum um hvernig land við viljum byggja eða hvort þetta verði eins og oft; umbúðir án innihalds.

Skoðum aðeins í kristalkúlunni hvað menn setja líklegast á oddinn í næstu kosningabaráttu:

Vinstri Grænir munu leggja áherslu á tala gegn Kárahnjúkavirkun og Íraksstríðinu. Frjálslyndir munu tala um hörmungar kvótakerfisins. Samfylkingin mun tala um skattpíningarríkisstjórn sem minnkar jöfnuð og stjórnarflokkarnir munu tala um að hagsæld landsins sé ekki trygg án þeirra í stjórn.

Væri til of mikils mælt að biðja um smá metnað í umræðuna fyrir næstu alþingiskosningar?

Til að skýra hugtakið þá hélt John F. Kennedy ræðu fyrir bandaríkjaþing 25. Maí 1961 þar sem hann hét því að koma manni til tunglsins fyrir lok áratugsins. Þetta gerist áður en það hafði jafnvel tekist að senda mann út í geiminn. Svona tal, heitir metnaður.

Hvernig væri ef í stað kvartsins og kveinsins þá væri spurt stærri spurninga: hvernig land viljum við byggja? Hvernig eigum við að koma því við? Hvað getum við gert daginn eftir kosningar til þess að svo verði?

Vegna hugmyndaleysis íslenskra stjórnmálaflokka og krónískrar neikvæðni stjórnarandstöðunnar þá skellti ég niður einni hugmynd á hvern stjórnmálaflokk til að setja sem sitt bjartsýnismarkmið fyrir næstu kosningabaráttu.

Vinstri Grænir: Alþjóðamiðstöð Friðargæsluliðs Sameinuðu Þjóðanna á Keflavík
Menn kannast kannski við þessa hugmynd úr smiðju Ástþórs Magnússonar en henni var einmitt hafnað vegna þess að hún kom frá áðurnefndum Ástþóri. Hugmyndin er samt sem áður skemmtileg og nú þegar þegar Bandaríkjaher yfirgefur landið í haust kaupir Íslenska ríkið fasteignir að andvirði hundrað og sextíu milljarða króna fyrir einn dollara. Þetta er einstakt nýsköpunartækifæri fyrir landið sem væri kjörið að nýta í eina stóra, flotta hugmynd.

Framsóknarflokkurinn: Ísland, sjálfbærasta land í heimi
Þessi hugmynd hefur verið nokkuð rædd en það vantar samt einhvern til að peppa þjóðina upp í þetta mál. Íslensk heimili gætu endurunnið miklu meira hússorp, innanbæjarbílar hins opinbera gætu verið rafmagnsbílar. Dæmið býður upp á nóg af möguleikum.

Sjálfstæðisflokkurinn: Ísland, ríkasta land í heimi
Hugmynd frá bók Hannesar Hólmsteins. Svosem ekkert mikið um þetta að segja, meiri skattalækkanir (og standa við þær núna!), minni ríkisafskipti og leyfa fólkinu í landinu að skapa sér sína eigin velferð.

Frjálslyndi flokkurinn – þyngsti þjóðhöfðingi heims
Þær sorgarfréttir bárust um heiminn í gær að Tupou IV konungur Tonga eyjaklasana hafi látist. Tupou komst í heimsmetabækur Guinnes á áttunda áratugnum fyrir að vera þyngsti þjóðhöfðingi í heimi. Nú við lát hans er ljóst að þessi titill hlýtur að vera laus. Læri, læri, tækifæri!

Samfylkingin – Ísland: Jafnasta land í heimi
Helsta baráttumál jafnaðarmanna undanfarið hefur verið að kvarta undan því að jöfnuður hafi minnkað á Íslandi. Þetta hafa þeir sýnt fram á með fjölmörgum greinum eftir prófessora. Nú væri um að gera að hefja baráttu fyrir því að Ísland vinni sig upp úr þessari vitleysu og verði það land í heiminum þar sem er mestur jöfnuður. Þannig gætu kosningaauglýsingar sýnt myndir frá löndum sem eru ofarlega á lista yfir mestan jöfnuð, eins og Zimbabve, Kúbu og Norður-Kóreo svo fólk gæti séð með eigin augum hverskonar þjóðfélag við gætum búið í.

Hugmyndirnar eru að sjálfsögðu misgóðar og henta viðkomandi flokkum misvel en hér er líka bara um stuttar uppástungur að ræða. Áskorunin stendur þó eftir, koma með stærri sýn á hvernig land við viljum fyrir næstu kosningar. Taka stóru spurningarnar. Eins og hollorð Ólympíuleikana segja: hraðar, hærra, sterkar.

Ítarefni: Æviágrip Tupou konungs Tonga:

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.