Kennitölumálið

Það að börn innflytjenda gangi í skóla og hafi tækifæri til að taka þátt í þjóðfélaginu til jafns á við innlend börn hlýtur að vera algjört grundvallaratriði til að innflytjendur nái að aðlagast þjóðfélaginu. Það er eiginlega vart hægt að hugsa sér betri leið til að innflytjendur aðlagist ekki, en þá að halda þeim markvisst fyrir utan kerfið.

Skólaganga, eða öllu heldur, ekki skólaganga nokkurra barna á Vestfjörðum bar hátt í fréttum liðinnar viku. Sú ákvörðun skólayfirvalda á Ísafirði að meina erlendum börnum um skólavist vegna þess að þau höfðu ekki kennitölu vakti athygli margra, einkum þegar birtar voru myndir af því þegar barn var sent heim úr skólanum eftir að skipun þess efnis kom frá skólayfirvöldum.

Það er heldur óljóst hvaða hagsmuni skólayfirvöld á Ísafirði voru að vernda með þessum aðgerðum sínum. Það mátti helst skilja að verið væri að senda skilaboð til „stofnananna“ í Reykjavík um að frá þeim kæmu misvísandi reglur og að það þyrfti að laga eða skilaboð til foreldranna um að þau þyrftu að sækja um dvalarleyfi og kennitölur fyrir börnin sín. Í öllu falli virtist það ljóst að hagsmunirnir barnanna komu ekki fyrst og að koma hefði mátt þessum skilaboðum áfram með hófsamlegri hætti.

Til allrar lukku virðist sem þetta mál hafi nú leyst farsællega og að öll börn hafi fengið skólavist eftir að hafa verið fréttamatur í nokkra daga.

Eðli málsins samkvæmt þá voru viðkomandi innflytjendur nýkomnir til landsins og það er varla hægt að bjóða þá velkomna á verri hátt. Þessar fyrstu viðtökurnar segja þeim að skriffinnska og reglugerðardýrkun ráði öllu hér á landi og þegar kemur að innflytjendum sé hún nógu öflug til að meina börnum þeirra um skólavist.

Það að börn innflytjenda gangi í skóla og hafi tækifæri til að taka þátt í þjóðfélaginu til jafns á við innlend börn hlýtur að vera algjört grundvallaratriði til að innflytjendur nái að aðlagast þjóðfélaginu. Það er eiginlega vart hægt að hugsa sér betri leið til að innflytjendur aðlagist ekki, en þá að halda þeim markvisst fyrir utan kerfið. Tungumálið er nú þegar nægileg hindrun þó ekki sé verið að bæta fleirum við með túlkunar- og skilaboðaleik kerfiskalla.

Ísland er á algjörum byrjunarreit miðað við nágrannalöndin í málefnum innflytjenda. Við búum í agnarsmáu og samheldnu þjóðfélagi þar sem ekki á að vera hægt að halda fólki utan við kerfið.

Vonandi var þetta mál einsdæmi og ekki það sem við megum eiga von á á næstu árum. Afstaða, fordómar og fordómaleysi, þeirra sem hér búa mun hafa mikil áhrif á það hvaða stefnu innflytjendamál taka hér á næstu árum. Ef afstaða skólayfirvalda á Ísafirði er það sem koma skal munu innflytjendur eiga erfitt uppdráttar.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.