Veðurfræðingar ljúga

Undanfarið hefur lagið “Veðurfræðingar ljúga”, með Bogomil Font og Flís hljómað í útvarpstækjum landsmanna. Fjölmiðlafár hefur geysað í aðdraganda helgarinnar og hafa fjölmiðlar breyst í útibú PR fyrirtækja.

Undanfarið hefur lagið “Veðurfræðingar ljúga”, með Bogomil Font og Flís hljómað í útvarpstækjum landsmanna. Fá lög hafa átt jafnmikinn rétt á sér og þetta lag um þessar mundir.

Ýmsir fjölmiðlar hafa tekið að sér að spá hitabylgjum hingað og þangað um landið, mörgum dögum og vikum fyrir þessa helgi. Svo skiptast fjölmiðlar á að gagnrýna hvor annan fyrir þetta, þrátt fyrir að sömu aðilar hafi gert nákvæmlega þetta. Skiljanlega er mikil pressa á stétt veðurfræðinga um þessar mundir og getur rétt spá skipt sköpum hvort ákveðnar hátíðir komi út í hagnaði eða tapi.

Fjölmiðlar breytast í útibú frá PR fyrirtækjum og umboðsmönnum sem keppast við að koma sínum mönnum að. Hversu klisjulegt er það að gera sjónvarpsmann að heiðursgesti á útihátíð? Það skilar sér a.m.k. í meiri tíma í sjónvarpi en að gera eðlisfræðing á orkustofnun að hinu sama. Eða Sumar(ó)gleðin, þetta ágæta band er búið að koma fram í svo mörgum fjölmiðlum á undanförnum dögum. Loksins þegar þeir koma svo fram í Galtlæk verða allir komnir með leið á tilgerðarlegum hlátrinum.

Um helgina skiptast menn svo að sýna hversu vel gengur að fylla ákveðin tjaldstæði, eða hvort hægt sé að koma fleirum fyrir í ákveðnu bæjarfélagi eða ekki. Alltaf er þó tekið fram að það sé enn pláss fyrir nokkra í viðbót en hver sé þó að verða síðastur og ekki seinna vænna að drífa sig af stað með seðlaveskið sitt og fellihýsið.

Höfundur mælir með því að menn láti þessar spár, pr-stönt og spár um yfirfull tjaldstæði sem vind um eyru þjóta. Notið helgina og takið til í garðinum eða veljið þá hátíð sem ykkur hentar best. Stuðmenn, í svörtum fötum eða önnur stuðbönd verða á 3-4 hátíðum hver.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.