Hryðjuverk virka!

Þann 22. júlí 1968 rændu þrír palestínskir hryðjuverkamenn ísraelskri farþegaflugvél. Þetta flugrán markaði upphaf nútíma hryðjuverka en einnig upphaf sorglegrar sögu sem ekki sér fyrir endann á. Nýjasti kaflinn í sögunni á sér stað núna í Líbanon.

Þann 22. júlí 1968 rændu þrír palestínskir hryðjuverkamenn ísraelskri farþegaflugvél. Hryðjuverkamennirnir tilheyrðu samtökunum Popular Front for the Liberation of Palestine (PFLP) sem seinna meir varð hluti af þeim fjölmörgu samtökum sem myndaði PLO. Þetta flugrán er talið marka upphaf nútíma hryðjuverka.

Í kjölfarið kom runa af hryðjuverkum sem samanstóð af flugránum, skiparánum og sprengingum með það að markmiði að vekja athygli á málstað Palestínu. Hápunkturinn var líklega þegar PLO slátraði ísraelska ólympíuliðinu í Munich 1972. Hryðjuverkin skiluðu tilætluðum árangri og athygli heimsins beindist að þessu málefni. Vestræn lönd með Frakkland, Ítalíu og Þýskaland í fararbroddi fóru að kappkosta við að „skilja“ hryðjuverkamennina og þann málstað sem þeir voru að berjast fyrir. Þetta leiddi m.a. til þess að PLO fékk áheyrendastöðu innan Sameinuðu þjóðanna, Yassir Arafat var boðið að ávarpa allsherjarþingið og ýmsar uppákomur og nefndarstarf voru skipulagðar innan Sameinuðu þjóðanna vegna Palestínu. Hryðjuverkin höfðu skilað tilætluðum árangri.

Það er athyglisvert að þegar málefni Palestínu var sett á dagskrá hjá Sameinuðu þjóðana var það tekið fram yfir ástandið á fjölmörgum öðrum svæðum þar sem ástandið og þjáningarnar voru miklu verri. Eini munurinn virtist vera sá að íbúar þessara svæða höfðu ekki gripið til hryðjuverka til að auglýsa málstað sinn. Alþjóðasamfélagð hafði þannig sent stórhættuleg skilaboð til umheimsins. Hryðjuverk virka!

Þessi hryðjuverkahvatning svínvirkaði og tóku fjölmörg samtök upp þessa nýju aðferð til að vekja athygli á sér. Þegar leið á 20. öldina fóru palestínsku hryðjuverkamennirnir að fá óvæntan bónus. Nánast í hvert sinn sem þeir frömdu hryðjuverk gegn Ísrael svaraði ísraelski herinn með fáránlega harkalegum aðgerðum sem yfirleitt leiddi til töluverðs mannfalls meðal saklausra borgara. Þetta jók enn á athyglina sem málstaður hryðjuverkamannanna fékk og varpaði afar neikvæðu ljósi á Ísrael. Viðbrögð Ísraels voru því enn meiri hvati til að halda hryðjuverkunum áfram.

Í gegnum tíðina hefur Líbanon verið skólabókardæmi um hversu vel hryðjuverk virka. Hizbollah hefur staðsett sig á landamærum Ísraels og Líbanon og gert ítrekaðar hryðjuverkaárásir yfir landamærin jafnt sem þeir skjóta reglulega flugskeytum á ísraelskar borgir. Árangurinn af þessum árásum er takmarkaður en harkalega gagnaðgerðir Ísraels ná fullkomlega að bæta fyrir það. Í því skyni hefur Hizbollah vísvitandi rekið mikið af starfsemi sinni í flóttamannabúðum eða öðrum svæðum þar sem mikið er um saklausa borgara. Þetta tryggir mikið mannfall þegar Ísraelsmenn svara fyrir sig og fjölmiðlaathyglin er eftir því.

Sama hvar sem menn standa í málefnum Ísraels og Palestínu þá hlýtur innrás Ísraels inn í Líbanon í síðustu viku að teljast að mörgu leyti skiljanleg. Það land er vandfundið sem myndi umbera stöðuga viðveru hryðjuverkamanna á landamærum sínum sem væru reglulega að senda flugskeyti á borgir inni í landinu. Ekki má heldur gleyma því að Ísrael hafði fullreynt diplómatískar leiðir til að fá líbönsk yfirvöld til að halda uppi lögum og reglu á svæðinu þar sem Hizbollah heldur til, án árangurs. Út frá reglum alþjóðaréttar er slík sjálfsvörn lögmæt svo framarlega sem aðgerðirnar séu í samræmi við ógnina. En þar stendur hins vegar hnífurinn í kúnni. Ísraelsemenn eins og svo oft áður hafa farið algjörlega yfir strikið í aðgerðum sínum og verða sumar aðgerðir þeirra ekki flokkaðar undir annað en stríðsglæpi (þar stendur Qana ekki upp úr heldur óskilgreindar loftárárásir á ákveðin hverfi í Beirút undir því yfirskyni að margir Hizbollah-liðar væru þar).

Atburðir síðustu viku eru því ein stór sigurganga fyrir Hizbollah. Þeir hafa ítrekað framið hryðjuverk gagnvart Ísrael, dregið landið inn í stríð þar sem ljóst var að hræðilegar gagnaðgerðir Ísraels myndu kostað hundruð saklausra borgara lífið og náð þannig að vekja mikla athygli á ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Öll neikvæð athygli og gagnrýni beinist að grimmdarverkum Ísraels burt séð frá öllum hryðjuverkaárásunum og þeirri staðreynd að Hizbollah heldur vísvitandi til meðal saklausra borgara. Það er ekki von nema að þeir vilji ekkert frekar en vopnahlé núna eins og alþjóðasamfélagið hefur lagt til þar sem stríðið er unnið í þeirra augum.

Þá geta þeir safnað kröftum, lagst aftur á landamærin eftir smá tíma og haldið áfram að skjóta flugskeytum yfir til Ísraels. Og sagan endalausa heldur áfram.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.