Ísland fyrir Íslendinga?

Nú liggur fyrir Alþingi fremur dapurlegt frumvarp til breytinga á lögum um ríkisborgararétt nr. 100/1952. Deiglan fjallar um frumvarpið og veltir fyrir sér markmiði og tilgangi þess.

Nú liggur fyrir Alþingi fremur dapurlegt frumvarp til breytinga á lögum um ríkisborgararétt nr. 100/1952. Breytingin felur í sér að gert er að skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar að viðkomandi umsækjandi geti haldið uppi almennum samræðum á íslensku. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þetta sé afdráttarlaust skilyrði þess að fá ríkisborgararétt. Eina undantekningin er ef viðkomandi umsækjandi er orðinn 65 ára gamall og hefur annað hvort búið hér á landi í 15 ár eða á óhægt um mál vegna fötlunar eða sjúkdóms. Þá fyrst má víkja frá þessu skilyrði.

Þessi áskilnaður felur í sér meiriháttar hindrun á því að nýbúar geti öðlast íslenskan ríkisborgararétt. Reyndar er falin mismunun í tillögunum því það gefur augaleið að tilteknir hópar munu eiga sérstaklega erfitt með að uppfylla þessi skilyrði. Það verða nýbúar frá framandi menningarheimum sem eiga í mesta basli við að tileinka sér germanska tungu. Þetta er skrítið því það er e.t.v. sá hópur sem þarf mest á ríkisborgararétti að halda vegna slæms ástands heima fyrir.

Hins vegar verða nýbúar frá framandi menningarheimum ekki verst úti því þeir hafa a.m.k. möguleika á því að afla sér áskilinnar færni í tungumálinu. Þeir sem verða verst úti eru nýbúar sem eru blindir, heyrnalausir eða með skerta greind. Lagabreytingin hefur afgerandi áhrif á réttarstöðu þeirra. Það er næstum útilokað að fatlaðir eða greindarskertir nýbúar fái nokkurn tíma íslenskan ríkisborgararétt! Undirritaður minnist þess ekki að hafa heyrt um aðra eins mannræktarstefnu síðan íslenska ríkið neyddi þroskaheftar konur til að fara í ófrjósemisaðgerðir. Eflaust hafa stjórnmálamennirnir á þeim tíma talið þá aðgerð vera jafn mikið þjóðþrifamál og flutningsmenn lagabreytingarinnar núna.

Það sem vekur mesta ónotatilfinningu við þetta frumvarp er sú staðreynd að gert er ráð fyrir því að einstaklingar eldri en 65 ára geti fengið undanþágu vegna fötlunar eða sjúkdóms. Það þýðir að meirihluti Allsherjarnefndar var meðvitaður um það að fötlun, sjúkdómar og aðrar sambærilegar ástæður hafa áhrif á hæfni manna til að læra ný tungumál. Engu að síður tók nefndin þá ákvörðun að setja ekki slíka undanþágu varðandi fólk yngra en 65 ára. Það bendir því allt til þess að nefndin hafi meðvitað tekið þá ákvörðun að banna fötluðum, sjúkum og greindarskertum að fá íslenskan ríkisborgararétt.

Þegar ríki leggur slíkar takmarkanir á veitingu ríkisborgararéttar þá ber þeim að líta til og kanna afleiðingar takmarkananna og virk úrræði nýbúa til að bregðast við þeim. Löggjafinn verður síðan að meta hvort lagabreytingin sé forsvaranleg m.t.t. núverandi stöðu nýbúa hér á landi. Ekki er að sjá af neinu í lagabreytingartillögunni sjálfri eða af athugasemdum við hana að nefndin hafi nokkuð skoðað málefni eða stöðu nýbúa t.d. stöðu íslenskukennslu hjá þeim. Þetta er athyglisvert þar sem á síðustu árum hefur íslenskukennsla nýbúa verið gagnrýnd töluvert og menn haldið því fram að hún væri ekki nógu umfangsmikil til að geta skilað tilætluðum árangri. Það eru því líkur á því að könnun hefði leitt í ljós að umfang íslenskukennslu fyrir nýbúa og gæði væru þannig að lagabreytingin myndi hafa það í för með sér að mun færri fengju ríkisborgararétt en áður.

Gæti það verið yfirskyn að frumvarpið eigi að stuðla að íslenskukunnáttu nýbúa? Það bendir margt til þess að raunverulegt markmið breytingarinnar sé að takmarka almennt veitingu ríkisborgararéttar, sérstaklega veitingu til þeirra sem koma frá framandi menningarheimum. Þetta er frekar ógeðfelldur tilgangur og ber stækan keim af þjóðernishyggju.

Undirritaður vonar að Alþingismenn sjái sóma sinn í því að henda umræddu frumvarpi út í hafsauga.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.