Eru Íslendingar hamingjusamir?

Það komst í fréttirnar í síðustu viku að breska blaðið Guardian birti niðurstöður Ástralskrar rannsóknar sem gaf það upp að Íslendingar væru öðrum þjóðum hamingjusamastir. Er þetta nýbúið að gerast? Veit DV af þessu?

Rannsóknin var unnin af þeim Andrew Leigh frá Australian National University og Justin Wolfers frá Wharton viðskiptaháskólanum við University of Pennsylvania. Upprunalega hugmyndin kom eftir aðra rannsókn sem sýndi að þrátt fyrir að Ástralir væru í þriðja sæti í þróunarvísitölu sameinuðu þjóðanna (UN Human Development Index) þá væru þeir einungis í tólfta sæti yfir hamingjusömustu þjóðir heims [1]

Leigh og Wolfers komust að þeirri niðurstöðu að grunnmistök fyrrnefndrar rannsóknar lægi í því að flestar vesturlandaþjóðir skora mjög hátt á þessum skala (HDI) og er því mjög erfitt að reikna fylgni á milli sætis í þróunarvísitölunni og annarra mælikvarða, t.d. skoðunarkönnunum á hamingju.

Með því að taka inn fleiri rannsóknir á lífsgleði og hamingju komust Leigh og Wolfers að þeirri niðurstaðu að það væri einungis ein iðnvædd þjóð sem mældist marktækt stöðugt hamingjusamari en Ástralir og það voru engir aðrir en Íslendingar.

Á meðal þróunarlandanna þá voru reyndar nokkrar þjóðir að mælast marktækt hamingjusamari en Íslendingar, nánar tiltekið Nígería, Tansanía, Mexíkó og El Salvador. Maður hikar örlítið við að sjá lönd eins og Nígeríu og Tansaníu toppa svona lista en kannski er fólk þarna búið að uppgötva lykil að hamingjunni. Að minnsta kosti virðist fjöldinn allur af mönnum í Nígeríu hafa komist skyndilega yfir mikinn auð. Þessir sömu menn senda mér tölvupóst nær daglega og bjóðast til að deila auðnum með mér gegn smá innborgun til að opna reikning.

Ég er að safna.

Ef við gefum okkur það að eitt helsta verkefni ríkisstjórnar landa sé að auka hamingju þegna sinna, hvað segja þessar rannsóknir um það verkefni? Til dæmis það að þrátt fyrir að hafa þolað mikla gagnrýni þá virðist ríkidæmi, mælt í vergri landsframleiðslu (VLF) skila sér ágætlega í hamingju landsmanna.

Það gleymist síðan stundum að það er fólksins sjálft að njóta þeirrar hamingju sem aukin auðlegð þjóðarinnar gefur þeim. Íslendingar eru ekki alltaf til fyrirmyndar í þeim efnum. Þannig vinna Íslenskir karlmenn að meðaltali 47 klst á viku en Danskir kollegar þeirra vinna tæplega 40 tíma á viku. VLF á mann er næstum því sú sama í þessum tveimur löndum. [2]

Nú hefur margt gott fólk verið að lýsa því yfir að það sé ekki nóg að hafa háa VLF á mann til þess að þjóðir séu ánægðar, Íslendingar eigi að sækjast eftir meiru. Áðurnefndar rannsóknir sýna hverju öðru hægt er að sækjast eftir: Það er segja Sól! Það eina sem þessar þjóðir sem eru að mælast hamingjusamari en íslendingar hafa umfram okkur er miklu meiri sól.

Ef við höldum okkur við þá skoðun að eitt af verkefnum ríkisstjórnarinnar sé að hámarka hamingju Íslendinga en við megum ekki heyra á Hagvöxt minnst þá væri næsta verk ríkisins að gera það að árlegum sið að flytja þjóðina í heild sinni til Kanaríeyja yfir leiðinlegust vetrarmánuðina. Praktískt séð þá þyrfti að halda eftir rúmlega 15.000 manns til að veiða fisk, bræða ál og gefa sauðfé og þjónusta þessa fyrrnefndu en allir hinir gætu skellt sér út og sólað sig. Hugmynd(?)

Ef þetta þykir of flókið í framkvæmd þá getum við líka haldið áfram núverandi stefnu og aukið velferð allra og leyft fólki að ákveða sjálft hvert það fer í frí yfir vetrarmánuðina (ef það man eftir því að spara fyrir fríinu).

[1] Blanchflower and Oswald (2005); Happiness and the human development index: the paradox of Australia, Australian Economic Review 38(3), 307-317
[2] Hagstofa Íslands, Vinnumarkaður 2002
Hlekkur á rannsókn Leigh og Wolfers (2005): http://dspace.anu.edu.au/bitstream/1885/43248/1/DP505.pdf

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.