Veðrabrigði í Hvíta-Rússlandi

Þegar þjóðir Austur-Evrópu brutust undan oki kommúnismans undir lok níunda áratugarins vonuðust flestir eftir því að frelsi og lýðræði yrði til langframa. Lagið góða Wind of change varð eins konar einkennissöngur þessara atburða. Því miður urðu ekki allar þjóðir Austur-Evrópu þeirrrar gæfu aðnjótandi að frelsi, lýðræði og mannnréttindi kæmu í stað ógnarstjórnar, ofsókna og kúgunar.

Þegar Sovétríkinn liðuðust í sundur árið 1991 lýsti þing Hvíta-Rússlands yfir sjálfstæði og skömmu síðar tók Alexander Lúkasjenkó við valdataumunum. Þótt Sovétríkin væru horfin af landakortinu og Hvíta-Rússland sjálfstætt ríki breyttist sáralítið hvað varðaði íbúa landsins. Eftir valdatöku Pútíns í Kreml mynduðu Rússland og Hvíta-Rússland svo nýtt sovét undir hinu kúnstuga heiti Bandaríki Rússlands og Hvíta-Rússlands (Union State of Russia and Belarus).

Lúkasjenkó hefur ekki farið neitt í felur með sína útgáfu af sovésku einræði. Flest öll fyrirtæki landsins eru í eigu ríkisins og þar með undir beinum persónulegum yfirráðum hans. Frjálsir og óháðir fjölmiðlar þekkjast ekki og kosningar hafa verið hreinn sýndarleikur. Þessari valdastöðu hefur verið viðhaldið í krafti ógnarstjórnar og ofsókna, ofbeldis og kúgunar, rétt eins og raunin var í Sovétríkjunum.

En nú virðist loksins vera að rofa til. Íbúar landsins rísa nú upp í stórum hópum, mótmæla alræðinu, krefjast frelsis, mannréttinda og raunverulegs lýðræðis. Það eru veðrabrigði í Hvíta-Rússlandi, Wind of change, sem minna á þróun mála í austantjaldsríkjunum í lok níunda áratugarins. Spurningin er hvort umbæturnar verði friðsamlegar eða meira í líkingu við dauðastríð ógnarstjórnar Chausheskus í Rúmeníu, þar sem þúsundir týndu lífi þegar hersveitir hans reyndu að kveða niður uppreisn þjóðarinnar gegn einræðisherranum.

Pútín var auðvitað snöggur til að bjóða fram „aðstoð“ sína til að ná tökum á ástandinu í bandalagsríkinu en sagan geymir auðvitað hroðalega dæmi um hvernig Kremlverjar koma bandalagsríkjum sínum til aðstoðar, Búdapest 1956 og Prag 1968 svo tvö þekkt dæmi séu nefnd en þau eru auðvitað fleiri.

Það er eðli alræðisins að líta á fólkið sem óvin og þess vegna eru því miður talsverðar líkur á því að réttmætar kröfur um frelsi, mannréttindi og lýðræði verði kæfðar með vopnavaldi. Og því miður er einnig líklegt að alræðisöflin muni komast upp með það, enn eina ferðina.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.