Þegar neyðin er stærst

Þegar hin árlega fjáröflun björgunarsveitanna – flugeldasala – var í undirbúningi fyrir nýliðin áramót tóku að heyrast raddir um hvers konar ósvinna það væri að björgunarsveitirnar væru að afla sér fjár með sölu á sprengiefni, sem fyrir utan að vera hættulegt í bráð er víst líka mjög fjandsamlegt umhverfinu. Samhliða var því varpað fram hvort það ætti ekki einmitt að vera hlutverk ríkisins að reka björgunarsveitir, svo að ekki þyrfti að treysta á slíkar fjáraflanir heldur einfaldlega að heimta skatt fyrir kostnaðinum.

Þeirrar tilhneigingar gætir í vaxandi mæli að best sé að ríkið eða hið opinbera sjái um sem flest verkefni í samfélaginu. Hvort sem það er vegagerð, heilbrigðisþjónusta, flutningastarfsemi, fjölmiðlarekstur, útburður á pósti eða annað þá er orðið sífellt erfiðara að standa gegn þeirri þungu skoðanabylgju að ríkið eigi frekar að sjá um slíka hluti en einkaaðilar.

Það þurfti þess vegna ekki að koma á óvart að hið alsjáandi auga ríkishyggjunnar skyldi beina sjónum sínum að björganarsveitunum yfir nýliðna jólahátíð, enda var þá í mörg horn að líta í björgunarmálum. Það er þess vegna ágætt að velta því fyrir sér hvernig málum væri háttað hjá Björgunarsveitum Ríkisins.

Í fyrsta lagi yrðu þær á fjárlögum og það væri því Alþingis að veita því til björgunarsveitanna sem það teldi duga þeim til að sinna hlutverki sínu, sem eflaust væri ákveðið samkvæmt lögum um björgarsveitir ríkisins. Líklega yrði hverju sinni tekist mjög hart á um það milli stjórnar og stjórnarandstöðu hver sú tala ætti að vera og stjórnarandstaða hvers tíma eflaust á því að verið væri að tefla öryggi borgaranna í tvísýnu af hálfu meirihlutans, sama hver fjárveiting væri.

Í öðru lagi þyrftu Björgunarsveitir Ríkisins að starfa samkvæmt lögákveðnu skipulagi. Eflaust yrði hart tekist hvernig ætti að forgangsraða þeim fyrirsjánlega takmörkuðu fjármunum sem ríkið leggði í rekstur í sveitanna. Einhverjir – og menn geta getið sér til hverjir – myndu halda því fram að björgunarsveitirnar ættu eingöngu að bjarga Íslendingum, enda fjármagnaðar af íslenskum skattgreiðendum.

Í þriðja lagi yrði starfsemi björgunarsveitanna að pólitísku kjördæmamáli. Þyrfti ekki að tryggja að í hverju kjördæmi væri tiltekinn viðbúnaður, einhvers konar stjórnstöð, þannig að ekki væri hallað á íbúa landsins í þeim efnum? Sér einhver fyrir sér að þingmenn myndu keppast við að þeirra kjördæmi færi í það minnsta ekki hallloka þegar kæmi að viðbúnaði og fastri starfsemi.

Í fjórða lagi yrði það starfsmannamálin og yfirstjórnin. Björgunarsveitarmenn yrðu opinberir starfsmenn og um þá myndu gilda kjarasamningar. Réttindamál þeirra yrðu eflaust mjög ofarlega á baugi hverju sinni, vaktir og bakvaktir, að ekki sé talað um útköllin sjálf. Auðvitað þyrfti að gæta að jafnréttislögum við ráðningu í allar stöður og helstu stöður yrði að auglýsa. Rétt er að taka fram að Ólína Þorvarðardóttir er nú þegar sjálfboðaliði innan raða björgunarsveitanna.

Í fimmta lagi yrði tækjabúnaður, samskiptakerfi og þess háttar að ríkiseign og við innkaup þyrfti að gæta sérstaklega að þeim reglum sem gilda um opinber innkaup. Auðvitað yrði að gæta þess að björgunarsveitir á einum stað hefðu aðgang að jafn góðum búnaði og björgunarsveitir á öðrum stað. Nefna má í þessu samhengi hversu vel ríkinu hefur gengið að eiga og reka lögreglubíla undir sameiginlegri yfirstjórn, þótt um mun einfaldari tæki sé að ræða.

Í sjötta lagi yrðu Björgunarsveitir Ríkisins undir tilteknum ráðherra samkvæmt forsetaúrskurði. Líklega yrði það dómsmálaráðherra en þó yrði skörun við samgönguráðherra, umhverfisráðherra og jafnvel heilbrigðisráðherra einhver. Koma þyrfti á samráðsvettvangi ráðuneytanna í þessum tilgangi. Og auðvitað þyrfti sveitarfélögin og heildarsamtök þeirra að koma að sameiginlegri stefnumótun til lengri og skemmri tíma. Dettur einhverjum í hug að jafn mikilvæg starfsemi þurfi ekki að lúta faglegri stefnumótun? Best væri ef háskólasamfélagið ætti þarna einnig sinn fulltrúa – og svo þyrfti auðvitað erlenda ráðgjafa til að rýna stefnumótunarvinnuna.

Í sjöunda lagi væru það svo þeir sem bjargar eru þurfi hverju sinni og réttindamál þeirra gagnvart þeim opinberu starfsmönnum sem kæmu þeim til bjargar – og auðvitað kerfinu í heild. Það er jú alltaf kerfið sem bregst en ekki einstaklingarnir. Líklegt er, miðað að annan rekstur ríkisins sem snýst um líf og heilsu sjúklinga, að meira neyðarástand myndi reglulega skapast í starfseminni sjálfri en í aðstæðum þeirra sem bjarga þyrfti. Og hér er ekki einu sinni snert á mistakamálum og ábyrgð einstaklinga og þeim áhrifum sem fordæmi í þeim efnum kynnu að hafa á vinnulag björgunarsveitarmanna.

Ef okkur finnst hugmyndin um Björgunarsveitir ríkisins fráleit, af hverju ætti annað að gilda um rekstur fjölmiðils svo dæmi sé tekið?

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.