Off-takkinn

Það mætti stundum halda að off-takkann vantaði sjónvörp sumra. Til hvers annars ætti að setja endalausar reglur um hvað má og hvað má ekki sýna hvenær? Getur fólk ekki bara slökkt á sjónvarpinu eða horft á eitthvað annað?

Nýlega komst það í hámæli að Ríkissjónvarpið hafi sýnt, og gelti nú allir heimsins mjóhundar, Bond mynd kl. 20:55. Klukkutíma fyrr en lög heimila.

Í sjálfu sér væri mér kannski sama ef að ríkisvaldið léti nægja að setja reglur um hvað það sýndi á sinni stöð. En neeei. Ríkisvaldinu nægir ekki að fitla við sjálft sig heldur þarf það að þukla á öðrum í leiðinni.

Þessi þráhyggja til að setja sjónvarpinu mörk, á síðustu dögum þess, á sér margar birtingarmyndir. Á seinasta þingi fannst þáverandi meirihluta til dæmis bráðnauðsynlegt að banna að auglýsa leikföng fyrir barnatíma. Nú hata ég ekki auglýsingar, finnst þær raunar skemmtilegri viðbót við tilveruna heldur en hitt. Ég geri mér líka grein fyrir að sumt barnaefni er bara til út af því að það er hægt að selja leikföng því tengdu, og öfugt, sum leikföng seljast bara út af því að þau eru merkt Dóru landkönnuði.

En segjum að einhver sé haldin sjúklegu hatri á auglýsingum og vill alls ekki að börn hans berji þær augum. Þá getur sýnt barninu efni á voddinu eða í DVD verslað við sjónvarpsstöðvar sem uppfylla þessar óskir hans um auglýsingalausa dagskrá. Verði hans líkir nógu margir skapast markaður fyrir slíkar stöðvar.

Ef hann er alveg einstök fýludós þá getur hann tuðað í þingmanninum sínum og krafist þess að RÚV hætti að sýna auglýsingar alfarið. En heimtingu á frekari bönnum á hann ekki. Hugsum þetta aðeins: Einkastöð kaupir efni af teiknimyndaframleiðanda. Hún selur leikfangaframleiðanda auglýsingar. Hún selur einstaklingi áskrift. Hvaða rétt hefur einhver utanaðkomandi labbakútur til að trufla viðskipti þessara fjögurra aðila?

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.