Það vill enginn rólegt

Ég heimsótti Minsk sumarið 2017 til að taka þátt í þingmannaráðstefnu ÖSE. Það má skrifa ýmsa pistla um stöðu lýðræðis- og mannréttinda í Hvíta-Rússlandi en þessi pistill fjallar ekki um það. Hann fjallar um ferðamennsku og ímyndarherferðir.

Þrátt fyrir að Minsk komist sjaldnast á hinn eða þennan Topp 10 listann um bestu og lífvænlegustu borgir í heimi er Minsk samt ágætisborg. Þar er til dæmis fullt af fínum veitingastöðum. Og ekki eru þeir dýrir. Dæmigerður reikningur fyrir máltíð í gamla bænum með 2-3 drykkjum var um 800 krónur íslenskar á mann.

Meðfram áni liggur prýðilegur hjólastígur. Borgin hefur ágætis neðanjarðarlestarkerfi. Glæpatíðni er lág. Í borginni býr mikið af menntuðu ungu fólki. Nokkur erlend fyrirtæki reka þar hugbúnaðarhús með þróunardeildum.

Fljótt á litið myndi maður því halda að markaðssetning landsins ætti að miðast að því að laða að unga, ævintýragjarna, kostnaðarmeðvitaða hipstera sem vilja geta montað sig af því að hafa heimsótt land með annars konar stafrófi. Fólk sem vill montað sig af því að hafa farið út fyrir þægindarammann og lifað á brúninni meðan staðreyndin er sú Minsk er margfalt öruggari en Osló. Þessi fyrsta bylgja bakpokaferðamennsku myndi síðan skila sér í efnuðu fjölskyldufólki 10 árum síðar.

Til að styrkja þessa ímynd þyrfti að hafa eilítið meira við að vera: stórar og litlar tónlistarhátíðir, skemmtigarða og svo framvegis. Og síðan þyrfti að mýkja ásýnd opinbers valds. Landamæraverðir með stóra hatta, verðir með kylfur í neðanjarðarlestum, forneskjulegt skráningarkerfi sem heldur utan um dvöl allra ferðamanna í landinu, löggur sem biðja fólk um pappíra, að tóna þetta niður myndi hjálpa til. Hipsterinn hefur nefnilega engan áhuga á því að lenda í ævilöngu fangelsi ef hann “lendir óvart í því” að stela einhverju skrítnu skilti á djamminu.

En þegar ég skoðaði opinbera bæklinga frá stjórnvöldum sá ég að ferðamanna-ímynd landsins hvíldi á öðru. Í forgrunni voru: kyrrlát náttúra – skógar – akrar. Það fólk sem var sýnt var í þjóðbúningum eða við störf í landbúnaði. Ímyndin, það sem draga átti erlenda ferðamenn að, var hin fullkomna hvítrússneska sveitasæla.

***

Ég er líklegast seinasti maður í partýið að lýsa skoðun minni á þessari öskur-auglýsingaherferð íslenska stjórnvalda. En hér er sú skoðun: Mér fannst hún vel heppnuð, sem sást á birtingum og umfjöllun í erlendum miðlum.

Auðvitað var þetta algjört gimmikk, að dreifa öskrum útlendinga um náttúruna. Þetta er í anda þemansins “frekja á friðsælum stað”. Besta dæmi um slíkt á undanförnum árum er þegar Elon Musk skaut Teslu bifreið á sporbaug um Sólina. Fullkomin frekja. En auglýsingar verða að vera frekar til að ná í gegn.

Auðvitað urðu margir móðgaðir og töldu sem Ísland ætti frekar að auglýsa kyrrðina og friðinn. Boðskapurinn samrýmdist ekki hefðbundinni sjálfsmynd þjóðarinnar og þess vegna var auglýsingin umdeild.

En óháð því hve vel sú ákvörðun að auglýsa Ísland sem ferðamannaland í Covid-hálfleik eigi eftir að eldast þá held ég að auglýsendur hafi hitt naglann á höfuðið með boðskap sínum.

Það nennir enginn að hafa rólegt heima með sjálfum sér akkúrat núna.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.