Það besta við kapítalismann

Fyrsta HM-ið sem fylgdist rækilega með var HM á Ítalíu 1990. Það sumar var ég í Póllandi. Pólland var hætt að vera alþýðulýðveldi. Wojciech Jaruzelski var þó enn forseti. Karlanginn.

Kapitalisminn lagði landið undir sig á augabragði. Annar hver maður var að reka verslun og selja tyggjó og fótboltaspjöld. Hvort tveggja algerlega tilgangslausir hlutir ef maður pælir í því. Og einhverjum datt auðvitað í hug að blanda þessu saman. Tyggjó með samanvöðluðum fótboltamyndum í pakkanum. Snilld. Aldrei hefði einhver mauklesinn marxlenínisti fattað upp á slíku.

***

Fyrr í vikunni rölti ég út í Kringlu og keypti Telstar 18 bolta handa  fimm ára syni mínum, eins og milljónir foreldrar hafa gert og munu gera þetta sumar. Þannig samfélag velmegunar og jafnaðar hefur heimkapitalismanum tekist að skapa. Samfélag þar sem HM-boltinn er neysluvara.

Jafnvel í sínum tærustu, draumkenndustu söluræðum lofar sósíalisminn ekki slíkum allsnægtum. Enda boðar sósíalisminn að allir ættu að fá það sem þeir þurfa. En hver þarf tyggjó? Hver þarf fótboltaspjöld? Hvaða raunverulegu þörf hefur fimm ára barn fyrir að  hlaupa um í eins treyju eins og Gylfi Sigurðsson, með bolta eins og hann?

***

Stærstu viðbrigðin við að flytja í kapitalískt ríki, eða fá kapitalismann til að flytja inn, eru einmitt þessi: að sjá hve margir njóta allsnægtanna, dellnanna, tækniframfaranna. Á yfirborðinu var tæknileg geta sósíalismans og kapítalismans nefnilega ekki svo frábrugðin. Beggja vegna járntjaldsins kunnu menn að búa til bíla, gátu framleitt sambærileg vopn, farið út í geim, tekið upp kvikmyndir í lit og svo framvegis.

Munurinn var samt sá að öðrum meginn var flottasta tæknin aðallega hjá yfirvöldum og almenningur í besta falli notið hennar á stöku vísindasafni. En hinum megin, fór maður heim til vinar síns og hann átti Nintendo leikjatölvu og Duck Hunt. Sem var galdratækni, að því að ég best gat séð.

***

Tilgangurinn með að búa til sérstakan bolta fyrir HM er ekki að búa til besta bolta í heimi til bestu fótboltamenn í heimi gætu sparkað í sérstakan súperbolta sem enginn annar í heimi ætti efni á að sparka í. Tilgangurinn er einmitt að búa til bolta sem ógeðslega margir gætu keypt. Því þannig græða menn mest, ekki á að selja fáum dýrt, heldur á því að selja ógeðslega mörgum á verði sem þeir geta kyngt. Hvati kapitalismans er því að dreifa neysluvörum, nauðsynlegum sem ónauðsynlegum til sem flestra. Og það er það fallegasta og besta við hann.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.