Rök gegn sameiningu handboltaliða og stundum annarra hluta einnig

Kaupmannahöfn – á þessum áratug

Tólf ára drengur situr einn á bekknum að leik loknum. Allir liðsfélagar, og áhorfendur eru farnir heim. Mótherjarnir komnir í rútu. Hann heldur á bolta og dripplar honum af og til í parketið. Endrum og eins lítur hann upp, horfir á markið, svo stigatöfluna. Hún haggast ekki. Áfram stendur 26-28. Fyrir “Gæster”.

Þjálfarinn gengur hægt til hans, sest niður. Hún reynir að hughreysta hann.

“Flottur leikur hjá þér í dag. Markahæstur og allt.”

“Við töpuðum samt. Hitt skiptir engu máli. Engu máli. Við töpum alltaf.”

“Það er nú ekki satt, Knútur. Þetta voru 16 liða úrslit. Það er bara lengsta sem við höfum náð í mörg ár.”

“Já, en við eigum ekki séns. Við verðum aldrei Danmerkurmeistarar. Ég fæ aldrei að lyfta neinum bikar.”

Þjálfarinn tekur sér smá tíma og segir svo ákveðin:

“Hlustaðu á mig Knútur. Ég veit að allt virðist ömurlegt núna. Þú ert fastur hérna í Kaupmannahöfn, ert langbestur í liðinu og finnst eins og ekkert gangi. En ekki gefast upp. Ef þú heldur áfram að standa þig eins og þú gerðir í dag þá mun einhver taka eftir þér. Fólkið á Jótlandi mun byrja taka eftir þér. Öll liðin fara að hringja eftir 2-3 ár. Treystu mér. Allir stóru staðirnir Thisted, Kolding, Sonderborg. Jafnvel Bjerringbro…”

“Bjerringbro? Heldurðu að ég eigi séns í Bjerringbro?”

“Ef þú heldur áfram að æfa þig,  já. Þá geturðu flutt héðan í stórborginni og látið drauminn rætast: Unnið við að spila handbolta, búið í fimm þúsund manna smábæ á Jótlandi þar sem eru þrjár búðir, tvær krár en allur bærinn mætir á handboltaleiki. Allir munu þekkja þig.”

Bros færðist yfir andlit Knúts.

Þjálfarinn var ekki hætt. Hún hélt áfram:

“Og ef þú nærð flugi í Bjerringbro þá eru þér allir vegir færir. Þjóðverjarnir munu spotta þig eins og skot. Allir millistórir þýskir bæir án góðs fótboltaliðs munu vilja taka á móti þér opnum örmum. Þú munt geta farið til Flensburg, Magdeburg, Kiel, jafnvel…”

Þjálfarinn lækkaði nú róminn og hallaði sér handboltakappanum unga. Hún hvíslaði í eyra hans með mystískum tón:

“…  jafnvel… Mannheim…”

“Mannheim? Hjá Ljónunum?”

“Já, lokaðu augunum og sjáðu þetta fyrir þér. Full höll í Mannheim. Þið eruð að spila á móti Kielce frá Póllandi, víti þegar leiktími er liðinn. Þú tekur það og skorar. Þíð farið til Kölnar að spila við Szeged í úrslitum Meistaradeildarinnar.”

***

Nánast öll dönsk handboltalið eru á Jótlandi.

Íslendingar hafa lengi verið hlutfallslega góðir í handbolta. Það hefur stundum útskýrt með einhverjum andlegum þjóðareinkennum, og stundum með að þakka einstaka þjálfurum. Og jú, ef litið er til fólksfjölda, og jafnvel bara fjölda handboltaiðkenda í öðrum löndum þá er árangur Íslands merkilegur. En þó hann sé merkilegur er hann í rauninni ekki það ótrúlegur, alla vega ekki óútskýranlegur.

Hæfileikar verða ekki búnir til með því að taka milljónir manna og treysta á einhver kunni eitthvað. Hæfileikar verða gjarnan til í klösum. Klösum þar sem margir eru að gera svipaða hluti og keppa sín á milli um viðskiptavini og starfsfólk. Danski handboltaklasinn er á Jótlandi. Þar eru mörg góð lið og stutt að fara á milli. Kaupmannahöfn er í raun fyrir utan, eins konar Akureyri Handbolta-Danmerkur.

Íslenski handboltaklasinn á suðvesturhorninu er einfaldlega einn sá öflugasti í heimi og hann skýrir góðan árangur Íslands í íþróttinni.

Þegar eitthvað íslenskt íþróttalið mætir ofjörlum sínum í einhverri Evrópukeppni þá fær maður gjarnan þá hugmynd að með því að fækka liðum og sameina þau sé hægt “mynda sterkari heild” en í raun er ekkert gefið að það verði niðurstaðan. Svo lengi sem einingarnar (þ.e. liðin) geta borið sig og verið sæmilega samkeppnishæf þá er ekkert endilega gott markmið að fækka þeim.

Gildir stundum líka um annað en handbolta.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.