Slysaskot í Persíu

Á grunnskólagöngu minni lærði ég nokkur ljóð, flest úr bókinni Skólaljóðum. Ljóðið sem kemur hvað skýrast upp í hugann er hins vegar ekki að finna í þeirri ágætu bók. Kannski ræður miklu um það hversu ljóðið greiptist sterkt í minninguna að því var dreift til okkar, líklega 10 eða 11 ára nemenda í Brekkubæjarskóla á Akranesi um miðjan 9. áratuginn, á fjölriti og hverju okkar falið að myndskreyta ljóðið.

Þetta var ljóðið Slysaskot í Palestínu eftir Kristján frá Djúpalæk.

Lítil stúlka. Lítil stúlka.
Lítil svarteygð, dökkhærð stúlka
liggur skotin.
Dimmrautt blóð í hrokknu hári.
Höfuðkúpan b
rotin.

Ég er Breti, dagsins djarfi
dáti, suður í Palestínu,
en er kvöldar klökkur, einn,
kútur lítill, mömmusveinn.

Mín synd var stór. Ó, systir mín.
Svarið get ég, feilskot var það.
Eins og hnífur hjartað skar það,
hjarta mitt, ó, systir mín,
fyrirgefðu, fyrirgefðu,
anginn litli, anginn minn.

Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.

Ég man ennþá eftir myndinni sem ég af skammarlega lítilli færni teiknaði og litaði á blaðið. Tilgangur umsjónarkennarans var eflaust ekki að fanga myndskreytinguna á blöð sögunnar heldur að fá okkur til að sjá fyrir okkur efni textans og meðtaka það. Sú fyrirætlan gekk eftir.

Ljóðið dregur fram hinn óumflýjanlega hrylling allra stríðsátaka; fórnarlömbin eru oftast sakleysingjar, eða það sem kallað er í daglegum fréttaflutningi óbreyttir borgarar. Og jafnvel þegar dátinn útskýrir hina raunverulegu ætlan sína er hryllingurinn gagnvart litlu stúlkunni síst minni – og fáránleikinn allt að því áþreifanlegur.

Sögusvið ljóðsins er heimshluti sem því miður hefur verið í fréttum undanfarna áratugi, og allar götur frá því að ljóðið var birt, vegna sífelldra vígaferla og á köflum ólýsanlegra hörmunga. Sá sem þykist vita eða skilja til fulls allar þær ástæður sem að baki liggja hverju sinni er annað hvort einfeldningur eða lygari. Hörmungarnar eru þó óumdeildar og þar eru hinir svokölluðu óbreyttu borgarar í eldlínunni.

Fyrir nokkrum dögum varð þarna eystra enn eitt slysaskotið, í Persíu, þegar úkraínsk farþegaflugvél var skotin niður af íranska hernum með þeim afleiðingum að 176 manneskjur, saklausar með öllu af þeim ófriði sem þarna ríkir, týndu lífi.

Eftir að hafa í fyrstu þvertekið fyrir verknaðinn snéru írönsk stjórnvöld við blaðinu og viðurkenndu að hermanni þeirra sem var við stjórnvölinn í loftvarnabyrgi hefðu orðið á þessi skelfilegu mistök, hann hefði ætlað að skjóta niður bandaríska herflugvél, sem engin var. Eru viðbrögð íranskra yfirvalda eftirtektarverð í ljósi þess hvernig málum hefur verið háttað í öðru sambærilegu máli þegar malasísk flugvél var skotin niður með rússnesku flugskeyti yfir austurhluta Úkraínu fyrir nokkrum árum.

En slysaskot var það, afsökunar er beðist og bótagreiðslur boðaðar. Og þá er allt í góðu bara?

Ljóð Kristjáns sýnir okkur fáránleikann í þessu öllu. Það er ekki slysaskotið heldur stríðsreksturinn sem öllu veldur. Mannfall óbreyttra borgara, fyrir slysni eða mistök, af hirðuleysi eða skeytingarleysi, af illvilja eða hreinum ásetningi, er óumflýjanlegur fylgifiskur stríðsátaka – en ekki frávik frá klínískri útfærslu hernaðaraðgerða.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.