Slagurinn um Suðurströndina

Það sem hins vegar ekki margir vita er hvaða lið berjast um yfirráð yfir suðurströnd Englands. Það eru Southampton og Portsmouth og þær nágrannaerjur eru einar þær hatrömmustu á Englandi, ef ekki í allri Evrópu.

Liverpool og Everton, Barcelona og Real Madrid, Tottenham og Arsenal, AC Milan og Inter Milan, Manchester United og Manchester City. Allt eru þetta dæmi, sem flestir fótboltaunnendur kannast við, um lið sem hata hvort annað. Liverpool og Everton mætast í baráttunni um Bítlaborgina í Merseyside-slagnum. Barcelona og Real Madrid eru langsigursælustu lið spænskrar knattspyrnu og þau mætast í El Clásico. Tottenham og Arsenal berjast um norðurhluta Lundúna. AC Milan og Inter Milan berjast um Mílanóborg og spila á sama heimavellinum, San Siro. Manchester United og Manchester City berjast svo um yfirráð í Manchesterborg. Þetta vita allir. 

Það sem hins vegar ekki margir vita er hvaða lið berjast um yfirráð yfir suðurströnd Englands. Það eru Southampton og Portsmouth og þær nágrannaerjur eru einar þær hatrömmustu á Englandi, ef ekki í allri Evrópu. 

***

Ég fór í skiptinám til Southampton fyrir tæpum tveimur árum og dvaldi þar allt þar til kórónuveiran knúði dyra og ég varð að flýja heim. Það sem stóð upp úr á því tæpa ári sem ég bjó í Southampton var án efa ársmiðinn sem ég keypti mér á heimavöll Southampton, Saint Mary´s Stadium. Ég fór á alla þá heimaleiki sem ég komst á og hef síðan þá verið einarður stuðningsmaður liðsins. 

Ég lærði því snemma að hata Portsmouth. Borgin er aðeins í um 40 mínútna fjarlægð frá Southampton en munurinn á borgunum er mikill. Þeir sem ekki þekkja til enskrar menningar verða að skilja, að allt síðan á 19. öld hefur þróast mjög mismunandi kúltúr eftir því hvar til Englands er komið. Í norðrinu voru kolanámurnar og þar var fólkið harðgert. Þar viðraði verr en í suðrinu og þar voru lífskjörin verri og þannig er það enn. Atvinnuleysi er meira í norðrinu, menntun er minni og oftar en ekki er breski hreimurinn þar óþýðari og slangrið flóknara. Fólkið í norðrinu lítur niður á sunnanmenn og segja þá vera teprur, aumingja og snobbhænsn. 

Það er því gjarnan sagt að Portsmouth sé eins og borg úr norðrinu, sem hafi bara verið færð niður til Hampshire-sýslu, í suðrið þar sem vellystingarnar eru meiri. Í Portsmouth er fólkið harðgert og stundar hnefaleika og stærir sig af tengingu við sjóherinn breska. Portsmouth-menn hatast enda út í aðrar borgir í Hampshire-sýslu og segja sig ekki vilja tilheyra sýslunni. Íbúar Southampton segjast stoltir vera frá Hampshire en Portsmouth-menn vilja helst ekki að minnst sé á það.

Margar þekktustu nágrannaerjur fótboltans eru milli tveggja liða í sömu borg, eins og Liverpool og Everton, Tottenham og Arsenal o.fl. Rígurinn milli Southampton og Portsmouth er þó rígur milli tveggja borga og má segja að borgarrígurinn komi fyrst og svo bæti fótboltinn bara gráu ofan á svart. 

Tvær flökkusögur eru til dæmis lífseigar. Önnur þeirra á uppruna sinn í ævisögu Bob Stokes, leikmanns Southampton, sem skoraði sigurmark liðsins í úrslitaleik um FA bikarinn árið 1976 (þeim eina sem Southampton hefur nokkurn tíma unnið). Bókin er skrifuð af stuðningsmanni Southampton og í henni segir að á borgarbókasafninu í Portsmouth sé búið að fjarlægja allar heimildir um leikinn eftirminnilega árið 1976. Bobby Stokes skoraði eina mark leiksins á 83. mínútu, gegn liðinu sem allir héldu að hefði átt að vinna, Manchester United. Sagan segir að ef farið er upp á aðra hæð í Portsmouth Community Library, framhjá brjóstmyndinni af Charles Dickens, framhjá röð bókahilla, upp að veggnum þar sem finna má allt útgefið fréttaefni Portsmouth News frá árinu 1967, sé engin ummerki finna um sigurleik Southampton árið 1976. Borgarbúar í Southampton eru þannig sagðir hafa fjarlægt allar þessar heimildir og borgaryfirvöld gera ekkert í málinu. Þetta er reyndar flökkusaga, eins og ég sagði áðan, og ef farið er eftir leiðbeiningum ævisöguritarans þá má vissulega finna heimildir um sigurleikinn. En sagan er góð.

Hin flökkusagan er sögð vera uppruni uppnefnisins sem Portsmouth-menn nota yfir stuðningsmenn Southamton. Southampton-menn hafa síðan snemma á 20. öld verið kallaðir scum, eða scummers, af grönnum sínum í Portsmouth. Sagan segir að þegar hafnarverkamenn í Portsmouth fóru í verkfall á fjórða áratugnum, hafi félagsmenn í Southampton Company Union Members (S.C.U.M.) gengið í störf hafnarverkamannanna. Eins og gefur að skilja fór það illa í hafnarverkamenn í Portsmouth og fjölskyldur þeirra, en rétt eins og hin flökkusagan þá áttu atburðirnir sér aldrei stað. 

Southampton-menn kalla Portsmouth menn svo gjarnan skötur (e. skates) og segir sagan að þegar sjómenn, sem reru frá Portsmouth, komu í land hafi engar konur viljað svala óseðjandi kynþorsta þeirra (þeir eru enda flestir forljótir!). Án efa er þetta enn önnur flökkusagan, en margir vilja meina að sjómenn Portsmouth-borgar hafi svalað losta sínum með hjálp skatanna sem þeir veiddu á túrnum…

***

Það sem einkennir nágrannaerjur fótboltaliðanna tveggja, Portsmouth og Southampton, er hversu sjaldan liðin mætast. Seinast mættust þau á Fratton Park, heimavelli Portsmouth, árið 2019 og lauk leiknum með glæstum 0-4 sigri gestanna frá Southampton. Þar áður höfðu liðin ekki mæst í sjö ár. 

Það er því alltaf mikill hiti í stuðningsmönnum beggja liða þegar þeir mætast og sagan er blóðug. Árið 1966 er sagt að blóðsúthellingarnar hafi byrjað þegar fjöldi stuðningsmanna voru handteknir í Portsmouth. Tíu árum síðar, árið 1976, skoraði Nick Channon mark í uppbótartíma fyrir Southampton, sem fóru með sigrinum upp í efstu deild. Þetta var síðasti leikur tímabilsins og Portsmouth menn fóru með tapinu niður í þriðju deild. Heitustu bullurnar í liði Portsmouth hurfu þá úr stúkunum og birtust allt í einu í tröppunum í stúkunni hjá stuðningsmönnum Southampton sem fögnuðu ákaft. Ekki þarf að fjölyrða um þau slagsmál sem þá fóru í hönd.

Ári seinna mætast liðin í enska bikarnum og lögreglumenn voru sannarlega í viðbragðsstöðu. Þegar allra hörðustu stuðningsmenn Portsmouth mættu með lest til nágranna sinna í Southampton, beið lögreglan á brautarpallinum og handtók alla lestina. Þeim var þó hleypt á völlinn, The Dell, fyrir rest. 

Sex árum síðar, árið 1984, mætast liðin aftur í leik sem kallaður hefur verið The Battle of Fratton. Þegar allt stefndi í markalaust jafntefli hljóp bakvörður Southampton, Mark Dennis, í átt að stúkunni til að sækja boltann fyrir markspyrnu sem átti að taka. Í sömu andrá kastar óþekktur stuðningsmaður Portsmouth smápening í höfuðið á Dennis svo að blæddi. Skiljanlega þurfti langan uppbótartíma og á þeim tíma tókst Southampton að skora eina mark leiksins. Í dagblöðum í Southamton var hverjum þeim, sem hafði upplýsingar um hver kastaði peningnum, boðin 200 pund í verðlaun. 

Fjórum árum síðar, árið 1988, mættust liðin næst og aldrei fyrr né síðar hafa jafnmargir verið handteknir af lögreglu á einum fótboltaleik milli liðanna tveggja. Alls voru 116 stuðningsmenn liðanna teknir höndum. 

Það er alltaf sagt að nágrannaerjur Southampton og Portsmouth séu svo slæmar því að liðin mætast svo sjaldan, en í upphafi 21. aldar, þegar liðin voru í sömu deild þrjú ár í röð, þá urðu slagsmálin eiginlega bara verri. Mér er til dæmis sagt að á síðasta leik liðanna, þegar Southampton vann 0-4 útisigur, hafi stuðningsmaður Southampton verið stunginn til bana. Ég fann að vísu engar fréttir í bæjarblaði Southampton, The Daily Echo, sem staðfestu það, þannig þeirri sögu ber að taka með fyrirvara. 

Verandi stuðningsmaður Southampton bíð ég spenntur ef næsta nágrannaslag á Suðurströndinni. El Clásico, Merseyside-derby og Norður-Lundúnaslagurinn eru ekkert miðað við það. 

Latest posts by Oddur Þórðarson (see all)

Oddur Þórðarson skrifar

Oddur hóf að skrifa á Deigluna í maí 2020.