Samfélagslega lögleg fyrirtæki

Þegar upp koma krísur þarf að bregðast hratt og örugglega við. Í slíkum aðstæðum er auðvelt – og fullkomlega réttlætanlegt – að gera mistök. Þess vegna eiga það ekki að vera mistökin sem menn eru mældir af, heldur hvernig þeir bregðast við þeim.

Við höfum fram að þessu getað gengið að því vísu að sólin rísi að morgni og við bíðum af okkur nokkur ljós á Kringlumýrarbrautinni á leið til vinnu. Þegar brast á með krórónuveirunni breyttist þetta allt – eða svona hér um bil. Yfir okkur helltist í það minnsta fullkomin óvissa um hvað tæki við. Skynsamt fólk bjó sig undir það versta, hamstraði klósettpappír og þurrger og setti starfsfólkið sitt á hlutabótaleiðina. Hvort tveggja fullkomlega eðlileg viðbrögð.

Þegar frá leið kom í ljós að það var kannski ekki þörf á að hamstra klósettpappír. Málningarbúðin, sem bjó sig undir það versta jók söluna. Óvissan um virkni hlutabótaleiðarinnar og afleiðingar ástandsins á reksturinn komu betur í ljós og stjórnendur áttuðu sig í sumum tilvikum á því að leiðin hentaði ekki eða átti ekki við af einhverjum ástæðum. Hlutabótaleiðin er sniðin að Icelandair og aðilum í ferðaþjónustu, þar sem ekki eru næg verkefni fyrir starfsfólk. Hún hentar ekki fyrirtækjum sem enn hafa næg verkefni, jafnvel þó þau hafi orðið fyrir verulegu tekjufalli. Henni var komið á til að fækka gjaldþrotum og bjarga störfum.

Það kunna að hafa verið mistök hjá ríkisstjórninni að setja hlutabótaleiðina af stað með svo opnum hætti sem gert var, án skilyrða. Að mínu mati er það þó gott dæmi um hvað við höfum lært af síðustu krísum. Of flóknar reglur og þröng skilyrði skaða björgunaraðgerðir: Aðeins þeir sem geta framvísað miða á fyrsta farrými hafa forgang í björgunarbátana.

Féð sem varið er í hlutabótaleiðina og aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar kemur úr sameiginlegum – og takmörkuðum – sjóðum okkar. Það verður umdeilt hvernig fénu verður varið. Hvaða fyrirtæki lifa krísuna af með aðstoð og hver falla. Slík umræða er nauðsynleg og gerir okkur betur í stakk búin að takast á við næstu krísu. En umræðan þarf að vera málefnaleg og það eina sem áfellisdómar og að taka einstaklinga fyrir er að hvetja til ákvörðunarfælni þegar mikið liggur við.

Við erum öll almannavarnir. Við erum hvött til að fara að þeim reglum sem settar hafa verið og okkur hefur borið gæfa til þess að ekki hefur þurft að beita valdi til að framfylgja þeim. Það hefur ekki þurft að setja útgöngubann eða herlög. Við höfum heilt yfir hegðað okkur með ábyrgum hætti þó ekki hafi í öllum tilvikum verið skýrt lagaboð eða settur upp refsirammi. Það er nefnilega sitthvað löglegt og ábyrgt.

Við búum í samfélagi við annað fólk. Krafan um að fyrirtæki hegði sér með ábyrgum hætti í samfélaginu verður æ háværari. Samfélagsleg ábyrgð er ekki bara að fara að lögum: Það er ekkert til sem heitir samfélagslega löglegt fyrirtæki. Samfélagsleg ábyrgð er að huga að því hvaða afleiðingar aðgerðir fyrirtækisins hafa á samfélagið. Fyrirtæki sem nýtir sér hlutabótaleiðina án þess að þurfa á því að halda er að taka af sameiginlegum sjóðum okkar sem ætlað er til björgunar. Taka frá sæti í björgunarbátnum – bara til öryggis. Það er löglegt. Það er jafnvel ábyrgt út frá rekstrarlegu sjónarmiði í þessari óvissu. En það er ekki samfélagslega ábyrgt.

Í mínum huga er það fullkomlega eðlilegt og rekstrarlega ábyrgt að fleiri en færri fyrirtæki hafi sótt um hlutabótaleiðina. En það er samfélagslega ábyrgt hjá þeim fyrirtækjum sem ekki þurftu á henni að halda að segja sig frá henni og endurgreiða féð. Það er ekkert ólöglegt við það að fara í Mæðrastyrksnefnd og sækja sér í matinn. Fyrir þann sem býr í næsta húsi og hafði ekki tíma til að komast í búð er það beinlínis mjög hentugt. Ég tala ekki um ef hann styrkir Mæðrastyrksnefnd með mánaðarlegum kortafærslum. Fullkomlega löglegt og afar hagkvæmt fyrir alla. En lagaboðið gefur okkur ekki alltaf leiðbeiningar um hvað er ábyrgt og siðlegt. Við viljum umgangast og eiga viðskipti við þá sem hegða sér með ábyrgum og siðlegum hætti, en sniðganga hina.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)