Ríkiseinokun fjölmiðla 2.0

Eitt af því sem manni var kennt í blaðamennsku var að fréttir voru styttar aftan frá. Maður átti að skrifa fréttina þannig að hún héldi sér að efni til þótt klippt væri aftan af henni, alveg fram að fyrirsögninni. Þegar vel tókst til fangaði fyrirsögnin kjarna fréttarinnar.

Þetta er allt breytt og þessu er í raun öfugt farið í blaðamennsku nútímans á netinu. Fyrirsagnir og inngangur frétta er viljandi hafður svo óljós að ógjörningur er að átta sig fréttinni nema smella. Og oftar en ekki kemur þá í ljós að ekki er um neina frétt að ræða. Lengst af var þetta bundið við léttmeti sem rataði inn á fréttavefi en smám saman hefur þessi ósiður yfirtekið framsetningu hjá jafnvel virtustu fréttamiðlum.

Tilgangurinn er auðvitað augljós. Auglýsingatekjur taka mið af lestri og lestur er vanalega mældur í smellum. Það er sá veruleiki sem við búum við, áskrift eða lausasala á blöðum stendur ekki undir rekstri blaðanna lengur. Þó virðist einhver vonarglæta vera í því að sum af rótgrónari blöðunum, til að mynda á Norðurlöndum, eru farin að selja áskriftir að fréttavefjum sínum. Það gefur fyrirheit um að þessari þróun megi snúa við.

Á Íslandi er þetta sérstakt vandamál og raunar alvarlegra en víðast hvar annars staðar. Baráttan um auglýsingatekjur er blóðug, bitarnir fáir og flestir litlir, og hlutfallslega margir um hituna. Það sem gerir þó útslagið er að ríkisvaldið hefur séð ástæðu til að vera í aðalhlutverki á þessum markaði og umsvif þess hafa vaxið gífurlega síðustu árin. Er nú svo komið að einkareknir fjölmiðlar eiga sér ekki viðreisnar von í samkeppninni við ríkisfjölmiðlana sem búa að því að fá áskriftargjöldin inn um lúguna hjá sér um hver mánaðamót í krafti nauðungaráskriftar landsmanna allra.

Blaðamennsku á Íslandi hefur hrakað stórlega. Þeim sem efast um það er bent á vefinn timarit.is þar sem fletta má í gegnum gömul tölublað Morgunblaðsins, Dagblaðsins Vísis, Tímans, Þjóðviljans, Alþýðublaðsins og fleiri dagblaða. Það þótt lengi móðins að tala flokksblöðin niður en því verður ekki á móti mælt á þeim störfuðu í flestum tilvikum blaðamenn sem höfðu brennandi ástríðu fyrir hlutverki sínu, fréttastjórar sem gerðu kröfur til sín og annarra um gæði, og ritstjórar sem umgengust vald sitt af meiri ábyrgð en þekkist í seinni tíð.

Árið 1984 var útvarpsrekstur gefinn frjáls á Íslandi eftir áratuga einokun ríkisins. Hafði um það forystu Ragnhildur Helgadóttir, þáverandi menntamálaráðherra, en frjálst útvarp hafði verið baráttumál frjálslyndra manna, einkum í Sjálfstæðisflokki, um árabil. Um þann áfanga er m.a. fjallað í pistli sem ég skrifaði á Deigluna fyrir fimmtán árum. Þar sagði:

Það var tímamótaskref í frjálsræðisátt í sögu útvarps á Íslandi sem stigið var 13. júní 1985. Því miður hafa skrefin síðan ekki orðið ýkja mörg. Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi farið með yfirstjórn útvarpsmála samfellt síðan 1991 hefur ekki orðið áframhald á þeirri viðleitni sem Ragnhildur Helgadóttir og fleiri sjálfstæðismenn sýndu í verki fyrir tuttugu árum.

Ríkisúvarpið er enn fyrirferðamikið í útvarpsrekstri og hafa umsvif þess vaxið fremur en minnkað á þessu tímabili. Ríkisvaldið innheimtir enn nauðungargjöld af öllum eigendum viðtækja á sama tíma og það á í samkeppni við einkaaðila um tekjur af auglýsingum. Þar við bætast regluleg framlög úr ríkissjóð til að leiðrétta hallarekstur RÚV, útgjöld sem skipta milljörðum á þessu tímabili.

Og það sem verra er, Sjálfstæðisflokkurinn virðist nú orðinn staðráðinn í því að viðhalda Ríkisútvarpinu og efla það stórlega sem stofnun. Allar fyrirætlanir um að koma rekstri þess að hluta til eða í heild í hendur einkaaðila virðast gufaðar upp.

Stefna í stað stofnunar (Deiglan, 21. júlí 2005).

Fimmtán ár eru liðin síðan þetta var skrifað og þá voru bara tuttugu ár liðin frá því að einokun ríkisins var rofin. Það er grátleg að við höfum nú færst enn fjær því marki að leysa fjölmiðlun á Íslandi úr viðjum ríkisreksturs. Þvert á móti hefur Ríkisútvarpið, að miklu leyti fyrir tilstuðlan ráðherra Sjálfstæðisflokksins, sölsað fjölmiðlamarkaðinn undir sig og er nú svo að segja allsráðandi.

Á meðan verður baráttan um brauðmolana á auglýsingamarkaði æ átakanlegri, fyrirsagnirnar fráleitari, fréttirnar lélegri og þjóðmálaumræðan öll endar á þeim stað sem hún var áður en einokun ríkisins var afnumin fyrir 35 árum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.