Rauðir fánar

Fyrsti maí er alvöru dagur. Ólíkt öðrum fánadögum þá er einhvern rangt að vera í hátíðarskapi á fyrsta maí. Menn þurfa að vera hæfilega reiðir, sárir helst.

Fyrsti maí er alvöru dagur. Ólíkt öðrum fánadögum þá er einhvern veginn rangt að vera í hátíðarskapi á fyrsta maí. Menn þurfa að vera hæfilega reiðir, sárir helst. Í seinni tíð hefur samkeppnin milli þeirra sem koma reiði sinni á framfæri á þessum degi orðið inntaki dagsins yfirsterkari, nema það sé einmitt inntakið.

Í skugga múrsins, birtast mér syndir
sögunni breytt, svo ekkert þú fyndir
um menn sem höfðu ekki kraft né krafta
þar sem rauðir fánar blakta.

Í æsku var þetta merkilegur dagur. Það voru kröfugöngur og ég man að einhvern tímann kom ég heim með límmiða sem ég límdi fastan á ísskápinn. Þótt rauðir fánar hafi ekki verið í hávegum á mínu æskuheimili þá fékk þess límmiði að vera á ísskápnum árum saman.

Bakvið gaddavírinn ljósin þau veiða
fanga þig í geislanum, uppræta og eyða
þú sérð drauma þína rifna í parta
meðan rauðir fánar á múrnum blakta.

Fyrsti maí með öllum sínum rauðu fánum er áminning um að fara vel með frelsið, lýðræðið og mannréttindin sem við njótum. Þar sem rauðir fánar blakta alla daga ársins fer lítið fyrir þessum hlutum.


Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.