Pólsk yfirráð framundan?

Hún býr yfir þessum fölskvalausa sigurvilja sem einkennir afreksfólk, þessum heiðarlega metnaði til þess að gjörsigra hvern einasta andstæðing.

Á tímum þar sem upplifun manna er í öndvegum höfð og öll tilveran hverfist um það sem karla og konur upplifa, til góðs eða ills, þá voru alltof fáir sem upplifðu tímamótasigur hinnar ungu Igu Swiatek á Opna franska meistaramótinu í Tennis, Roland Garros, í París í dag. Það var þó bót í máli að geta fylgst með og samglaðst Pólverjanum unga og pólsku þjóðinni.

Ég man vel þegar ég byrjaði að fylgjast með tennis. Það var á hótelherbergi í St. Petersburg í Flórída þegar Opna bandaríska meistaramótið stóð sem hæst í september 1987. Auðvitað hafði maður séð fréttir af þessari íþrótt þegar Björn Borg var upp á sitt besta en þetta var í fyrsta sinn sem ég fylgdist með heilu móti, leik eftir leik.

Á þessu móti öttu kappi miklar kempur á borð við Bandaríkjamennina John McEnroe og Jimmy Connors, Svíana Mats Wilander og Stefan Edberg og Tékkóslóvakann Ivan Lendl. Svo fór að Lendl sigraði, aðallega í krafti óviðjafnanlegra uppgjafa sem andstæðingar hans áttu engin svör við. Frá 1987 hef ég gert mér far um að fylgjast eins og hægt er með stórmótunum í tennis, jafnt í karla- og kvennaflokki, þeim síðari í ríkari mæli eftir því sem árin hafa liðið.

Tennis er stórkostleg íþrótt. Andstæðingar eru einmitt andstæðingar, maður á mann standa þeir andspænis hvor öðrum, og athafnir annars hafa bein áhrif á athafnir hins, ólíkt hlaupi, sundi, skíðum og slíkum einstaklingsíþróttum. Það er þannig fullkomið orsakasamband í öllum innbyrðisathöfnum keppendanna tveggja. Að því leyti er þetta eins box eða skylmingar. Fegurðin í tennis er hins vegar sú að það er boltinn sem tengir andstæðingana saman, því þeir standa hvor sínum megin netsins, á sínum helmingi vallarins hvor.

Leikurinn sjálfur er einfaldur og reglurnar bæði skýrar og fullkomlega hlutlægar. Ekkert er háð mati, nema auðvitað hvort boltinn lendir innan vallar eða utan, en það er með síðari tíma tækni hlutlægt sönnunaratriði í vafatilvikum. Áhorfendur eru því alltaf vel með á nótum og skilja hvað um er að vera hverju sinni. Tennis hentar fullkomlega í sjónvarp því ólíkt mörgum öðrum íþróttum þá sér fólk heima í stofu allt sem gerist á vellinum allan tímann.

Áhugi minn hefur beinst að kvennaflokki eftir því sem árin hafa liðið. Ástæðan er kannski sú að það er eiginlega meiri tennis í þeim flokki, þar sem karlaleikirnir eiga það til að ráðast mjög af kraftmiklum uppgjöfum. Loturnar í kvennatennis eru þannig lengri og þar reynir á útsjónarsemi og tækni en afl og kraftur skiptir ekki sköpum, alla vega ekki alltaf.

Sú besta síðustu árin, Serena Williams, hefur reyndar breytt þessu, því hennar aðalsmerki er einmitt afl og kraftur. En það gildir í íþróttum eins og öðru að enginn má sköpum renna. Og nú virðist tími Serenu á enda og upp er runninn tími hinnar pólsku Igu Swiatek, nítján ára gamallar stúlku sem sigraði mjög óvænt en þó afar sannfærandi á mótinu í París. Hún er jafnframt fyrsti Pólverjinn sem sigrar á risamóti í tennis og því um mikil tímamót að ræða.

Framganga hennar vakti eðlilega mikla athygli. Hún er tæknilega góð en það er fyrst fremst áræðnin, viljinn og gleðin sem einkennir hennar leik. Hún býr yfir þessum fölskvalausa sigurvilja sem einkennir afreksfólk, þessum heiðarlega metnaði til þess að gjörsigra hvern einasta andstæðing. Allt með bros á vör og af mikilli virðingu.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.