Okkar eigin Trump?

Örskömmu áður en hún varð að veruleika í Bandaríkjunum þótti hugmyndin um að Donald Trump yrði kjörinn forseti svo fjarstæðukennd að hún var gjarnan notuð í svipuðu samhengi eins og „þegar svín fljúga.“ Obama gerði illþyrmilega grín að honum á árlegum fögnuði félags blaðamanna í Hvíta húsinu árið 2011, og halda sumir því fram að þá hafi hinn misheppnaði fasteignamógúll í raun upplifað eitthvað svipað og andhetja í ofurhetjumynd. Hann var niðurlægður, smánaður og hæddur. Og þar sem hann hefur í gegnum sína undarlegu forréttindalífstíð oftast verið í hlutverki þess sem niðurægir, smánar og hæðir aðra—þá hafi hans viðkvæma egó ekki leyft öðru að komast að en hefnd. Sú hefnd fullkomnaðist svo vitaskuld þegar hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna 2016.

Roskinn auðmaður, með ævintýralegar hugmyndir um sjálfan sig, fullkominn skort á meðlíðan og enga reynslu af stjórnmálum lagði af stað út í kosningabaráttu sína með einungis einföldustu vopn stjórnmálanna. Með því að ala á ótta, fordómum, reiði og öfund tókst honum að safna stuðningi meðal þeirra sem voru fullsaddir á vitsmunasnobbi menntaelítunnar. Málflutningur hans hefur frá fyrstu tíð einkennst af hörmulegri meðferð á staðreyndum, algjöru skeytingarleysi um röklegt samhengi og fullkominni fyrirlitningu á því sem kallast mætti málefnalega umræða. Þegar hann finnur sér ógnað er hann fljótur að grípa til grífuryrða, hann lítillækkar þá sem andmæla honum og velur þeim niðrandi uppnefni þannig að allar hefðbundnar aðferðir rökræðu og skoðanaskipta fjúka út um gluggann. Að reyna að rökræða við Donald Trump er eins og ætla að beita aðferðum ballet-dans í slagsmálum við Gunnar Nelson.

Hræðsluáróður Donalds Trump í Bandaríkjunum hefur beinst að útlendingum; en í grunninn til þá virka svona náungar allir eins. Þeim hentar vel að benda á illa skilgreindar utanaðkomandi hættur og markaðssetja sjálfa sig upp sem nokkurs konar bjargvætti. Þeir skeyta ekkert um hræsnina sem felst í því að þeir auglýsi sig sem fulltrúa almennings á meðan þeir lifa sjálfir í lystisemdum og forréttindum.

Við á Íslandi getum auðvitað brosað í kampinn yfir því að Bandaríkin hafi kosið annan eins angurapa yfir sig eins og Donald Trump. Líklega er þó öruggara að trúa því að sambærilegir hlutir geti gerst hvar sem er í heiminum, þar á meðal á Íslandi. Það getur alveg eins gerst hér á Íslandi að týpa eins og Berlusconi og Trump nái völdum. Í slíkum mönnum fer saman yfirgengilegt sjálfstraust og sjálfsupphafning ásamt algjörri blindu á eigin takmarkanir. Það skiptir engu hversu oft þeir eru reknar á gat með staðreyndaþvælur sínar eða röksemdir; þeir halda bara áfram. Þessir eiginleikar geta haft ákveðið aðdráttarafl, og kannski meira eftir því sem reiði og ótti hafa meira pláss í þjóðarsálinni.

Með því að taka ekki Trump alvarlega í upphafi sváfu bandarískir stjórnmálamenn á verðinum—og bandarískir fjölmiðlar hafa bæði nært og nærst á nánast óseðjandi áhuga fólks á sirkusnum í kringum forsetann. Það styttist í kosningar í Bandaríkjunum, og flestir Íslendingar vona líklegast heitt og innilega eftir að Donald Trump bíði verðskuldaðan ósigur. Það er þó allsendis óvíst að svo verði. Opinber umræða í Bandaríkjunum hefur nú þegar tjónast svo mjög að tuddaskapurinn í forsetanum er orðin að nýju normi.

Vítin eru til að varast þau. Alveg eins og í Bandaríkjum geta snjallir menn náð að skapa í kringum sig áhugaverðan sirkus sem fjölmiðlar eiga á hættu að kokgleypa. Mönnum sem hafa til þess hæfileika og persónutöfra geta komið því til leiðar að hefðbundin viðmið vitsmunalegrar rökræðu virðast hætta að gilda. Þetta er stórhættulegt. Fólk sem uppnefnir þá sem eru þeim ósammála, snýr endalaust útúr, viðhefur óviðeigandi gífuryrði og hræðsluáróður og fer ítrekað með fleipur og staðreyndavillur ætti að sjálfsögðu að vera dæmt úr leik í viti borinni umræðu; alveg sama hversu mörgum smellum fréttirnar um sirkusinn safna.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.