Nú má maður segja maður

Í grunnskóla og menntaskóla var manni [les: mér] kennt að það væri óformlegt og óvandað mál að nota “maður” sem óákveðið fornafn í rituðu máli. Það væri kannski, kannski allt í lagi að segja við vin sinn “hvað er best að éta þegar maður er ógeðslega svangur?” en í vandaðri menntaskólaritgerð færi betur á að skrifa “hvað er best að snæða þegar hungrið steðjar að?”

Manni voru gefnar glósur yfir helstu brögð sem maður gat beitt til að segja maður án þess að segja maður.

Til dæmis að nota “það” og segja: “Það á ekki að hlusta á svona bull!” í stað “Maður hlustar ekki á svona bull!”

Stranglega bannað væri að skipta “maður” út fyrir “þú”. Það væri enska. Þú gerir það ekki. Fyrirgefið. Maður gerir það ekki! Nei, fyrirgefið aftur! Það á ekki að gera það.

Önnur aðferð, til þrautarvara, væri að nota “menn” í fleirtölu frekar en maður. “Svona gera menn ekki,” er klárlega miklu vandaðra og betra en “svona gerir maður ekki”. Það sér það hver maður.

Þetta er allt saman gott og blessað, það er svo sem ágætt að bjóða upp á ýmsa valkosti í tungumálinu. En ég játa að ég hef eytt töluverðum tíma af starfsævi minni sem pistlahöfundur í að endurrita setningar sem innihalda “maður” til að fá það ekki í andlitið að ég kynni ekki að skrifa. Í baksýnisspeglinum minnir þessi viðleitni helst á það þegar einhver skrifaði bók á ensku án þess að nota bókstafinn “e” . Skemmtileg æfing en algerlega tilgangslaus.

Þannig að ég lýsi því yfir að hér eftir megi [maður] nota maður sem óákveðið fornafn í formlegu ritmáli, ræðum, skáldsögum, leiðbeiningarbæklingum, vísindagreinum og minningarorðum. Þar hafa menn það. 

Og svo er heldur ekkert að því að láta setningar byrja og enda á og.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.