Mikilvægustu eiginleikar miðbæja

Til þess að byggja upp öflugan stað þá þarf sterkt hjarta. Því skiptir það hvern stað miklu máli að vanda til verka og hugsa til langs tíma þegar ákvarðanir eru teknar um miðbæjarsvæði.

Í hverju þorpi, bæ og borg er einn staður sem gegnir hlutverki hjarta samfélagsins. Það er miðbærinn. Þar er mesta fjölbreytnin í starfsemi. Þar má yfirleitt finna menningarhús, Ráðhús og Aðaltorg staðarins. Þar til viðbótar eru þeir oft inngangur viðkomandi staða þar sem flestir gesta munu hefja heimsókn sína þar eða að minnsta kosti eiga þar leið um á einhverjum tímapunkti heimsóknar sinnar.

Til þess að byggja upp öflugan stað þá þarf sterkt hjarta. Því skiptir það hvern stað miklu máli að vanda til verka og hugsa til langs tíma þegar ákvarðanir eru teknar um miðbæjarsvæði.

Hafnarfjörður státar af einni stærstu samfelldu byggð timburhúsa á Íslandi í miðbæ sínum. Þessi fallega byggð er í ofanálag ofan á náttúrulegri hraunbreiðu og liggur  við sjó. Það ætti því að vera gefið mál að slíkur miðbær hefði gríðarlegt aðdráttarafl langt út fyrir sitt eigið sveitafélag.

Þannig er það ekki, en af hverju?

Þegar rýnt er í greinar og bækur um vandaða byggð sem laðar að sér fólk þá er einn eiginleiki sem er mjög ofarlega hvar sem leitað er. Það er hugtakið „gangbærni“ sem vísar í að það sé þægilegt, einfalt, ánægjulegt og öruggt að ganga um svæði.

Þegar þessi mælistika er sett á miðbæ Hafnarfjarðar sést mjög glögglega hvar bærinn fór af sporinu. Fyrir hundrað árum var blómlegur miðbær í Hafnarfirði, opinn til móts við hafið þar sem fólk gekk flestra sinna leiða, verslanir voru á hverju strái og fólk var stöðugt að rekast hvort á annað á ferð sinni um bæinn.

Þegar byggð fór að þenjast út, fleiri hverfi að byggjast upp og verslunarhættir fóru að breytast með minnkandi verslun í miðbænum var ákveðið að bregðast við með snarlegum hætti og allar verstu hugmyndir sem ríktu í skipulagsmálum þess tíma voru settar í gang þar sem stórgerð byggð með verslunarmiðstöð í miðjunni var reist sunnan við miðbæinn sem tók sjávarsýnina af Strandgötunni.

Þá hugsuðu einhverjir með sér að enginn myndi sækja verslunarmiðstöð án ókeypis bílastæða, svo það var búin til malbikseyðimörk fyrir þúsund bílastæði þar fyrir sunnan. Til þess að kóróna aðgerðina var loks sett hraðbraut þar fyrir sunnan með 50 kílómetra hámarkshraða.

Þannig er miðbær Hafnarfjarðar sundurslitin af umferðarmannvirkjum sem stefna að miklum hraða en horfa ólundarlega á fólk sem gerist svo frekt til fjörsins að vilja vera gangandi, með kerru, á hjólastól eða hjólandi.

Þessi mynd er ágætis birtingarmynd fyrir forgangsröðun miðbæjar Hafnarfjarðar. Gangandi vegfarandi sem hefur gengið ágætan stíg norðan við Hamarskotslæk rekur sig á það þegar hann er kominn að Strandgötu þá hefur bærinn beinlínis lagt stein í götu hans til sjávar. Vinur hans á jeppanum á götunni við hliðina þarf varla á stíga á bremsuna enda leiðin bein og breið.
Hér má sjá annað sambærilegt dæmi. Við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar eru falleg trjágöng sem tengja Suðurgötuna við sjóinn.
Eina vandamálið er að þegar að enda stígsins er komið eru engin gangbraut heldur er fólk leitt í öngstræti.

Góðu fréttirnar eru þær að skaðinn er ekki allur óafturkræfur. Það er hægt að byrja strax í dag að vinna að því að endurheimta blómlegan miðbæ Hafnarfjarðar, fullan af fólki á hlaupum í innkaupum.

Fyrsta skrefið felst í því að minnka hámarkshraða á svæðinu niður í 30 km hraða. Það mun auka öryggi, minnka hávaða og minnka mengun. Allt þetta bætir mannlífið á svæðinu. Hluti af þeirri framkvæmd væri að fara í hraðaminnkandi hönnun á Fjarðargötu og fjarlægja hringtorg sitt hvorum megin við miðbæinn og setja þess í stað gatnamót.

Næsta skref væri að fara í markvissar framkvæmdir sem bæta göngustígakerfið með það meginmarkmið að tengja betur gönguleiðir við hafið.

Þessi mynd sýnir sjö eðlilegar tengingar göngustíga við hafin sem eru í dag skornar í sundur með götum og bílastæðum. Ef gönguleiðirnar væru í takt við bláu örvarnar, gangandi fólk í forgangi, væri miðbærinn strax miklu betri staður til að vera á.

Betri miðbær í Hafnarfirði verður ekki til með einu stóru stökki. Hann gerist með hundrað litlum skrefum í takt við hugmyndafræði gangbærra bæja.

Eitt skref í einu.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.