Meðvirkni með popúlisma

Það duldist þeim ekki, sem horfðu á kappræður forsetaframbjóðenda fyrir komandi kosningar á Stöð 2 fyrir skemmstu, að þáttastjórnendur áttu í mesta basli við að hafa hemil á öðrum frambjóðandanum. Guðmundur Franklín Jónsson hamaðist við að koma á framfæri sínum óútpældu sjónarmiðum, milli þess sem hann gerði árásir að persónu sitjandi forseta. Guðni Th. Jóhannesson var kallaður rasisti, glóbalisti og lygari – hann lygi að þjóðinni í sífellu og gengi erinda einhverrar menntaelítu. Kosningaloforð Guðmundar byggjast aðallega á misskilningi og vankunnáttu hans þegar kemur að íslenskri stjórnsýslu og hlutverks forsetaembættisins. Hann lofar öllu fögru um að stöðva aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu (sem auðvitað er alls ekki í kortunum). Honum er einnig tíðrætt um að nýta málskotsrétt forseta í tíma og ótíma og svo lofar hann mörgu öðru sem þarf eflaust ekki að reifa fyrir lesendum Deiglunnar. Svo virðist sem Guðmundi Franklín sé fátt annað í hug en að gera úr sitjandi forseta einhvern strámann sem fylgjendur Guðmundar geta síðan keppst við að mála upp sem andstæðing íslensku þjóðarinnar á sem ómálefnalegastan máta.

Erfitt getur verið fyrir fjölmiðla að fjalla um stjórnmálamenn eins og Guðmund Franklín. Þegar tvær andstæðar fylkingar mætast, önnur málefnaleg en hin ekki – líkt og í þessari kosningabaráttu sem nú stendur yfir – er mikilvægt að fjölmiðlar missi ekki sjónar á því hve skaðlegt það er að gera málefnalegri orðræðu og ómalefnalegri jafnhátt undir höfði. Það þarf ekki að taka einarða afstöðu með öðrum frambjóðanda eða flokki til þess að fjalla um popúlísk stjórnmálaöfl og frambjóðendur með það í huga, að þau eru jú, populísk, ómálefnaleg og skaðleg. Þegar Guðmundi Franklín er gert að rökstyðja þær blammeringar sem hann hefur í frammi, þá er ekki verið að taka afstöðu með Guðna. Það er verið að taka afstöðu gegn vitleysu og ómálefnalegri orðræðu. Þetta er vert að hafa í huga.

Í Bandaríkjunum eru margir fræðimenn á því máli að Repúblikanaflokkurinn sé að verða öfgakenndari í stefnumálum sínum og orðræðu. Þetta er ekki nýlunda og einskorðast því ekki bara við Donald Trump, skoðanabróður Guðmundar Franklíns, heldur við flesta forseta Republíkanaflokksins á síðari hluta 20. aldar og í upphafi þeirrar 21. Norm Ornstein, þekktur stjórnmálafræðingur í Bandaríkjunum, hefur t.a.m. skrifað bækur um þetta sem ég mæli með að fólk kynni sér.

Þrátt fyrir þessa þróun eru stærstu kapalfréttastöðvarnar þar vestra smeykar við að ræða þessa þróun og tala iðulega um að báðum flokkum sé um að kenna, þegar t.a.m. annar flokkurinn stöðvar mikilvæg mál í bandaríska þinginu með málþófi. Þekkt dæmi sem Ornstein tekur er þegar frumvarp Obama-stjórnarinnar um breytingar á heilbrigðiskerfinu bandaríska var stöðvað af Repúblikönum svo að þingið varð nánast óstarfhæft. Þetta gerðu Repúblikanar án þess að hafa svo mikið sem séð frumvarpið sem þeir voru svona andsnúnir. Í kjölfarið, kepptust fjölmiðlar við að skella skuldinni á báða flokka og sögðu Barack Obama spila „the blame-game“ þegar hann gagnrýndi Repúblikana fyrir að taka bandaríska þingið í gíslingu.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum eru nefnilega hræddir við að vera stimplaðir sem málpípur einhverra ákveðinna flokka eða ákveðinna afla, tækju þeir afstöðu gegn ómálefnalegu og skaðlegu framferði ákveðinna flokka – eins og í dæmi Repúblikana (Þetta segir Norm Ornstein a.m.k.). Sem betur fer voru þáttastjórnendur Stöðvar 2 óhræddir við að reka vitleysuna ofan í Guðmund Franklín þegar hann hóf sitt pólitíska drullumall um daginn. Og þó ég eigi ekki von á því að það breytist það sem af er kosningabaráttunni fyrir komandi kosningar, tel ég rétt að minna á skaðleika þess að sofna á verðinum. Ef við leyfum ómálefnalegri umræðu að grassera og skjóta rótum án þess að fjölmiðlar, akademíkerar og almennt skynsemisfólk taki til sinna vopna, mun það plægja akurinn fyrir fleiri frambjóðendur eins og Guðmund Franklín. Ég ætla að gera mitt og kjósa með heilbrigðri stjórnmálaumræðu þann 27. júní næstkomandi og hvet alla þá sem annt er um heilbrigða og yfirvegaða stjórnmálaumræðu að gera slíkt hið sama. Þetta gerist ekki af sjálfu sér.    

Latest posts by Oddur Þórðarson (see all)

Oddur Þórðarson skrifar

Oddur hóf að skrifa á Deigluna í maí 2020.