Mælum með Íslandi

Eftir heilt ár af ferðatakmörkunum vegna heimsfaraldurs eru utanlandsferðir eins og óraunveruleg og fjarlæg minning. Það er öruggt að hægt verður að ferðast til útlanda á einhverjum tímapunkti en óvissuþættir vegna Covid gera það að verkum að alls óvíst er nákvæmlega hvenær sá tímapunktur kemur.

Undanfarið ár hefur verið krefjandi fyrir ferðaþjónustuna en það hefur gleðilegt að sjá tölur yfir mikla fjölgun gistinátta Íslendinga í fyrrasumar. Ferðatakmarkanir af völdum heimsfaraldursins gerðu það að verkum að Íslendingar ferðuðust um eigið land á síðasta ári í stað þess að fara til útlanda í frí. Mest fjölgun varð á Austurlandi þar sem gistináttum fyrir júní, júlí og ágúst fjölgaði um 617% frá 2019 til 2020. Á Norðurlandi var fjölgunin 474%, á Suðurlandi 306%, á Vesturlandi og Vestfjörðum 288% og 121% á Höfuðborgarsvæðinu. Á Suðurnesjunum varð hinsvegar fækkun um 23%.

Það er ástæða fyrir því að Ísland hefur vaxið hratt sem áfangastaður fyrir erlenda ferðamenn á undanförnum árum. Ísland hefur upp á margt að bjóða í fallegri náttúru og mikla fjölbreytni í afþreyingu, gistimöguleikum og veitingastöðum í öllum landshlutum sem er alls ekki sjálfgefið í landi með 360.000 íbúa á 103 þúsund ferkílómetra svæði.

Það er einnig áhugaverð staðreynd að samhliða hröðum vexti í ferðaþjónustunni undanfarin ár og umræðu um “overtourism” þá hefur ánægja erlendra ferðamanna með Ísland sem áfangastað haldist í hæstu hæðum samkvæmt könnunum á svonefndu meðmælaskori. Það mælir hversu líklegt fólk er til að mæla með áfangastað við aðra. Skor yfir 50 þykir frábært og yfir 70 er á heimsmælikvarða. Árið 2019 mældist Ísland með meðmælaskor á bilinu 73 til 85. Það er ekki bara falleg náttúra sem stendur undir svona árangri heldur einnig þjónusta og fagmennska sem hefur byggst upp í íslenskri ferðaþjónustu.

Það er almennur skilningur á því að ferðaþjónustan mun skipta lykilmáli við endurreisn efnahagslífs á Íslandi eftir Covid-19 heimsfaraldurinn. Vegna fámennis íslensku þjóðarinnar munu íslenskir ferðamenn aldrei geta fyllt upp í skarð erlendra ferðamanna. En þangað til þeir geta á ný farið að ferðast til Íslands með tilheyrandi gjaldeyristekjum og atvinnusköpun þá munu ferðalög Íslendinga innanlands skipta miklu máli við að halda lífi í íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum og viðhalda þeirri frábæru ferðaþjónustu sem hefur byggst upp á Íslandi undanfarin ár.

Þó að febrúar sé rétt hálfnaður þá eru íslensk ferðaþjónustufyrirtæki farin að búa sig undir að taka á móti íslenskum ferðamönnum í sumar og Deiglan hvetur landsmenn til að njóta þess sem landið okkar hefur upp á að bjóða í öllum landshlutum. Það getur falið í sér að fara á baðstaði, upp á jökla, skipulagðar gönguferðir, áhugaverð söfn og sýningar, borða dýrindis mat á veitingastöðum sem nýta hráefni úr nágrenninu, hestaferðir, skipulagðar skoðunarferðir með leiðsögumanni, hellaskoðun, fjórhjólaferðir, bátsferðir og margt, margt fleira. Hægt er að fá innblástur á vefnum www.ferdalag.is. Gleðilegt ferðasumar.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.