Lífshlaupið

„Af hverju er mér alltaf illt í fótunum?“ spurði blaðamaðurinn Christopher McDougall lækninn sinn einn daginn og fékk svarið „af því þú skokkar“. Svarið þótti lækninum hans mjög eðlilegt þar sem hans reynsla var sú að sjúklingar hans sem skokkuðu fengu flestir einhver eymsli í fæturnar.

McDougal var þó með þrjóskari mönnum og vildi ekki fallast á þetta svar. Það sem truflaði hann var að honum virtist fjöldi spendýra hlaupa án þeirra þjáninga sem homo sapiens upplifa af sömu hreyfingu. Upp úr þessu hóf hann að leita fyrir sér að svörum við því hvað veldur þessu ástandi sem hrjáir ótrúlega margt fólk sem reimar á sig hlaupaskó.

Leitin leiddi hann djúpt inn í Mexíkóska eyðimörk þar sem hann hitti ættbálkinn Tarahumara sem voru þekktir fyrir gríðarlegt þol í langhlaupum. Þeir virtust heldur ekki fylgja neinum hefðbundnum reglum hlaupara hvað varðar skóbúnað, næringu og þjálfun.

Bók McDougal „Born to Run“ fer nánar yfir kynni hans af þessum ættbálki og endar á lýsingu á mögnuðu hlaupi nokkra af bestu náttúruhlaupurum Bandaríkjanna á móti bestu hlaupurum Tarahumara ættbálksins í keppni um hin Mexíkósku Kopargil.

Þá veltir hann því upp hvort fótaeymsli nútímamannsins eigi upptök sín í uppfinningu hlaupaskósins sem hann telur að hamli fætinum frá því að virka eins og náttúran hannaði hann og skapar því óvænt álag á fæturna. Þessar kenningar hafa leitt af sér þá þróun að víða á fjöllum má rekast á eldhressa snemm-miðaldra einstaklinga í gúmmísokkum í stað skóa.

Óhætt er að mæla með bók McDougals og hvetja fólk sem hefur hingað til haldið sig við malbikaða göngustíga þéttbýlisins að kíkja á hina frábæru náttúrstíga sem má finna um allt land.

Þá má fylgja sú brýning til sveitafélaga landsins að byggja upp fleiri og betri náttúrustíga og vanda til verka við merkingu á þeim til þess að auðvelda fólki að komast leiðar sinnar.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.