Krafan um loftgæði er hvorki húmbúkk né einkaflipp

Loftgæði eru auðvitað lífsgæði og skortur á loftgæðum – ef svo má að orði komast í nafnorðasýkinni – er heilsuspillandi. Tölur virðast benda til þess að loftgæðum hafi hrakað í Reykjavík á síðustu árum. Aukning í bílafjölda virðist hins vegar ekki nema að litlu leyti skýra aukna svifryksmengun.

Ákall fræga og fína fólksins í vesturbæ Reykjavíkur um meiri loftgæði rataði í fréttir í vikunni sem leið. Þekktur sjónvarpsmaður greindi frá því opinberlega að hann fyndi fyrir særindum í hálsi og taldi víst að um að væri að kenna svifryksmengun sem jú vissulega mældist í meira lagi þann daginn. Margir, flestir þeirra frægir og fínir, tóku undir með sjónvarpsmanninum og þá um leið það sjónarmið að um væri að kenna nagladekkjanotkun bíleigenda í Reykjavík.

Víst er að nagladekkin spæna upp malbikið á götum borgarinnar. Þau valda þannig bæði hávaða og óhreinindum. En á sama tíma veita þau talsvert viðnám þegar hálka er á götunum og stuðla þannig að meira umferðaröryggi í flestum tilvikum. Svo má ekki horfa alfarið framhjá því að margir borgarbúa, þar með talið fína og fræga fólkið, á stundum erindi út á land, jafnvel um vegi sem liggja hátt eða eru af öðrum sökum útsettir fyrir hálkumyndun. Viðnám sem nagladekkin veita í slíkum aðstæðum eykur öryggi.

En loftgæði eru auðvitað lífsgæði og skortur á loftgæðum – ef svo má að orði komast í nafnorðasýkinni – er heilsuspillandi. Tölur virðast benda til þess að loftgæðum hafi hrakað í Reykjavík á síðustu árum. Aukning í bílafjölda virðist hins vegar ekki nema að litlu leyti skýra aukna svifryksmengun. Bílum hefur fjölgað í öðrum bæjarfélögum án þess að loftgæðum hafi hrakað jafn mikið og í höfuðborginni.

Hvað skyldi valda því?

Ég hef tekið eftir því í mínu heimilishaldi að ryk og drulla á það til að safnast upp á gólfunum. Þótt það sé almenn regla hér að heimilisfólk og gestkomandi þrammi ekki um húsið á útiskóm, misjafnlega skítugum, þá dugar það ekki til að halda rykmynduninni í skefjum, alla vega ekki varanlega. Ég hef líka tekið eftir því að því lengri tími sem líður milli þess sem gólfin eru ryksuguð og skúruð því meira safnast upp af ryki og – á endanum – er ekki laust við að maður í það minnsta upplifi það sem svo að dregið hafi úr loftgæðum.

Það er engin ástæða til að þramma um húsið á skítugum skónum og notkun nagladekkja umfram þörf er jafn ástæðulaus. En það þarf samt að þrífa, ryksuga og skúra.

Við eigum að taka kröfuna um loftgæði alvarlega, hún er ekki neitt húmbúkk eða einkaflipp hjá fína og fræga fólkinu. Við eigum að gera þá kröfu um að þeir sem ábyrgð bera á þessu heimilishaldi, þrifum og almennri umhirðu, hér í borginni sinni því á þann hátt að borgarbúar þurfi ekki að sætta sig við skert loftgæði.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.